04.03.1981
Efri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

225. mál, hagkvæmni í endurnýjun skipastólsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um margt athyglisvert, ég ætti kannske að segja furðulegt. Ég skipaði í fyrrasumar nefnd til að fara yfir þessi mikilvægu mál. Ég fékk n. það verkefni sem ég skal nú lesa, með leyfi forseta:

„Starfshópur um endurnýjun fiskiskipaflotans skoði sérstaklega og skili áliti um eftirgreind atriði:

1. Eðlilega stærð flotans við núverandi aðstæður, miðað við líklega aukningu afla á næstu árum, með tilliti til atvinnuöryggis í hinum ýmsu byggðum landsins.

2. Endurnýjunarþörf, í fyrsta lagi togaraflotans og í öðru lagi bátaflotans. Endurnýjunarþörfin verði m. a. metin fyrir hinar ýmsu veiðar.

3. Æskileg aukning flotans á næstu árum, ef einhver er, fyrir hinar ýmsu veiðar með tilliti til áætlana um aukið veiðimagn.

4. Afkastagetu íslenskra skipasmíðastöðva til viðhalds og nýsmíði.

5. Kostnað við nýbyggingu innanlands til samanburðar við kostnað erlendis.

6. Hugmynd um sérhönnun fiskibáta til endurnýjunar á fiskiskipaflotanum.

7. Um raðsmíði slíkra báta.

8. Um stjórnun og stýringu á endurnýjun flotans.“ Þessi nefnd hefur haldið marga fundi og rætt málið mikið, safnað miklum mjög góðum og fróðlegum upplýsingum um bátaflotann, og togaraflotann, sem sagt fiskiskipaflotann. Hins vegar verður ekki sagt að þar hafi náðst samstaða, því miður.

Ég hef átt tvo fundi með n. og ég kynnst þeim ágreiningsatriðum sem þar eru. Þó virtist miða heldur í samkomulagsátt. Nú um áramótin og eftir áramótin komu fram í n. athyglisverðar till., og þá vill svo einkennilega til að sumar þessar till. eru nú komnar hér inn á Alþingi í frv.-formi og næstum því orðréttar eins. T. d. var lagt fram í nefndinni 19. jan. till. sem m. a. fjallar um það sem kemur fram í 1. mgr. þessa frv. Þar segir:

„Leyfilegt hámark endurnýjunar í bátaflotanum verði takmarkað við visst hlutfall (40–60%) meðalúrfalls næstliðinna tveggja ára.“

Í 1. mgr. segir: „Á hverju ári frá og með 1983 skulu viðbætur og endurnýjun fiskiskipa nema að hámarki 50% af meðaltali úrfalls tveggja næst liðinna ára.“

Þarna má heita orðrétt tekið upp það sem fram kom í n. 19. janúar. Hins vegar er sú till. miklu heillegri og á allan máta betur unnin en það frv. sem hér liggur fyrir.

Þá kom á s. l. hausti fram till. í n. sem er merkt trúnaðarmál og fjallar um það sama og hér er í ákvæði til bráðabirgða. Þar er lagt til að með fjármagnsstjórnun verði stuðlað að lágmarksframhaldi innlendrar skipasmíði, t. d. nýsmíði 1200 rúmlesta á ári. Hér er að vísu talað um hámarkið 1200 rúmlestir á ári. Ég átti fund með n. nú fyrir 3 dögum og menn voru þar ákaflega óhressir yfir því, að þetta skuli nú komið hér fram sem frv., þetta viðkvæma mál, og þar kom greinilega fram að engum nm. hafði dottið í hug að það kæmi til greina að lögbinda reglur sem þessar. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég tel það fásinnu að lögbinda svona reglur. Slík reglustrikuframkvæmd er að mínu mati útilokuð í þessum málum.

Ég sagði áðan að safnað hefði verið miklum upplýsingum, m. a. um fiskiskipastólinn. Ég vil geta þess t. d., að af fjölda báta, sem eru 774, eru 462 15 ára eða eldri. Og hvað á að segja t. d. við mikinn dugnaðarmann, sjómann sem sækir vel sjóinn og er úr kjördæmi hv. þm. sem talaði fyrir þessu máli? Hann er á 38 tonna bát, hann er 34 ára gamall, hann vill endurnýja. Sá maður telur sér ekki kleift fjárhagslega að láta smíða bát hér innanlands. Hann er búinn að fá tilboð í u. þ. b. 170 lesta bát, sem honum er sagt að kosti hátt í 2 milljarða. Þessi maður segir mér að hann skuldi ekki neitt og hann ætli ekki að steypa sér í það skuldafen sem slíku fylgir. Hann segir hins vegar að hann geti raunar varla boðið sinni duglegu áhöfn að sækja djúpt í þeim ógæftum sem hafa verið. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég held að maður eins og þessi eigi sannarlega að fá tækifæri til að endurnýja, fá sér einhvern stærri og betur útbúinn bát.

