05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér nokkur orð í tilefni þeirrar þáltill. sem hér er til umr. Ég hef ekki í hyggju að fjalla í löngu máli efnislega um þessa till., en vil, eins og ég áður sagði, segja nokkur orð.

Ég vil fagna því, að þegar slík till. kemur fram verður jafnan opinská umræða um þann málaflokk eða þá málaflokka, af hvaða tagi sem till. er, en í þessu tilfelli um landbúnaðarmál. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu, en eins og við vitum allir hafa ýmis orð fallið í gegnum árin, sérstaklega síðustu ár, að því er varðar íslenskan landbúnað, þá framleiðslu sem frá honum hefur komið. Ég segi það sem mína skoðun, að það er afar mikilvægt að í þeirri umr., sem hér fer fram og mun fara fram, verði íslenskum landbúnaði ekki að fótakefli pólitískt ofstæki eða annað af því tagi.

Eftir því er ég fæ best séð er þessi tillaga að mestu leyti af því tagi, að hún fetar þær götur sem menn hafa leitast við að ganga að því er varðar framleiðslumál landbúnaðarins. Að vísu eru þar örfá frávik, en að mestu leyti sýnist mér þar vera höggvið í sama knérunn, og þá er það niðurstaða mín, að sú framleiðsluskerðing eða framleiðslustjórnun, sem beitt hefur verið um nokkurt skeið, hafi verið óhjákvæmileg samkvæmt því efni, sem fram kemur í tillögunni, og jafnframt þær aðferðir, sem beitt hefur verið til framleiðslustjórnunar, verið óhjákvæmilegar. Niðurstaðan og reynslan hefur sýnt það undanfarin tvö ár, að í allri þeirri umfjöllun, sem fram hefur farið meðal bænda sjálfra um þessi efni, hafa menn í sannleika ekki komið auga á aðrar aðferðir en beitt hefur verið, þ. e. kvótakerfi og fóðurbætisskatti í framhaldi af kvótakerfinu.

Nú skal ég játa það, að þegar kvótakerfið var sem mest til umræðu setti miklar efasemdir að mínum huga og eftir því sem ég reyndi að horfa fram í tímann, þá óttaðist ég að bændur landsins yrðu felmtri slegnir, sérstaklega yngra fólkið sem hafði á ýmsum forsendum haslað sér völl í þessari atvinnustarfsemi, þ. e. landbúnaðinum. Ég óttaðist að þetta fólk mundi flýja sveitirnar. En reynslan hefur nú sýnt það, þrátt fyrir beitingu þessa kvótakerfis eða þrátt fyrir umfjöllun þess, — skal nú tekið fram að í verðlagningu er ekki farið að beita því enn sem komið er, — þá hafa enn þá a. m. k. ekki gerst alvarleg tíðindi að því er varðar flótta úr sveitunum. Þvert á móti er nú reynslan að fjölmargir, ekki aðeins peningamenn úr Reykjavík, — það er ekki rétt sem kom fram hér áðan úr þessum ræðustól, — heldur ýmsir aðrir leita mjög út í sveitirnar og leita mjög eftir jarðnæði til búskapar. Þetta er staðreyndir.

Í till., sem hér er til umr., er aðeins vikið að fóðurbætisskattinum eða kjarnfóðurgjaldi og það er talið eðlilegt ráð til þess að stemma stigu við offramleiðslu og ég get tekið undir það. Hins vegar vil ég segja að í till. gæti e. t. v. svolítils tvískinnungs. Hér stendur — með leyfi forseta — á bls. 9:

„Sjálfstfl. er andvígur því fyrirkomulagi í stjórn framleiðslumála er byggist á framleiðsluskömmtun eða kvótafyrirkomulagi, eins og sú aðferð er jafnan nefnd.

