09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2765 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og kannske mest fyrir þá sök að það er atgjörlega óþarft. Það er ekkert ákvæði í þessu frv. sem nauðsynlegt er að setja inn í lög, en á hinn bóginn ber það vitni þess, að hæstv. félmrh. virðist ekki hafa mikið að gera við hagnýt störf og hann virðist vera órólegur út af því, að Alþb. á við mjög alvarleg innanhúsvandamál að stríða, þar sem er sú deild þess sem kennd er við farandverkafólk annars vegar og svo venjulegt verkafólk hins vegar. Vakti raunar undrun mína þegar þetta mál var til umr. áður hér í deildinni, að formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, hv. 7. þm. Reykv., skyldi fagna frv. sem gengur út frá þeirri forsendu, að erlent fólk í frystihúsum skuli hafa forréttindi fram fyrir íslenskt verkafólk. En ein grein þessa frv., 3. gr., gerir einmitt ráð fyrir að erlent verkafólk skuli hafa á ýmsan hátt forréttindi gagnvart íslensku verkafólki. Enn fremur get ég ekki séð annað samkv. þessu frv. heldur en hæstv. félmrh. ætli að setja strangari ákvæði gagnvart heilbrigðiseftirliti og um ýmislegt annað þegar erlendir menn eiga í hlut en íslenskir, eins og ég mun víkja nánar að síðar í minni ræðu.

Ég vil segja það í fyrsta lagi, að það er eftirtektarvert, að þótt þetta frv. heiti frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga einskorðast það við fólk í frystihúsum, að því er manni virðist. Og þótt ég hafi beðið um upplýsingar um það hjá einum starfsmanni félmrn., hvaða niðurstöður eða hvaða álit hafi fylgt þessu frv. til ráðh., var ég nú satt að segja litlu nær, enda kannske eðlilegt að sem minnst fréttist af því, hvernig unnið var að þessu frv. frá sjónarmiði ráðh., sem allt beinist að því að búa til eitt allsherjarbákn í félmrn. undir því virðulega nafni vinnumálaskrifstofa félmrn. Og vegna þess að hæstv. félmrh. hafði hér um daginn afskaplega mörg orð um einmitt þennan þátt málsins, hversu þýðingarmikil þessi vinnumálaskrifstofa félmrn. væri, vil ég í fyrsta lagi spyrja hann að því, hversu margir menn vinna við vinnumálaskrifstofuna, hvort hann hafi í huga að fjölga starfsfólki þar eða hvernig hann hugsar sér að þessi vinnumálaskrifstofa komist yfir þau verkefni, sem þegar er búið að ákveða henni í lögum, og þau, sem hann auk þess leggur til að hér bætist við.

Ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um og veit ekki hvort það er raunar til nein kostnaðaráætlun yfir það, hvað þau auknu verkefni, sem hér er gert ráð fyrir, kosti hið opinbera. Og ég beini þeirri fsp. til hæstv. félmrh., hvort hann hafi látið gera kostnaðaráætlun í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir.

Samkvæmt lögum frá 10. apríl 1979, svokölluðum Ólafslögum, var m. a. ákveðið að verkefni vinnumálaskrifstofu félmrn. skyldu vera þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að afla og koma á framfæri upplýsingum um atvinnutækifæri á landinu öllu og samræma það starf að vinnumiðlun, sem nú fer fram á vegum sveitarfélaganna.“

Nú er mér algjörlega ókunnugt um það, hvort þessu verki er lokið, hversu langt það er komið og hvaða árangur hefur af því orðið.

Í öðru lagi, með leyfi hæstv. forseta:

„2. Að beita sér fyrir ráðstöfunum í því skyni að greiða fyrir tilfærslum starfsmanna milli atvinnugreina og landshluta og jafnframt veita öryrkjum og unglingum aðstoð við að finna vinnu við hæfi eftir því sem kostur er.“

Mér er einnig ókunnugt um, hvað hefur verið gert í þessum málum síðan þessi lög voru sett, og vildi fá upplýsingar um það hjá hæstv. félmrh., hvað sérstaklega hafi verið gert í þessum efnum, hvort hann telji að fullnægjandi hafi verið að því unnið eða hversu þessi mál standa.