Þetta er aðeins eitt dæmi um fjölmarga eigendur þessara 462 báta, bátur sem þarf nauðsynlega að endurnýja. Ég mun koma að því á eftir, hvernig yrði um slíka endurnýjun með reglustrikuákvæðum eins og þeim sem fram koma í þessu frv.

Í Vestmannaeyjum, ef ég man rétt, eru 17 bátar síðan fyrir 1951 af 36 fiskiskipum og vitanlega orðið lífsspursmál fyrir þann stað að endurnýja flotann. Sá staður byggir nánast eða við getum sagt eingöngu á fiskveiðum. Hvernig yrði það má leyst með þessari reglu? Hér kemur hvergi fram í frv. hvernig eigi að úthluta þessu 50% kvóta sem ætlaður er til endurnýjunar. Ég tel jafnframt, eins og ég hef sagt, lög eins og hér er lagt til vægast sagt vafasöm, og vil ég nefna nokkur atriði fyrir utan slík dæmi sem ég hef nefnt nú frá einstökum stöðum.

Hvaða áhrif hafa svona lög á úreldingu skipa? Þeir menn, sem úrelda, hafa enga tryggingu fyrir því að þeir fái nýjan bát. Það fær einhver nýjan bát út á helming af því sem úrelt er. Er ekki alveg augljóst að við skulum segja dugnaðarmaður eins og sá, sem ég nefndi áðan, úreldir ekki 34 ára gamlan bát ef hann á á hættu að fá ekki annan í staðinn. Hann heldur áfram að sækja sjóinn í ógæftum með illa búinn bát að ýmsu leyti, og þetta hlýtur náttúrlega að leiða til þess, að flotinn eldist og verður óhæfari til að stunda veiðar.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að við eigum að stunda okkar veiðar með hagkvæmustu og fullkomnustu tækjum, og mér sýnist alveg ljóst að svona lög stuðla að hinu andstæða, ég held að á því sé ekki nokkur vafi.

Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, að afleiðingin yrði jafnframt sú að minna fellur úr eða úreldist. Ekki úreldist þá annað en sem ekki verður í veg fyrir komið, vegna bilana og aldurs, og þar með verður smám saman að sjálfsögðu endurnýjunin minni og minni og minni og minni verkefni fyrir í nýsmíði fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar, minnkandi öryggi o. s. frv.

Ég vil einnig segja það, að með svona reglu, ef að lögum yrði, er loku fyrir það skotið að einstaklingar, sem verða fyrir miklum bilunum með sína báta, t. d. bilun á vél, sem eru mörg dæmi um að kosta í viðgerð jafnvel meira en langtum yngri notaður bátur, — að þeir fái að endurnýja bátana. Það er eitt tilfelli nú fyrir Fiskveiðasjóðinn þar sem bilar vél í stórum bát. Áætlað er að það kosti 450 milljónir að endurnýja vélina og gera ýmislegt fleira við bátinn. Sá bátur er rúmlega 200 lestir, hins vegar kostar sama eða í mesta lagi 500 milljónir að fá 4 ára gamlan bát keyptan frá Færeyjum og tekur miklu, miklu skemmri tíma. Á að neyða manninn til að endurnýja þennan gamla bát, sem er orðinn, ef ég man rétt 18 ára eða meira, eða leggja hann til hliðar, úrelda hann, og gera útgerðinni kleift að fá annan bát í staðinn? Sú vinnslustöð, sem hér um ræðir, þarf nauðsynlega að hafa bát — og reyndar fleiri en einn. Hún getur ekki verið án þess að fá bát í staðinn eða leggja í það að endurnýja þennan bát með ærnum kostnaði. Ég held að svarið sé alveg augljóst, enda hafa allir, sem um þetta mál hafa fjallað, sagt: Þetta er alveg sjálfsagt. — Samkv. þeirri reglu, sem hér lögð til, er þetta útlokað mál. Báturinn yrði að úreldast og síðan fengi einhver 50% af rúmlestatölu bátsins sem nýjan bát.

Í þetta frv. vantar svo að sjálfsögðu öll ákvæði um það, hvernig á að úthluta þessum kvóta, til hvers á að taka tillit þegar sótt er um nýsmíði, sem eins og ég sagði áðan hlýtur mjög að dragast saman.

Ég verð því að segja að mér þykir út af fyrir sig leitt að vinna, sem er í gangi hjá hinum hæfustu mönnum sem hafa lagt mikið á sig í því að reyna að ná samstöðu um skynsamlegar reglur, skuli flutt hér í frv.-formi áður en n. lýkur sínum störfum. Mér var næst skapi að leggja niður þessa nefnd, þegar þetta gerðist, en ákvað að gera það ekki af því að verkefnin eru önnur og mörg. Hins vegar óttast ég að þessi staðreynd leiði til þess, að enn erfiðara verði eftir en áður að ná samstöðu, ekki síst þar sem n. virðist sammála um að aldrei hafi komið til mála að lögbinda slík ákvæði.

