05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Þetta eru orðnar allmiklar umræður og er sjálfsagt að lýsa ánægju sinni yfir því. Þær hafa verið að ýmsu leyti gagnlegar og þingmenn hafa rætt þessi mál af yfirvegun yfirleitt og margt verið réttilega sagt.

Ég skal ekki fara í löngu máli út í ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, hv. 5. landsk. þm., en hann spurði um tiltekin atriði í fyrsta lagi hvað hefði verið unnið af hálfu rn. frá því í nóv. s. l. að útreikningum á því, hvernig það komi út að greiða hluta af niðurgreiðslum af útflutningsbótum beint til bænda. Ég svara því mjög á sömu lund og ég gerði, að ég hygg, 25. nóv., er ég hafði þann fyrirvara, að starfsmenn Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs væru enn mjög önnum kafnir við útfærslu á þeim reglum sem bændasamtökin hafa samþykkt og landbrh. lögum samkvæmt hefur ekki heimild til þess að gefa þeim fyrirmæli um að hverfa frá, svo að meðan sú vinna stæði væri þess varta að vænta að mikið gerðist í þessu máli. Hins vegar mun þessi vinna nú langt komin, og er sjálfsagt að athuga það frekar. Hins vegar er rétt að vekja á því athygli, að um þetta sérstaka atriði hafa ekki komið fram óskir frá fulltrúum bænda yfirleitt. Nú skal ég síður en svo draga í efa að hv. 5. landsk. þm. sé fulltrúi bænda eins og annarra kjósenda í okkar kjördæmi. En þeir, sem eru fulltrúar í bændasamtökunum, hafa ekki hvatt mikið til þessa máls.

Hv. þm. minntist hér á eitt dæmi í þeim útreikningum sem fyrir lágu í bréfi hans frá Stéttarsambands bænda 6. mars 1979. Þar kemur út úr því dæmi, þar sem reiknað væri með að 25% framleiðslukostnaðar væru greidd hverjum bónda á 500 ærgilda búi beint af niðurgreiðslufé, í fyrsta lagi, að miðað við það kerfi yrði verð samanlagt á mjólk 70 kr. hærra til neytanda, en á dilkakjöti yrði heildsöluverð 486 kr. hærra á kíló. Þetta dæmi kom því þannig út, að það sýndist ekki hagstætt. Enn hefur ekki komið í ljós að hér sé um hagstæða leið að ræða. En það geta vitaskuld orðið breytingar miðað við nýjan vísitölugrundvöll, eins og ég drap á í minni ræðu, að þá gæti komið hagstæðar út að verja fé af niðurgreiðsluþætti ríkisútgjalda til þess að greiða niður frumþarfir framleiðslunnar. Það er ókannað mál og verður að bíða síns tíma. En ég mun nú ítreka þetta við fulltrúa bændasamtakanna, vegna þess að þessi ósk hefur komið hér fram að nýju á hv. Alþingi, og beina því til þeirra, hvort þeir sjái sér fært að leggja vinnu í að athuga þetta frekar.

Nú vil ég aðeins segja það, eins og ég sagði 25. nóv., ef ég man þá dagsetningu rétt, að það eru mjög mikil vandkvæði á framkvæmd þessa máls, — mjög mikil vandkvæði. Ég lagði mikla vinnu í það, bæði sjálfur og lét líka leggja mikla vinnu í það s. l. haust, að athuga á hvern hátt væri hægt að koma því við að greiða beint til bænda orlofsþáttinn sem nú er inni í búvöruverðinu. Við þá vinnu, sem væri mjög sambærileg að kerfi til, kom það í ljós, að það urðu slíkar flækjur að ég treysti mér ekki til að koma þessu í framkvæmd, sem ég taldi hagstætt ef einföld eða tiltölulega greiðfær framkvæmdaleið hefði fundist. Svo væri bæði fyrir neytendur og framleiðendur.

Því miður fundust ekki við þá vinnu, sem í þetta var lögð á þeim tíma, nægilega greiðar framkvæmdaleiðir til þess að við treystum okkur til að fara í þann þátt málsins, og það er mjög sambærilegt hvað framkvæmd snertir við það sem hv. þm. talar nú um.

Hv. þm. beindi jafnframt fsp. til hæstv. viðskrh., sem ekki er nú viðstaddur, varðandi þann þátt málsins, hvað gert hefði verið í því að framfylgja ályktun Alþingis um að koma því fé, sem bundið er í rekstrarlánum og afurðalánum landbúnaðarins, beint til bænda. Ég fól í fyrravetur sérstakri nefnd, sem vann að athugun á afurðalánakerfinu, að taka þetta mál til sérstakrar athugunar. Þessi nefnd skilaði áliti, ef ég man rétt, nú eftir áramót. Því miður er ég ekki með nefndarálitið hjá mér, ella væri mjög nauðsynlegt að koma niðurstöðum úr því nál. á framfæri við hv. 5. landsk. og raunar við Alþingi í heild. En niðurstöður úr áliti nefndarinnar voru mjög neikvæðar á þá lund að það hefðu ekki fundist leiðir til þess að framkvæma þetta á þann máta sem ályktun Alþingis gerði ráð fyrir.