Með þeim fyrirvörum, sem að framan greinir,“ — og nú tel ég of langt mál að telja upp alla þá fyrirvara, en væntanlega er hv. alþm. kunnugt um þá, — „með þeim fyrirvörum, sem að framan greinir, er þó hægt að fallast á að slíkar heimildir séu fyrir hendi í lögum.“

Þarna komum við að dálítið mikilvægu atriði. Og þá er það stóra spurningin, hvernig menn ætla að meta það og vega á hvaða tímamótum skuli beita kvótakerfinu. Það er gert ráð fyrir því, að þessi heimild sé gjarnan í lögum, en þegar hlutir eru skjalfestir í lögum verðum við að reikna með að hugsanlega verði þeim beitt.

En varðandi þá stefnu, sem nú er rekin í landbúnaði, ætla ég út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð. Það er mála sannast og við vitum það allir alþm., að 1972 var gerð tilraun til þess að koma á fót framleiðslustjórnun í landbúnaði. Það tókst ekki, því miður. M. a. af þeim sökum óx þetta vandamál. Við skutum gá að því, að landbúnaður er frjáls atvinnustarfsemi, og það er svo, að við Íslendingar erum nú hugdjarfir og við viljum gera meira á morgun heldur en við gerðum í dag. Og einmitt þetta hefur nú aðeins leitað á huga minn að því leyti, að ég hef reynt að gera mér í hugarlund ástæðuna sem fyrst og fremst liggur að baki því, að menn stunda búskap.

Nú sýnir reynslan að meðaltekjur bænda hafa yfirleitt ekki náð þeim mörkum sem menn hafa viljað; yfirleitt ekki náð tekjum viðmiðunarstéttanna, því miður. En þá komum við að spurningunni: Af hverju eru menn í búskap? Ef ég ætti að svara þessu í sem fæstum orðum, þá vildi ég segja að það væri það hóflega frelsi sem menn njóta eða hafa notið í þessari atvinnustarfsemi. En það er ekki þar með sagt að þetta eigi að gerast stjórnlaust. Það er sitt hvað höft eða stjórn. Og þar er svo, að þegar við lítum til annarra atvinnuvega neyðast menn til þess að stjórna þar líka. Hvernig er í sjávarútvegi? Hvernig er í iðnaðarframleiðslunni? Þar er reynt að haga svo málum að einstaklingar eða hópar troði ekki skóinn hver niður af öðrum.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að við eigum að reyna þetta svonefnda kvótakerfi. Við eigum að reyna það. Það er óhæfa að slá úr og í, e. t. v. á hverju ári, hafa þessa stefnuna þetta árið og hina það næsta. Það er ótækt, og ég held, þegar öllu er á botninn hvolft, að við munum læra af þessu. Staðreyndin var sú, eins og ég áður gat um, að menn urðu að grípa til einhverra ráðstafana til þess að stemma stigu við síaukinni framleiðslu. Og það skal játað, að kvótakerfið hefur haft áhrif, en að ýmsu leyti er þar úr vöndu að ráða um rétt áhersluatriði. Við verðum að nýta þennan tíma vel til þess að líta til allra átta og meta stöðuna gaumgæfilega. Og það var einmitt öðrum þræði tilgangurinn með því að nema staðar þar sem komið var.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að við eigum að reyna þetta svonefnda kvótakerfi. Við eigum að reyna það. Það er óhæfa að slá úr og í, e. t. v. á hverju ári, hafa þessa stefnuna þetta árið og hina það næsta. Það er ótækt, og ég held, þegar öllu er á botninn hvolft, að við munum læra af þessu. Staðreyndin var sú, eins og ég áður gat um, að menn urðu að grípa til einhverra ráðstafana til þess að stemma stigu við síaukinni framleiðslu. Og það skal játað, að kvótakerfið hefur haft áhrif, en að ýmsu leyti er þar úr vöndu að ráða um rétt áhersluatriði. Við verðum að nýta þennan tíma vel til þess að líta til allra átta og meta stöðuna gaumgæfilega. Og það var einmitt öðrum þræði tilgangurinn með því að nema staðar þar sem komið var.

