04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu máli. Ég hafði raunar hugsað mér að gera það og er mjög ánægður yfir að hann skyldi hafa átt frumkvæði að þessu, þó ég væri ekki ánægður með lokaorð hans, að hann sætti sig við að þessu yrði lokið á kjörtímabilinu. Ef ríkisstj. skyldi nú halda velli allan þann tíma, þætti mér það fulllöng bið, einkum þegar það er haft í huga, að fólkið norður á Sléttu taldi sig hafa loforð um að þessi lína yrði lögð á s.l. sumri. Ég hef haft samband við fólkið þar fyrir norðan, og mér er kunnugt um að það taldi sig hafa þetta loforð og bjóst við að einhverjar framkvæmdir yrðu á s.l. sumri.

Ég þarf ekki að segja þingheimi frá því, að þarna norður frá, á nyrsta hjara norður við heimskautsbaug, er byggðin náttúrlega veik, einkanlega ef um mikil harðindi yrði að ræða, og ég held að það sé óhjákvæmilegt að ákvörðun verði tekin í þessu máli og fyrir liggi hvenær þetta fólk getur vænst þess að fá rafmagn. Og ég saknaði þess satt að segja, að hæstv. iðnrh. skyldi ekki hafa gefið bindandi loforð um að það yrði eigi síðar en á sumrinu 1982, úr því að hann treysti sér ekki til þess að fá það samþykkt í ríkisstj., að málið fengi þá afgreiðslu þar að framkvæmdir gætu hafist strax á næsta ári. Hann talaði um að 300 millj. kr. vantaði í því skyni. Ég skal ekki liggja á liði mínu að hjálpa honum að útvega þær, ef ég finn að hugur fylgir máli, að raunverulega sé vilji til þess að koma til móts við þetta fólk, sem eins og ég sagði býr norður við hjara, á því svæði á landinu þar sem myrkrið er lengst og veturinn harðastur. Mér finnst það nokkur rök fyrir því að láta þetta verkefni hafa forgang umfram það sem km-talan segir til um.

Ég vil einnig þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á því, að á sínum tíma voru gefin fyrirheit um það vegna hafísnefndarinnar, að verulegt átak yrði gert til þess að opna veginn milli Raufarhafnar og Kópaskers. Ég man ekki betur en hæstv. samgrh., sem þá var, núv. hæstv. fjmrh., hafi farið norður til Þórshafnar til þess að guma af þessum vegi og belgja sig út. En nú liggur það sem sagt fyrir, að það á að svík ja öll þau fyrirheit, sem þá voru gefin, og það fé, sem heitið var og lofað var, á ekki að fást til vegarins. Það liggur fyrir eins og þau mál eru hugsuð nú.