Formaður þessarar nefndar, sem hafði verið skipuð fyrir mína tíð í landbrn., var Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrv. menntmrh. o í n. voru fulltrúar frá bankakerfinu, þ. á m. Seðlabanka Íslands, og frá Alþingi og að ég hygg frá bændasamtökunum. Nú minnist ég þess, að hv. þm. Árni Gunnarsson var einn af nefndarmönnum, og hann sagði mér, eftir að nefndin hafði komist að niðurstöðum sínum, að niðurstöður hennar væru í rauninni mjög alvarlegar fyrir Alþingi vegna þess að sýnilegt væri að Alþingi hefði samþykkt till. sem erfitt væri að framkvæma.

Mér er ekki kunnugt um það, hvort hæstv. viðskrh. hefur látið vinna í þessu frekar, vegna þess að þessu máli hefur nú upp á síðkastið verið beint til hans, og eins og ég segi, ég er ekki með þessar niðurstöður nefndarinnar hér hjá mér.

Nú þykist ég vita að það sé unnt að finna leiðir í þessu máli sem eru kannske nokkuð á annan veg en hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur gjarnan orðað, og þær leiðir eru í raun og veru framkvæmdar á vissum framleiðslusvæðum. Það er á þann veg, að ég hygg, að framleiðslufélögin hljóti og verði að vera lántakendur þessara lána, en þau gætu lagt þessa fjármuni annað tveggja inn á viðskiptareikning hlutaðeigandi framleiðanda eða inn á bankareikning hans, gjarnan eftir samkomulagi milli framleiðslufélags og milli hlutaðeigandi einstaklings. Þessa leið hygg ég hægt að fara í svona máli. Hitt hef ég aldrei talið fært, að gera alla framleiðendur búvöru á Íslandi að lántakendum. Ég hef aldrei talið það fært. Ég hef ekki tölu á því, hvað þeir eru margir, en þeir eru vafalaust a. m. k. fjórum sinnum fleiri en bændur í landinu, og að hafa bókhald á því öllu saman og endurgreiðslur í lagi, tryggingar o. s. frv., það er án efa of flókið kerfi.

Ég skal ekki eyða tíma í að ræða það, hvort nú séu einhver meiri vandamál í landbúnaði en verið hefur. Ég tel að þau séu í raun og veru minni en var fyrir einu til tveimur árum, enda þótt vandamálin séu ærin. Þau eru af ýmsum toga og meira að segja þeim þáttum sem lítt hefur borið á í þessari umræðu í dag. Skal ég ekki fara að leiða þá þætti inn í hana nú þegar svo langt er komið. En þau vandamál eru auðvitað ærin í íslensku þjóðfélagi, það vitum við og ég skal ekki gera lítið úr því. En ég held þau séu raunar heldur minni en þau hafa verið fyrir einu til tveimur árum.

Hvort hér sé ofstjórn eða óstjórn á þessum hlutum, þá vil ég nú ekki taka undir það. Ég tel að bændastéttin og forustumenn hennar hafi tekið á framleiðsluvandamálum sínum með miklum myndarskap. Út af fyrir sig getum við sagt að það hefði kannske eitthvað mátt betur fara, en við öðru var ekki að búast. En bændastéttin hefur haft forustu um það og löggjafinn veitt lagaheimildir til þess að gera það mögulegt að leysa að verulegu leyti úr þeim framleiðsluvandamálum sem íslenskur landbúnaður var staddur í. Að þeim orðum loknum get ég ekki tekið undir það með hv. 5. landsk., að vandamálin séu nú stærri en áður var.

Í sambandið við ræðu hv. 11. landsk., 1. flm. þessarar till., þá er það út af fyrir sig alveg hárrétt hjá honum, að sú till., sem ég vitnaði í að ég hefði verið 1. flm. að, var flutt fyrir rúmlega einu ári. En hún var fyrst flutt fyrir tveimur árum. Hún var endurflutt á haustþingi árið eftir og ekki afgreidd á því þingi. Hún var ekki afgreidd og hefur ekki verið endurflutt. Það þarf því ekki að bera neitt á milli okkar um það.