Nú vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram að því er varðar atvinnustarfsemi úti um landsbyggðina og byggðastefnu. Öðrum þræði verða landbúnaður og byggðastefna ekki sundur skilin. En við bændur segjum það nú gjarnan, að við séum ekki einir stétta sem eigum að greiða fyrir þá byggðastefnu, enda er alls ekki þannig. Atvinnustarfsemi úti í dreifbýlinu á öðrum forsendum en landbúnaðar er kannske ekki síður áhyggjuefni í dag. Og þegar við erum að tala um samdrátt í landbúnaðarframleiðslu, þá tek ég undir það sem hér hefur komið fram. Það hefur ekki verið nægilega hugað að því, hvert þjóðhagslegt gildi þeirrar umframframleiðslu, sem nefnd hefur verið svo, er í raun og veru.

Nú er það mála sannast, að þúsundir manna hafa atvinnuframfæri sitt af úrvinnslu landbúnaðarvara og þjónustu við landbúnað úti um land. Og það liggur í hlutarins eðli, að ef um yrði að ræða allverulegan samdrátt frá því, sem nú er, þá missa auðvitað atvinnu sína hópar fólks. Það liggur í hlutarins eðli. Ella vex okkur langt yfir höfuð úrvinnslukostnaður þessara vara.

Vegna þessarar till., sem hér er til umr., lýsi ég því yfir, að það er mjög af hinu góða að fleiri og fleiri taki virkan þátt í umr. um landbúnaðarmál. Og ég segi það hiklaust, það er mönnum til lofs þegar þeir leitast við að leggja fram tillögur. Það er mjög af hinu góða. Hins vegar er það svo, að menn setja inn í tillögur allan skrambann sem er kannske ekki allt af miklu viti. En sú umr., sem slíkar tillögur vekja, held ég að hljóti að vera af hinu góða. En ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Við megum ekki verða til þess, að atvinnuvegi eins og landbúnaði verði að fótakefli pólitískt ofstæki, hvaðan sem það kemur, og við eigum að ræða þessi mál hreinskilnislega og opinskátt.

Þegar talað er um nýjar búgreinar held ég að við verðum að fara að taka á honum stóra okkar og framkvæma í alvöru eitthvað af því tagi. Vandamál landbúnaðar í dag eða sú stefna, sem menn vilja koma fram, er kannske tvíþætt. Það er í annan stað að hafa hemil á hefðbundinni framleiðslu okkar, þ. e. sauðfjár- og mjólkurafurðum, en í annan stað að stofna til nýrra búgreina sem örðum þræði gætu fyllt í skarðið, en jafnframt af því taginu og til þess að auka búsetumöguleika og lífsafkomu þeirra sem dreifbýlið byggja. En varðandi nýbúgreinarnar svokölluðu eru stór vandamál, og það er mála sannast, að það er allt annað að tala um landbúnað í ljósi hinna hefðbundnu framleiðslugreina, þ. e. sauðfjárframleiðslu og nautgriparæktar. Þetta er atvinnuvegur sem hefur verið með þjóðinni um aldir. Hitt er, eða sumt a. m. k. miklu nýrra af nálinni. Og það er nú svo, að það gengur stundum erfiðlega að segja við þennan og segja við hinn: Þú átt að hafa þessa starfsemi með höndum. — Ég veit að fjölmargir bændur eru þannig sinnaðir, að þeim þykir ekki meiri skyldleiki t. d. með loðdýrarækt við landbúnað heldur en það, að hvort tveggja heyrir undir landbrn. Viðhorf sumra bænda, sem ég þekki til, eru á þennan veg, enda eru þessar búgreinar að ýmsu leyti gerólíkar ef lítið er til samanburðar.

Ég hef lýst því áður yfir og geri það enn, að þeir, sem landbúnað stunda, verða að eiga möguleika til tekna sem nægja til framfæris. Annaðhvort eru menn bændur eða ekki.

Í framhaldi af þessu vil ég segja að það þarf auðvitað að auka fjölbreytni atvinnulífsins. En það er ekkert á móti því að bóndi, sem hefur e. t. v. brugðið búi, stundi einhverja aðra atvinnustarfsemi svo framarlega sem hann hefur hefur sveitfesti í viðkomandi byggðarlagi. Það er byggðin sem verður að halda ákveðnum þéttleika til þess að hægt sé að halda uppi eðlilegu mannlífi í þessu landi.