09.03.1981
Efri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2872)

229. mál, greiðslutryggingarsjóður fiskafla

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv., sem hér er til umr. um Greiðslutryggingarsjóð, og er það sumpart vegna þeirra ummæla hv. 2. þm. Reykn. og 1. flm., að þm. hafi setið hnípnir við umræðurnar og ekki virst þora eða vilja taka til máls.

Ég vil ekki viðurkenna að ég hafi setið neitt hnípinn yfir þessu máli. Ég hlustaði nokkuð vel á framsögu hv. 1. flm. og hef hugleitt þetta mál nokkuð. Ég geri ráð fyrir að ég sitji í þeirri nefnd sem um þetta fjallar síðar, hvort sem það er sjútvrn. eða fjh.- og viðskn., þannig að ég muni eiga eftir að sjá þetta.

En ég vil taka undir ummæli hv. flm. og frsm. hvað varðar miðlun fisks milli fiskvinnslustöðva eða milli staða. Það mál tel ég að þurfi að taka sérstaklega til athugunar. Ég vil geta þess, að í Norðurlandskjördæmi eystra hefur þegar átt sér stað á undanförnum árum nokkuð mikil miðlun afla milli staða. Þar hefur fiskur verið fluttur milli Akureyrar og Húsavíkur í töluverðum mæli. Þar hefur fiskur verið fluttur milli Húsavíkur og Grenivíkur. Og nú stendur einnig til með nýjum atvinnuháttum á norðausturhorninu, þ. e. Þórshöfn og Raufarhöfn, sem hv. flm. kallaði „Þórshafnarævintýrið“, að miðla afla. Allt eru þetta skref í rétta átt.

Hvort þetta frv. og sú stofnun sjóðs, sem hér er um rætt, er til þess fallið að örva miðlun afla skal ég ekki segja um á þessu stigi. Það kann að vera. Það er alla vega stefnt að því að gefa mönnum tryggingu fyrir því að fá afla greiddan ef þeir landa utan heimahafnar. En því hafa fylgt ýmis önnur vandamál en það að fá greiddan aflann. Við vitum að það, sem kannske hefur helst staðið í vegi fyrir miðlun afla milli staða, er að viðhald skipa og viðgerðir þurfa gjarnan að fara fram meðan skipin staldra við í heimahöfn. Þá þarf að vera þar aðstaða til þess. Þá aðstöðu þarf að byggja upp í heimahöfn skipsins. Hæstv. viðskrh. nefndi einnig frítíma sjómanna, sem gjarnan fylgir þessu, og að sjómenn vildu, þegar löndun fer fram, vera í heimahöfn eða í sinni heimabyggð. Það eru kannske miklu fremur þau vandamál sem staðið hafa í vegi fyrir því, að miðlun gæti átt sér stað og farið fram í þeim mæli sem þörf væri á, heldur en þetta mál með greiðsluna, þó að það spili sjálfsagt inn í líka.

Ég held að það vandamál, sem í frv. er fjallað um, sé enn þá víðtækara. Útgerðarmenn hafa bent mér á að hugsanlegt væri að meta það til einhverra prósenta í fiskverði ef þeim væri tryggð greiðsla fyrir hráefnið hverju sinni eða eins fljótt og unnt er eftir að löndun hefur átt sér stað, ekki endilega vegna þess að það væri utan heimahafnar, heldur ekki síður í heimahöfn. Það mál þyrfti að taka til athugunar. Það fellur ekki sérstaklega að miðlunarmálum, en ég tel að það ætti að skoða og gæti jafnvel komið til skoðunar í sambandi við þetta frv. þó að það sé ekki beinlínis tilgangurinn með flutningi þess.

Þetta eru hugleiðingar. Ég undirstrika að ég tek undir það með flm. hv. 2. þm. Reykn., að huga þarf að þessum miðlunarmálum og leita leiða til að auka miðlun með aukna hagkvæmni í huga og með það í huga að samræma betur veiðar og vinnslu, eins og mikið hefur verið um rætt.