Hv. þm. gerði nokkuð mikið úr því, að þau stefnumál, sem þessi till. byggðist á, væri unnin upp úr gögnum frá Þjóðhagsstofnun og Hagstofu Íslands. (Gripið fram í: Meðal annars.) Hv. 1. flm má vel standa í þessari trú. En þau gögn, sem hér birtast frá þessum tveimur ágætu stofnunum, eru í fyrsta lagi fskj. V frá Þjóðhagsstofnun, þar sem er skrá um magn og verðlag búvöruframleiðslunnar árin 1963–1979. Þar eru verðvísitölur, magnvísitölur og til hliðar er þar einnig vísitala hámarksábyrgðar verðtryggingar, þ. e. útflutningsuppbóta. Frá Þjóðhagsstofnun er einnig skrá um útfluttar landbúnaðarafurðir 1963–1978 og verðmæti þeirra á óbættu útflutningsverði svo og innanlandsverði og hlutfallstölur þar að lútandi. Frá Hagstofu Íslands er hér skrá um það, hvernig 10% verðábyrgð, þ. e. útflutningsbætur hafa nýst á árabilinu 1963–1979. Þetta eru allt saman þýðingarmikil gögn og er mjög gott að fá þau hingað. En í þessu felst ekki nein stefnumörkun, þó að þessi gögn hafi sögulegt gildi og sýni þróun búvöruframleiðslunnar og verðlags.

Ég þakka hv. flm. fyrir skilgreiningu hans á framleiðslusjónarmiðinu, sem ég tel fullnægjandi skýrt af hans hálfu, þannig að það sé meining flutningsmanna að framleiðslan skuli miðast við það að 10% verðtryggingin haldist og sé fullnýtt. Þetta tel ég fullnægjandi skýringu og ég þakka hv. flm. fyrir það.

Þá kemur aftur að framleiðslustjórnuninni sem er í rauninni aðalatriðið í útfærslu á þessari till., þ. e. eftir að grundvallaratriðunum sleppir. Þá fór nú heldur að versna í því. Sem sé tillagan sjálf, eins og hún er úr garði gerð og ég las nokkrar setningar úr, er eiginlega staðfesting á því, að flm. vilja stefna á sama hátt og gert hefur verið í þeim aðgerðum til stjórnunar á framleiðslu sem beitt hefur verið síðan ég kom í landbrn. og raunar nokkru áður. Hún er staðfesting á því.

En ræða hv. flm., seinni ræða hans, var bara öll í aðra átt og það þótti mér sannast sagna mjög svo einkennilegt. Ég skal ekki fara að rekja þetta því að mér finnst ekki taka því, því að till. sjálf liggur fyrir. Hún er á borðum allra hv. þm. og þar segir sem fyrsta atriði í þessari till., að heimilt sé að leggja gjald á allt innflutt kjarnfóður og svo til viðbótar gjald á umframnotkun. Svo kemur hv. þm. hér og segir að kjarnfóður, sem notað er til innanlandsframleiðslu, eigi að vera gjaldfrítt. Og hann talar um þetta sem vanskapnaðarkróga. Ég veit ekki hvort ræða hv. þm. ætti að kallast vanskapnaðarkrógi, því að hún fór alveg á mis við till. sjálfa sem hann var að mæla fyrir. Svo koma aftur í grg. till., sem er auðvitað í samræmi við tillögugreinina sjálfa og allt gott um það að segja, — þar koma fram sterkar röksemdir fyrir kjarnfóðurgjaldi, sem sjálfsagt er. Flm. virðist styðja sína till. sterkum rökum.

Það er sjálfsagt og má þakka honum fyrir það. Hann hefur gert það mjög skýrt. Það segir m. a.: „Notkun kjarnfóðurs hefur tekið breytingum eftir verðlagi þess á hverjum tíma, sem síðan hefur komið fram í aukinni framleiðslu. Þetta sýnir að kjarnfóðurgjald er áhrifamikil leið til að stjórna framleiðslu á búvörum.“

