09.03.1981
Efri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

229. mál, greiðslutryggingarsjóður fiskafla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér hygg ég að hafi verið hreyft máli af skynsamlegum og góðum tilgangi, enda þótt ég hefði það næstum því á tilfinningunni undir ræðu hv. 1. flm., hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, að e. t. v. ætti frv. fremur að heita: Um löðun afla.

Ég hygg að andmæli þau, sem fram hafa komið gegn frv. og sem lúta að siglingu skipanna og fjarveru úr heimahöfn, fái ekki að öllu staðist vegna þess að alls ekki er loku fyrir það skotið, ekki einu sinni ýjað í þá átt, að ekki megi flytja þennan fisk á milli með bifreiðum og að einum og sama farmi verði þá e. t. v. miðlað á fleiri en eina höfn.

Ég treysti mér ekki til þess að gagnrýna þau atriði sem lúta að stofnun sjóðs í þessu skyni. Fram að þessu hafa bankarnir lánað út á fisk upp úr sjó. E. t. v. væri rétt að láta bankana um þetta framvegis, en greiða fyrir því — e. t. v. með lagaákvæðum eða öðrum ráðum — að fjármagn verði auðfengnara úr bönkum í þessu skyni en verið hefur. Það breytir ekki þeirri staðreynd að minni hyggju, að hér sé hreyft góðu og athyglisverðu máli, að það sé nytsamlegt að ræða um það, með hvaða hætti við getum stuðlað að miðlun afla milli hafna, einkanlega frá togaraflotanum.

Ég vil minna á það, að samþykkt var á sínum tíma þáltill., flutt af Lúðvík Jósepssyni, sem miðaði að skipulagi á löndun bolfiskafla milli fiskiðjuvera. Ég vildi gjarnan ræða þetta mál einmitt í tengslum við hugsunina sem þar lá að baki.

Ekki er mér alveg ljóst hvort við getum borið íslenska fiskverkun, og kannske enn þá síður fiskverslun, saman við þær aðstæður sem kölluðu á sínum tíma á stofnun

Råfisklaget í Noregi, þar sem um er að ræða allt annars konar fyrirkomulag á fiskversluninni. Meira er um fiskkaupmenn með Noregsströnd sem kaupa fisk og selja jafnóðum, og aðstaða Norðmanna til sölu á ísuðum fiski, ísuðum flökum, hálfaðgerðum fiski, er miklu betri en okkar aðstaða og fiskverslun miklu almennari, ef svo má segja, en hér er, þar sem langflest fiskiðjuverin okkar eru, guði sé lof, í samfélagseign og eru tengd atvinnuuppbyggingu á stöðunum meðfram ströndinni.

Ég tel þetta frv. vel þess virði að huga að því og ræða það. En það er ætlan mín, að vandlega þurfi í þessu máli að gá jafnframt að öðrum leiðum sem til þess væru fallnar að tryggja hráefnismiðlun milli hafnanna.

Það má vel vera, og ekki skal ég þræta fyrir það, að löngunin í góðan bjór og svolitla upplyftingu í leiðinni, þegar siglt er með afla, geri það að verkum að áhöfn taki tilhugsuninni um siglingu með afla glaðlegar en ella hefði verið. Ég hygg þó að í ákaflega mörgum tilfellum sé þetta þannig, að útgerðaraðilar skipsins telji sig eiga von í betra verði þegar blöndun afla er rétt á sæmilegum markaði erlendis. Svo er náttúrlega frekar á að líta að gera má ódýr innkaup í ýmsum myndum í sambandi við siglinguna.

Ég vil ekki orðlengja um þetta mál frekar, aðeins hvetja til þess, að hugsað verði af alúð og festu um leiðir til þess að tryggja miðlun aflans milli þeirri sjávarplássa þar sem sífelld hætta er á hráefnisþrotum og atvinna fólksins er í voða.