05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég get haldið áfram að þakka mönnum fyrir undirtektir við þessa till., og ég get reyndar endurtekið það sem ég sagði fyrr í þessum umr., að mesta viðurkenningin á till. finnst mér vera afstaða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar.

Það er kannske óþarft að vera að tefja tímann með að leiðrétta ummæli hæstv. landbrh. um það sem hann sagði að ég hefði sagt, að ég vissi allt um gagnsemi sauðfjárræktar á Íslandi. Ég held að hann hafi tekið misgrip á mönnum. A. m. k. bendir orðalagið til þess, að það hafi verið einhver annar maður sem hafi verið að segja að hann vissi allt, það hafi ekki verið ég, enda var það ekki svo.

Það er svo annað mál, að ég satt að segja þekki ekki það fólk og veit ekki um það fólk sem þarf að leggja í sérstaka vinnu til að sannfæra það um gildi landbúnaðarins. Ég held að almenningur á Íslandi sé miklu jákvæðari gagnvart landbúnaðinum en kom fram í ræðum bæði hæstv. landbrh. og hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, nema þá þeir umgangist eitthvað fólk sem hefur neikvæðar hvatir til landbúnaðarins.

Það er í rauninni aðeins eitt efnisatriði sem ágreiningur er um á milli okkar flm. og hæstv. landbrh., og ég fagna því. Það hefur í rauninni ekki komið fram nema eitt einasta atriði og það er varðandi kjarnfóðurgjaldið. Það er það eina sem er deiluefni. Og nú skal ég enn einu sinni skýra þetta fyrir hæstv. landbrh. svo að ekkert fari á milli mála.

Það segir í till., með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt verði að leggja gjald á allt innflutt kjarnfóður, er að upphæð verði svipað og nemur útflutningsbótum á kjarnfóðri frá viðskiptalöndum okkar.“

Þetta er margbúið að lesa og menn ættu þess vegna ekki að vera í vafa um við hvað þessi viðmiðun er bundin. Hún er ekki bundin við 33%, heldur er hún bundin við útflutningsbæturnar frá Efnahagsbandalagslöndunum, og þetta ákvæði á ekkert skylt við framleiðslustjórnun. Þetta er hugsað sem vörn landbúnaðarins gegn því að fá niðurgreitt vinnuafl inn í landbúnaðinn. Þannig er þetta hugsað. Og eins og ég gat um í minni fyrri ræðu er langleiðina búið að fella þetta gjald niður á þessu ári og kjarnfóðurverð er núna með þeim hætti, burt séð frá öllum sköttum, að íslenskri fóðurframleiðslu stafar ekki nokkur hætta af samkeppni við það. Aftur á móti er hámarksgjaldið sá þátturinn sem við bendum á til að skapa aðhald að landbúnaðarframleiðslunni, og af því að ráðh. byrjaði að lesa, þá er best að lesa til enda þar sem hann hvarf frá. Það stendur svo á bls. 9, með leyfi hæstv. forseta:

„Notkun kjarnfóðurs hefur tekið breytingum eftir verðlagi þess á hverjum tíma sem síðan hefur komið fram í aukinni framleiðslu. Þetta sýnir að kjarnfóðurgjald er áhrifamikil leið til að stjórna framleiðslu á búvörum.“ — Þetta las hæstv. ráðh., en lengra fór hann ekki. Framhaldið er svona:

„Sé lítið á skiptingu kjarnfóðurs eftir búgreinum má ætla að nálega helmingur þess fari til nautgriparæktar, ca. 1/5 til sauðfjárræktar og ca. 30% til annarra búgreina. Augljóst er að kjarnfóðurgjald kemur þannig misjafnlega niður á hinar einstöku búgreinar, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða til andstöðu við það innan bændastéttarinnar.“

