03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

383. mál, símamál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Mér finnst hlutur hv. þm. Friðriks Sophussonar ekki verða betri eftir þessa síðustu vitneskju sem hér var flutt í ræðustól. Nú er það upplýst, að hv. þm. Friðrik Sophusson hafði gert sér grein fyrir því, hvers eðlis þessi tæki voru, og hafði m. a. s. gert fyrirvara í fjvn. um afgreiðslu þeirra. Það er leitt að hv. þm. skuli ekki vera hér. Stundum er forseti beðinn að ná í ráðh., og ég vildi gjarnan að það væri náð í þennan ágæta þm., því að leitt er að ræða málið að honum fjarstöddum, það gæti orðið til þess að hv. þm. Geir Hallgrímsson yrði að tala enn einu sinni. Og verð ég að segja það, að miklu frekar vil ég hafa Friðrik Sophusson sem flm. eigin málstaðar heldur en að hann þurfi að treysta á liðsinni af því taginu.

Ég held, ef ég man rétt, að hv. þm. Friðrik Sophusson hafi sagt áðan að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvers eðlis þessi tæki voru. En nú kemur hv. þm. Lárus Jónsson og upplýsir það, að hv. þm. Friðrik Sophusson hafi haft um þetta fyrirvara og meira að segja ekki viljað taka þátt í endanlegri afgreiðslu málsins í fjvn. Þá spyr ég bara sem þm. Reykv. — og vil taka undir með foringja okkar, 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímssyni: Hvers í ósköpunum áttum við hinir að gjalda að Friðrik Sophusson skyldi ekki láta okkur vita? (Gripið fram í.) Já, þetta snerti okkur Reykvíkinga að ykkar dómi alveg sérstaklega. Hvers áttum við að gjalda að hann skyldi leyna okkur þessari vitneskju og ekki láta okkur þm. Reykv. vita á fundum okkar um þær ákvarðanir sem þarna var verið að taka?

Ég tel þess vegna, herra forseti, að þær upplýsingar, sem hv. þm. Lárus Jónsson flutti hingað inn í umr., staðfesti enn frekar að það hvílir á Friðrik Sophussyni mikil sök í þessu máli, að hafa ekki látið okkur þm. Reykv. fá vitneskju um málið fyrst hann vissi það á þeim tíma.