09.03.1981
Efri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

229. mál, greiðslutryggingarsjóður fiskafla

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir hjá hv. þm. Guðmundi Karlssyni, 9. landsk. þm. (Gripið fram í: Þær voru nú ekki nema sæmilegar.) Ég vil, herra forseti, þakka ágætar undirtektir hjá þessum þm. vegna þess að hann gaf sér tóm til þess að huga að því meginvandamáli sem hér er við að fást meðan aðrir sátu hnípnir og þorðu ekki að hugsa. Þetta var meginatriði málsins.

Auðvitað er okkur flm. ljóst að við getum ekki boðið upp á bjór í innlendum höfnum. Auðvitað er okkur flm. ljóst að við getum ekki boðið upp á ódýrari olíu í innlendum höfnum. Auðvitað er okkur flm. ljóst að siglingar muni ekki leggjast af þótt þetta frv, yrði samþykkt. En hitt vitum við, að útgerðaraðilar hafa haldið því fram, að það mundi duga í ýmsum tilvikum til þess að þeir fengjust til að landa afla utan heimahafnar ef þeir ættu trygga staðgreiðslu aflans. Hitt vitum við flm., að ýmsir útgerðaraðilar taka þá ákvörðun að sigta með aflann beinlínis vegna þess að þeir fá staðgreiðslu þegar siglt er. Auðvitað getur þetta frv. ekki komið í staðinn fyrir bjórinn eða olíuna, en það tekur á þeim þætti sem við ráðum þó bærilega vel yfir. Það tekur á þætti sem við getum raunverulega haft áhrif á. Og ef það reynist nægilegt, eins og margir útgerðaraðilar hafa haldið fram, til þess að laða afla á þann stað þar sem hráefnisekla er, ef það reynist nægilegt að tryggja staðgreiðslu aflans, væri auðvitað vítavert gáleysi að reyna það ekki eins og staðan er nú í sjávarútvegsmálum hjá okkur.

Það var þessi skilningur sem kom fram hjá hv. þm., og það var þessi skilningur sem var mikils virði. Það var þessi skilningur sem ég vil sérstaklega þakka.

Eins og ég tók fram í framsögu minni áðan er okkur flm. vitaskuld ljóst að hér sé um vandasamt mál að ræða og að sú fjárhæð t. d., sem þarna er tiltekin, upp á hálfan milljarð gkr., sé ákaflega takmörkuð. Við erum reiðubúnir að taka það til endurskoðunar ef mönnum sýnist að þetta sé svo áhrifaríkt tæki að það þurfi meira fé. Það þarf auðvitað ekki meira fé ef tækið er ekki áhrifaríkt. Það er vegna þess að menn trúa á þetta, eins og hv. þm. Guðmundur Karlsson áðan, sem menn tala um að það þurfi meira fé. Það erum við vitaskuld reiðubúnir til þess að líta á og viljum gjarnan fá mat sem flestra á því, hvað sé hæfileg upphæð í þessum efnum.

Annað atriði, sem hv. þm. Guðmundur Karlsson vék hér að, var um stjórnun sjóðsins. Ég skildi hann þannig, að það gæti stundum þurft að taka skjótar ákvarðanir. Það er vissulega rétt. En áður en ég vík að því vil ég samt gera örlitla grein fyrir því, hvernig þetta kerfi er hugsað af hálfu okkar flm., hvernig við mundum leggja til við stjórn sjóðsins að hann hagaði sér í stórum dráttum.

Menn vita það með einhverjum fyrirvara hvar sé fyrirsjáanleg hráefnisekla eða hvar sé líklegt að hráefnisekla komi upp næstu þrjá, fjóra eða sex mánuðina. Þeir staðir, sem telja sig búa við slíkar aðstæður, mundu geta haft samband við stjórn sjóðsins og skýrt henni frá því, að þannig væru mál hjá þeim að líklegt væri að þetta kæmi upp. Þá gæti stjórn sjóðsins gengið frá tryggingum, veðum, fasteignaveðum t. d., sem baktryggingu fyrir hugsanlegum lánum sem síðar yrðu veitt. Hitt yrði síðan að vera samningsatriði milli sjóðsstjórnarinnar og fiskkaupendanna, hvort t. d. fiskkaupandinn væri reiðubúinn að veita vilyrði um það að einhver hluti af greiðslu fyrir afurðir, þegar að því kæmi, rynni til greiðslu á láninu eða að afurðalán gætu mætt þessu að einhverju leyti. Það yrði að vera samningsatriði í hverju tilviki, en hins vegar væri baktryggingin fyrir hendi og hefði verið frá henni gengið áður. — Þetta er í rauninni aðalhugmyndin um það, hvernig menn gætu staðið að þessu. Við töldum ekki rétt að setja þetta í lagafrumvarpsform, því að þetta er einungis hugmynd, sem rétt er að reifa og ræða, en hins vegar ætluðum við sjóðsstjórninni að ganga frá atriðum af þessu tagi.

Hitt er það, hvort ákvarðanir kunni að vera teknar nógu rösklega. Það var út frá því, að ákvarðanir gæti þurft að taka með tiltölulega skömmum fyrirvara, sem við flm. settum það ákvæði í frv. að það skyldi vera þriggja manna stjórn. Hún þarf auðvitað helst að vera þannig staðsett á landinu að hún geti náð saman. Þetta töldum við að þeir, sem ættu að velja í stjórnina, mundu skilja. En ef mál hefðu verið undirbúin með tilliti til þess að líklegar aðstæður væru nokkuð þekktar fyrir fram, þá töldum við að það mundi auðvelda störf stjórnarinnar og hún ætti að geta ráðið við að taka svona ákvarðanir með mjög skömmum fyrirvara. Ef menn hins vegar eru hræddir um, að þetta yrði engu að síður of þungt í vöfum, er í rauninni ekkert sem hindrar það í þessu lagafrv., eins og það liggur fyrir, að stjórnin fæli oddvita sínum að taka ákvarðanir um þessi mál eftir þeim línum sem stjórnin hefði lagt. Það er ekki beinlínis sagt í frv. að þannig skuli gengið til verka, en það er heldur ekkert sem hindrar það. Við völdum þann texta, sem hér hefur verið fluttur, með tilliti til þess, að það væri ekki tekið fyrir möguleika af þessu tagi, að sá möguleiki væri opinn.

Herra forseti. Ég vil að lokum enn þakka hv. þm. 9. landsk. þm., Guðmundi Karlssyni, fyrir ágætar undirtektir undir þetta mál. Ég vil ítreka það, að það eru mál af þessu tagi sem hafa lent út undan hér á Alþingi, en það eru mál af þessu tagi sem skipta mjög miklu máli um það, hvernig okkur miðar í þá átt að bæta lífskjörin hér á landi, að gera lífið betra hér.