04.03.1981
Efri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

225. mál, hagkvæmni í endurnýjun skipastólsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því áðan, að tölur og jafnvel setningar í frv. þessu eru svo að segja óbreyttar frá tillögum sem komið hafa fram í ákveðinni nefnd sem að þessum málum hefur starfað. Ég bar aldrei upp á hv. þm. að hann hefði stolið þessu. Það kann að vera að hann hafi fengið leyfi þeirra manna sem þetta fluttu, ég veit það ekki. En það hlýtur að vekja nokkra undrun þegar svo nákvæmlega er fylgt þeim till. sem þar koma fram.

Ég sagði aldrei að þær till. væru ágætar af því að þær voru komnar frá nefndinni. En nefndin hafði alls ekki lokið umfjöllun um þetta og það eru mjög skiptar skoðanir í nefndinni um slík ákvæði. Ég sagði að engum í nefndinni, eins og þeir sögðu mér sjálfir, hefði dottið í hug að til greina kæmi að setja slíkt í lög. Og ég sagði að þessar tillögur hér væru að því leyti lakari, að ýmislegt fleira er í tillögum nefndarmanna sem þarf að fylgja með þegar svona mál eru ákveðin.

Ég hef sjálfur aldrei talið koma til greina að fastsetja reglu um þessi 50%. Ég tel hana vera fjarstæðu, og ég rakti áðan hvers vegna. En hv. þm. kom ekkert inn á það sem er vitanlega kjarni málsins. Ég minnist ekki þess, að ég hafi upplýst að nefndin legði til að banna innflutning á fiskiskipum. Það hlýtur hv. þm. að hafa annars staðar frá. Einstakir menn þar hafa verið með þær hugmyndir, en nefndin hefur ekki lagt það til. En ég nefndi að 1200 lestirnar væru sama og kemur fram í nefndinni, að vísu sem lágmark þar því þar voru menn að hugsa um skipasmíðastöðvarnar, en ekki sem hámark.

Það er út af fyrir sig rétt, að ákvæði um úthlutun mættu koma í reglugerð. En ég held að menn ættu þá að gera sér grein fyrir því, hvernig slík ákvæði gætu orðið og hvernig á að framkvæma þau lög sem menn eru að hugsa um að setja. En kjarni málsins er vitanlega þessi, að slíkt sem þetta hlýtur að leiða til þess, að minna og minna verður úrelt, menn sleppa ekki bátunum nema tilneyddir, ef þeir hafa sáralitla von um að fá endurnýjun.

Á árinu 1980 úreltust 1311 lestir. Frá 18. júlí á síðasta ári til miðs febrúar úrelti Úreldingasjóður, þ. e. keypti, 863 brúttólestir, og það var ekki of mikið framboð. Það leit lengi svo út að ekki yrði hægt að ráðstafa þeim peningum sem Úreldingasjóður hefur. Hvers vegna? T. d. maðurinn, sem ég nefndi áðan, lætur ekki sinn 38 tonna bát, þó hann sé 34 ára gamall, nema hann hafi nokkra von í að ná í bát sem hann ræður við. Bátar eru ófáanlegir núna hér á almennum markaði. Það eru nokkrir staðir kringum landið sem leita mjög að bátum, þá vantar meiri afla. En bátar hafa verið ófáanlegir — algjörlega ófáanlegir. Og svona regla, að ekki megi endurnýja nema um 50% af því sem úreldist, hlýtur að leiða okkur úr öskunni í eldinn að þessu leyti. Menn úrelda enn síður sína báta. Þetta er kjarni málsins. Þarna hef ég rætt um málið frá útgerðarinnar hlið, en frá hlið skipasmíðastöðva er málið ekki síður alvarlegt.

Hitt verð ég að segja, að þó að ég beri hag skipasmíðastöðvanna mjög fyrir brjósti hef ég ekki getað fallist á að smíða eigi fiskiskip þeirra vegna án tillits til þess hvað fiskstofnar þota o. s. frv.

