05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. landbrh. þegar hann segir að það sé nauðsynlegt að hafa úttekt, sem allir trúi og allir geti treyst, þegar talað er um þessi mál, því að það hefur því miður af mörgum aðilum og úr öllum áttum verið talað um þessi mál af allt of miklu ofstæki, líka af fulltrúum þeirra sem verja landbúnaðarstefnuna og hafa varið hana á undanförnum árum. Ég er því mjög ánægður með það að menn hafi einhvern fastan grundvöll til að standa á og menn viti vel hvað þeir eru að tala um.

Það ber að virða að bændur og forsvarsmenn þeirra hafa nú tekið upp stjórnun á framleiðslu landbúnaðarvara og hafa á ýmsan annan hátt tekið upp skynsamlegri stefnu og skynsamlegri vinnubrögð en oft áður hafa verið uppi höfð. Betra hefði auðvitað verið og ástandið ekki eins slæmt og nú er raunin á ef forustumenn landbúnaðarins hefðu áður hlustað á og tekið alvarlega aðvaranir Alþfl. um það, hvert óheft offramleiðsla mundi leiða. En betra er seint en aldrei.

Mér hefur ávallt fundist mismunur á kjörum bænda innbyrðis óhóflega mikill og miklu meiri en gengur og gerist annar staðar í þjóðfélaginu. Lítið sem ekkert hefur verið gert af forustumönnum landbúnaðarins til að lagfæra þetta. Mér finnst að mjög sé nauðsynlegt að þetta verði lagfært, ekki síst núna þegar verið er að draga úr landbúnaðarframleiðslu, sem hlýtur auðvitað að koma niður á mörgum.

Herra forseti. Það er margt skynsamlegt í þeirri þáltill. sem hér er til umr. Við Alþfl.- menn getum stutt efni hennar í mörgum veigamiklum atriðum þótt við séum ekki sammála um þáltill. á öllum sviðum.