05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fór sem mig grunaði, að ég hefði það ekki alveg ljóst í kollinum hvort lögð væri til fækkun eða fjölgun eftir svar hv. flm. Hann gat þess hér, að það væri varað við fækkun. Eigi að trúa orðanna hljóðan hlýtur það að leiða til þess, að maður geti ályktað gagnkvæmt: Það er ekki varað við fjölgun. Og til þess að hafa þetta alveg á hreinu vil ég skilja orð hv. flm. á þann veg, að það sé ekki lagt til að sauðfé á Íslandi verði fækkað vegna þjóðhagslegs gildis sem það hefur fyrir iðnaðinn. Þetta verður þá jafnframt að skilja á þann veg, að þeir flm., sem hér skrifa undir, séu sammála flm. um þetta. Vissulega er það mikil stuðningsyfirlýsing við það sem hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni í dag.