Deiluatriði hér er m. a. það, hvort aðkallandi sé að draga úr stærð fiskiskipaflotans eða hvort hann geti verið í svipaðri stærð og nú. Það tengist náttúrlega því, hvað menn gera ráð fyrir miklum afla af Íslandsmiðum í framtíðinni, þrátt fyrir allar hrakspár. M. a. hv. þm., þegar hann gegndi störfum sjútvrh., lagði til takmarkanir sem voru mikið ræddar í ríkisstj. og ég fyrir mitt leyti taldi skynsamlegar. Samt sem áður hefur þorskstofninn eflst, eða eins og einn fiskifræðingurinn sagði: það virðist útilokað að gera út af við þennan blessaða þorsk. Tillögur fiskifræðinganna eru þegar komnar upp í 400 þús. lesta ársafla. Hvað getur hann orðið mikill? Skýrslur sýna okkur að þegar þorskafli hefur farið yfir 500 þús. lestir, þá hefur aflinn þau tvö tímabil, sem það hefur gerst, hrunið árin á eftir. En aðrar og mjög mikilvægari breytingar hafa orðið. Á örfáum árum hefur hlutdeild af smáfiskaflanum gjörbreyst. Meira að segja árið 1976 var um 25–30% af aflanum þriggja ára fiskur og yngri, en núna um 5% af aflanum, og þessu fylgir náttúrlega að tonnatalan getur orðið meiri. Ég hef rætt þetta við fiskifræðinga sem hafa viðurkennt að þetta kunni að vera mjög mikilvægt, og þetta er reyndar ástæðan fyrir því, að þeir hafa endurskoðað sínar niðurstöður. Hvort þetta getur leitt til þess, að íslensk mið beri meira en 500 þús. lestir, jafnvel þó að þau hafi ekki borið það áður, skal ég engu um spá, en ég held að ljóst sé að stofninn þolir meiri veiði, þegar veiddur er stærri fiskur, heldur en eins og þetta var áður. Þetta sjá að sjálfsögðu allir.

Við viljum vitanlega veiða karfa, verðum að veiða hann, ufsa og aðra fiskstofna: Þó að menn kalli það skrapdaga og geri lítið úr, þá viljum við veiða þá stofna. Niðurstaða mín er því sú, þegar jafnframt er tekið tillit til byggingarsjónarmiða og atvinnusjónarmiða, að alls ekki sé svo ljóst sem sumir vilja vera láta að skipastóllinn sé of stór, þegar til nokkuð langs tíma er litið. Ég held að það stefni óðum að því, að íslensk fiskimið geti borið sóknarþunga eins og nú er. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að skipastóllinn sé í hámarki og eigi að sporna gegn frekari aukningu hans.

Ég vil þess vegna halda því fram, að vel getur svo farið að þetta frv. nái alls ekki þeim tilgangi sínum að draga ört úr stærð flotans. Menn halda gömlu bátunum og láta gera við þá, og það er ákaflega hættuleg og svo varasöm þróun að ég hlýt að mæla eindregið gegn því, að svona regla verði tekin upp í lög. Þetta eru vitanlega hin efnislegu aðalatriði þessa máls.

Hv. 5. landsk. þm. fjallaði áðan um þetta mál og get ég tekið undir það sem hann sagði. M. a. get ég tekið undir það sem hann sagði um skipasmíðastöðvar sem hafa sérhæft sig í smærri bátum. Það er alveg rétt að þessir bátar gegna mjög mikilvægu hlutverki, ekki síst þegar litið er á þarfir einstakra byggðarlaga þar sem slík útgerð hentar vel. Þeir skapa verulega atvinnu og verulegar tekjur og þeir auka ekki svo að um sóknarþungann, t. d. í botnfiskaflann. Ég hef talið af ýmsum ástæðum rétt að reyna að stuðla að því, að þessar skipasmíðastöðvar fái fyrirgreiðslu í Fiskveiðasjóði. Því máli er alls ekki lokið.

Ég hef farið fram á að þetta verði athugað. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að afstaða Fiskveiðasjóðs hefur verið nokkuð neikvæð, m. a. vegna þess að töluvert af þessum bátum eru grásleppubátar og Fiskveiðasjóður hefur ekki fengið framlag af þeirri afurð, a. m. k. ekki enn, og þess vegna ekki talið sér eins skylt að lána til slíkra báta. Nú eru vitanlega sumir þessara báta notaðir á aðrar veiðar, en stundum erfitt að greina á milli. Ég hef litið svo á að m. a. þetta málefni hljóti að verða að afgreiða með þeirri stefnumörkun sem nú er verið að reyna að framkvæma og ég vinn að í samráði við að sjálfsögðu formann Fiskveiðasjóðs. Ég hef ekki hér með mér lista yfir umsóknir til sjóðsins hafa borist nú, þær eru nokkuð miklar, en það er mjög áberandi að mjög er sótt um einmitt smærri báta af þessari stærð.