Ég vil svo geta þess, að ég mun nú eftir helgina leggja fyrir ríkisstj. þær hugmyndir sem ég hef um stefnumörkun á þessu sviði. Ég er alveg sammála hv. þm., að stefnumörkun í þessum málum er vitanlega óaðskiljanlegur þáttur í fiskveiðistefnu, og þess vegna hef ég á grundvelli m. a. þess, sem fyrir liggur þegar hjá nefndinni, samið ákveðnar reglur, sem ég tel rétt að um þetta gildi. Ég mun kynna þær fyrir Fiskveiðasjóði áður en hann afgreiðir þær umsóknir sem fyrir sjóðnum liggja nú.

Ég ætla ekki að tíunda það út af fyrir sig hér nú, en ég get sagt um þetta þó, að ég tel að það væri hæfilegt markmið að viðhalda flotanum eða sóknarþunganum nokkurn veginn eins og hann er nú, og ég tel svo brýnt að endurnýja bátaflotann, þennan gamla flota, til að koma í veg fyrir þær kollsteypur sem við höfum tekið hvað eftir annað í endurnýjun okkar skipa, að það verkefni verði að hafa forgang. Ég tel alveg sjálfsagt að menn, sem verða fyrir tjóni eða af einhverjum ástæðum þyrftu að leggja í gífurlegan kostnað við að endurnýja sitt skip, fái heimild til að endurnýja það með nýrra skipi, enda auki það ekki sóknarþunga þorskveiðiflotans. Ég er sammála því sem kemur fram í bráðabirgðaáliti frá n., að í sumum greinum sjávarútvegs ber að stöðva alla endurnýjun, eins og t. d. loðnuflotann eins og nú er ástatt. Það er enginn munur gerður á því í þessu frv.

Ég tel jafnframt að við úthlutun eða samþykkt á umsóknum um ný eða eldri skip þurfi að skoða ýmsa þætti, eins og t. d. þörf eins byggðarlags fyrir aukinn afla af atvinnuástæðum eða hver aldur þess bátaflota þess byggðarlags er orðinn. Ég tel alveg sjálfsagt, að innlend skipasmíði gangi fyrir, og hef því t. d. óskað eftir því í sambandi við umsókn frá einu byggðarlagi, Vestmannaeyjum, að þeir kæmu með sambærilegt tilboð frá innlendum skipasmíðastöðvum, og það liggur nú fyrir. Ég tel sjálfsagt að mönnum verði gert skylt að taka slíku tilboði ef það er innan skynsamlegra marka borið saman við það erlenda.

Þessar og fleiri hugmyndir, sem eru nú til umr., má vitanlega framkvæma án lagasetningar. Í fyrsta lagi getur stjórn Fiskveiðasjóðs framkvæmt þær sjálf, og í öðru lagi hefur ráðh. vald til þess að breyta reglugerð ef talið er nauðsynlegt til þess að tryggja að framkvæmd verði með slíkum hætti.

Ég vil svo segja það, að inn í þetta blandast mál eins og t. d. úreldingarsjóður. Ég sé að hv. þm. er með frv. um það líka. Þetta er líka mikið rætt í n. og komnar á blað hugmyndir eins og þarna eru. Úreldingarsjóð þarf að efla, það er alveg ljóst, og ég geri ráð fyrir að það verði gert. Það þarf að hraða endurnýjun bátaflotans, og til þess þarf að útvega meira fjármagn. Í því skyni koma ýmsar leiðir til greina.

Menn tala ákaflega mikið um að þorskveiðiflotinn sé allt of stór. Ég ræddi fyrir nokkrum dögum við einn mikinn aflamann í Vestmannaeyjum sem er bæði að hans og annarra dómi með mjög góða áhöfn. Hann mótmælti þessu harðlega og sagði að menn væru að tala um að auka okkar afla og tekjur með því að minnka flotann. Hann sagði: Jafnvel með minni áhöfn treysti ég mér ekki til að leggja á mannskapinn meiri afla, ef vel á að fara með hann, og þar eru að sjálfsögðu gerðar miklu meiri kröfur en áður var. Dæmið er nefnilega ekki eins einfalt og sumum reiknimeisturum hættir til að setja það upp, að hver togari geti aflað 30 tonn á dag og það eru 270 vinnudagar í árinu, m. ö. o. geti togarinn aflað 8100 lestir á ári. Niðurstaðan: 86 togarar geta tekið allan aflann og því má leggja öllum bátaflotanum. Þetta er öfgafull uppsetning kannske, en þannig í raun og veru nálgast útkoma reiknimeistaranna á stærð bátaflotans. Það er að sjálfsögðu ekkert tillit tekið til þeirra skakkafalla sem einstakar byggðir yrðu fyrir með slíkum niðurskurði, jafnvel 30% niðurskurði bátaflotans, þannig að mín niðurstaða er nú sú, eins og ég sagði áðan, að það beri að leggja á það áherslu að halda flotanum innan þeirra marka sem hann er nú, en leggja áherslu á endurnýjun bátaflotans, það sé okkur nauðsynlegt, bæði einstökum byggðarlögum og til þess að tryggja að við sækjum aflann með bestu fáanlegum tækjum.