Enn fremur segir: „Þá ber líka að athuga, hvernig tekjum af kjarnfóðurgjaldi yrði varið. Sé það ekki talið til kostnaðar við búreksturinn er það orðin bein skattlagning á bændurna í landinu. Þess vegna er lögð á það áhersla, að það fjármagn, sem fæst vegna kjarnfóðurgjalds, verði hagnýtt þannig að leiði til frekari framleiðni í búrekstri, hagkvæmni við innlenda fóðurframleiðslu, svo og til þróunar verkefna, allt eftir eðli og möguleikum hverrar búgreinar.“

Þetta er sá meginmunur sem er á skoðunum okkar hæstv. landbrh. í þessum efnum, að við viljum ekki hafa þetta sem taunagreiðslu, við viljum ekki hafa þetta sem tilfærslu á milli búgreina og við viljum ekki hafa þetta sem verðjöfnunargjald í landbúnaðinum. Það eru til önnur ákvæði og alveg fullnægjandi ákvæði í framleiðsluráðslögunum um það, hvaða heimildir séu fyrir hendi um verðmiðlun á landbúnaðarvörum. Og ef landbrh. vildi bara tala aðeins skýrara en hann hefur gert, þá er það hans stefna að hafa lágan skatt á allt kjarnfóður og nota hann til verðjöfnunar í landbúnaðarframleiðslunni. En við eigum eftir að tala um kjarnfóðurgjald á þessum vetri, en þetta ætti vafalaust að geta orðið til þess að menn skildu frekar hverjir aðra í þessum efnum.

Mér er að sjálfsögðu skylt að verða við tilmælum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar um að skilgreina bústærðina í þessu landi. Það er kannske af því að hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem var að springa hér af vísdómi áðan, var að tala um og útskýra kvótakerfið, að það væri með þeim hætti alls ekki hugsað til þess að draga úr búfjárstofninum í landinu. Ég held að það þyrfti að gera úttekt á ýmsu þjóðhagslegu gildi frekar en sauðfjárrækt í þessu landi. Kvótakerfið er þannig upp byggt og hugsað, að það fæst minna eftir því sem búin verða stærri, og það leiðir af sjálfu sér og er beinlínis tilgangurinn með þessu, að það felst í því ákveðinn hvatning, það er ákveðinn hagnaður fyrir bændurna, vegna þess að minni skerðing verður ef þeir minnka sinn bústofn og minnka sína framleiðslu. Þetta er grundvallarþýðingin í sambandi við kvótakerfið, og þetta veit hv. þm. eins og allir aðrir þm. á Alþingi Íslendinga. Hann stendur ekki einn í þessari trú. En annað er það sem skiptir meira máli, og það er að gefa hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni svar við spurningu hans. Þá er um það að segja, að í rauninni tökum við ekki beinlínis tillit til bústofnsstærðar í landinu. Hún er nú orðin það minnsta sem hún hefur verið á tveimur áratugum. Mjólkurkúastofninn er núna minni en hann hefur verið nokkurt ár í tvo áratugi, og sauðfjárstofninn er svipaður að meðaltali og hann var á áratugnum milli 1960 og 1970, þegar útflutningsbótarétturinn dugði. Og við því er varað, eins og komið hefur hér fram, af okkur flm. að fækka búfé frá því sem nú er.

En svo að ég taki enn einu sinni fram hver er okkar raunverulega viðmiðun í sambandi við framleiðslumálin, þá er það markaðurinn hér innanlands og 10% verðtryggingin og ef ekki þarf á henni að halda njóti bændur hennar til annarra þarfa en að flytja út landbúnaðarvörur. Þetta er ákaflega mikilvægt vegna þess að það hlýtur að vaka með bændunum sú eðlilega viðleitni að fullnýta þennan tekjustofn, og þá eru þeir frekar með landbúnaðarframleiðsluna yfir markinu heldur en undir því. Ef þeir hafa hins vegar tryggingu fyrir því, að þetta yrði ekki skert þótt þeir nýttu það ekki til útflutningsbóta, heldur færi t. d. til niðurgreiðslu á áburði, þá mundi það verða frekari hvati og reyndar mjög ákveðinn hvati til þess að halda landbúnaðarframleiðslunni innan þessara marka.