Ég tel ekki þörf á því að lesa fleiri setningar úr grg. þessarar till. (Gripið fram í.) Till. sjálf og grg. eru í samræmi, flm. vilja kjarnfóðurgjald, telja það áhrifaríkustu og þá fyrstu leið sem fara á til stjórnunar á framleiðslu búvara. Og ég er alveg sammála um þetta.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fjalla um þetta í löngu máli. Ég vil aðeins taka það fram, sem hv. 1. flm. minntist hér á og vitnaði í Árna Jónasson, að minnkun kjarnfóðurnotkunar hefði haft óveruleg áhrif á framleiðslu búvara. Þetta getur allt verið að nokkru leyti rétt. Hér segir í fréttabréfi frá upplýsingaþjónustu landbúnaðarins 1. mars, þar sem er útdráttur úr uppgjöri frá nautgriparæktarfélögunum í landinu, að talið sé einna athyglisverðast í skýrslum að þrátt fyrir að kjarnfóðurgjöf hafi minnkað um 231 kg á ársbú hafi nytin aðeins minnkað um 53 kg á ársbú hjá nautgriparæktarfélögunum. En samkvæmt kenningu eiga að fást 2–2.5 kg af mjólk fyrir 1 kg af fóðurblöndu. Samt minnkaði nytin aðeins um 53 kg við það að kjarnfóðurgjöfin dróst saman um 231 kg. Það virðist sem sé koma í ljós, að kjarnfóðurgjöf hafi verið í óhófi til mjólkurframleiðslu að undanförnu og að menn hafi ekki einungis framleitt mjólk sem þeir hafi síðan ekkert getað fengið fyrir, vegna þess að mjólkurafurðir hafi ekki selst fyrir meira en vinnslukostnaði á erlendum markaði, heldur hafi þeir lagt í stórkostleg útgjöld við kjarnfóðurkaup sem síðan hafi sama og ekkert fengist fyrir í framleiðslu. Það má því leiða að því getum, að á einhverjum svæðum landsins geti bændur í nautgriparæktarfélögunum, sem sjá þessar tölur fyrir framan sig, jafnvel lært eitthvað í fóðurfræði. Það er auðvitað gott ef við getum keppt að aukinni hagkvæmni í framleiðslu og að samdrætti í notkun erlendra aðfanga og haldið samt nokkurn veginn í horfi með framleiðslu.

Hv. 1. flm. þessarar till., 11. landsk. þm., undraðist það að bóndinn á Akri, sem ætti lagðprúða hrúta, skyldi þurfa að spyrja um gildi sauðfjárframleiðslu og sauðfjárræktar. Nú er það svo, að ég þykist kannske vita mínu viti um sauðfjárrækt og gildi hennar. En það eru bara ekki allir sem viðurkenna það sem ég segi — við skulum segja úr þessum ræðustól. Ég hafði hugsað mér að fá úttekt á þjóðhagslegu gildi umframframleiðslu í landbúnaði til þess að fá niðurstöður sem fólkið í þéttbýlinu tryði. Til þess voru settir í þá nefnd starfsmenn frá opinberum stofnunum, eins og Þjóðhagsstofnun og hagdeild Seðlabanka Íslands, til að taka þátt í þessari úttekt. Ég hafði nefnilega sterka trú á því, að ég segi kannske vissu, að það mundi sannast að það væri hagstætt fyrir íslenska þjóð að framleiða sauðfjárafurðir enda þótt hluta þeirra þyrfti að flytja út með verðuppbótum úr ríkissjóði. Svo mikilvæg er þessi framleiðslugrein í mínum augum og ég trúi því enn, að þegar niðurstöður fást úr þessari úttekt muni þetta sannast. Allt, sem hv. þm. Egill Jónsson sagði, studdi þetta, ekki síst það sem hann las um ullariðnaðinn úr ritgerð eftir Svein Björnsson og var auðvitað mikilsvert innlegg í þetta mál þó það sé ekki nema hluti af dæminu. Ég hef stundum rakið þetta dæmi nokkru lengra, ég skal ekki taka tíma í það nú, en það dæmi er stórt þegar allir þættir þess eru skoðaðir.

Ég held því að það sé mikilvægt fyrir þá, sem bera hagsmuni landbúnaðarins fyrir brjósti, að slík sönnunargögn fáist, ef okkur tekst að fá því ráðið til lykta, — slík sönnunargögn verði lögð á borðið af hálfu aðila sem þjóðin í heild trúir. Þá höfum við fengið fastari grundvöll í allri landbúnaðarumræðu og sú landbúnaðarumræða er stundum með nokkuð sérkennilegum hætti, — en þá höfum við fengið fastari grundvöll að standa á heldur en við höfum haft hingað til. Þó svo að ég þykist vita mínu viti í þessu máli og þó svo að hv. þm. Egill Jónsson viti kannske allt um þetta mál, þá er ekki alveg víst að aðrir viðurkenni þetta fyrr en við höfum úttekt aðila sem þjóðin öll ber traust til. En það er þetta sem liggur að baki því að sett var nefnd til að vinna þetta verk.

Herra forseti. Vegna þess að það líður dagurinn, þó ærið sé órætt, skal ég ekki lengja þetta mál. En málefni landbúnaðarins og stefnumál í landbúnaði eru, eins og hér hefur verið ítarlega bent á, ákaflega þýðingarmikið mál fyrir bændastéttina, fyrir það fólk sem byggir sveitir landsins, en ekkert síður fyrir þjóðina í heild. Við þurfum að styðja þá umræðu þeim gögnum að það geti tekist sátt um þessi mál. Og að það sé ekki tengur unnt fyrir óvandaða menn, hvaðan sem þeir koma, að halda uppi óhróðursskrifum eða óhróðurstali um landbúnaðarmálin, eins og stundum hefur gerst, því miður.