04.03.1981
Neðri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

212. mál, reglugerð um sjómannafrádrátt

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil beina því til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að athuga jafnframt og bera saman gildandi lagaákvæði um fiskimanna- og sjómannafrádrátt og þá reglugerð, sem núv. hæstv. fjmrh. hefur gefið út varðandi sjómannafrádráttinn. Ég hygg að þá muni koma í ljós að reglugerðarákvæðin stangist á við sett lög, eins og formaður fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, lýsti yfir í frammíkalli þegar skattamálin voru síðast til umr. hér í deildinni. Ég vek athygli á því, að þessi hv. þm. er sérlegur skattaráðunautur þessarar ríkisstj. og kom mjög nálægt setningu núgildandi tekjuskattslaga á sínum tíma. Ég geri því ráð fyrir að hann muni fúslega verða við þessari beiðni og leggja til við n. að frv. verði flutt til þess að staðfesta fyrri vilja Alþingis ef þörf er á.