Í þriðja lagi, með leyfi hæstv. forseta:

„3. Að bæta og samræma upplýsingasöfnun um atvinnuleysi og birta mánaðarlegar skýrslur um skráð atvinnuleysi á landinu öllu.“

Nú má vera að þarna hafi verið betrumbætt einnig, mér er ekki kunnugt um hvaða þátt félmrn. gæti átt í því.

„4. Að kanna ástand og horfur í atvinnumálum og birta niðurstöður sínar ársfjórðungslega.“

Þessi fjórði liður snertir mig auðvitað sérstaklega sem þm. Norðurl. e. Það er t. d. enginn vafi á því, að á Akureyri er núna alvarlegra ástand í atvinnumálum en verið hefur um mjög langt skeið, einkanlega í byggingariðnaðinum, og nær til fleiri greina byggingariðnaðarins þar heldur en annars staðar á landinu. Ein af ástæðunum fyrir þessu er vafalaust sú, að ríkisstj. hefur ekki staðið við fyrirheit sín um fyrirgreiðslu og lánveitingar handa húsbyggjendum. Og ef við hugleiðum niðurstöður þeirrar nefndar, sem nú hefur skilað áliti gagnvart þeim mönnum sem eru í erfiðleikum með að halda húsum sínum, því unga fólki, þá liggur þar fyrir að hugmyndin er sú, að þetta fólk taki verðtryggð lán til 6 eða 8 ára eða þar um bil. Það á sem sagt að framlengja vandann, en ekki veita neina lausn.

Það er ekki að sjá að nein bjartsýni ríki á Akureyri hjá húsbyggjendum a. m. k. Eftirspurn hefur ekki aukist þar eftir íbúðum og hæstv. ríkisstj. hefur ekki staðið við fyrirheit sín, sem gefin voru af stjórnvöldum vegna byggingar sjúkrahússins þar, þannig að þeim byggingarframkvæmdum mun ekki miða áfram eins og áður hafði verið ákveðið og heitið hafði verið. Og þannig mætti áfram telja. Hið opinbera hefur ekki staðið við sín fyrirheit og mér er ekki kunnugt um að félmrn. hafi gert neitt sérstakt til þess að kanna ástand og horfur í atvinnumálum fyrir norðan, þar sem það er bágast um þessar mundir.

Hvað hefur félmrn. t. d. gert til að kanna ástand og horfum í atvinnuleysismálum á Húsavík, að ég tali ekki um Norður-Þingeyjarsýslu? Við skulum tala um Kópasker. Hefur félmrn. yfirleitt látið til sín heyra um þessi mál? Ef það hefur gert það, þá hefur það a. m. k. ekki látið þm. kjördæmisins vita um það, þannig að hafi félmrn. eitthvað gert í samræmi við þessa klásúlu, 4. tölulið 54. gr. þessara laga, að kanna ástand og horfur í atvinnumálum og birta niðurstöður sínar ársfjórðungslega, þá er mér ókunnugt um það. Ég hygg þvert á móti að tími vinnumálaskrifstofu félmrn. hafi allur farið í það að búa til ný pappírsfrumvörp sem ekkert er að marka, og efast ekki um að hæstv. félmrh. kunni að færa mörg falleg rök fyrir því, hversu nauðsynlegt sé að auka skriffinnskuna, eins og þetta frv., sem hér liggur fyrir, stefnir allt að. En á hinn bóginn er ekki um það að ræða, að hann hafi neinar raunhæfar till. um að bæta úr atvinnuástandi þar sem það er bágast, enda hefur það ekki verið tilgangur þessa manns, síðan hann kom á Alþingi, að flytja neinar till. um að efla. atvinnureksturinn á einum eða öðrum stað, heldur hafa allar till. hans miðað að því að brjóta niður það sem aðrir hafa byggt upp, auka tilkostnaðinn án þess að sjá um það að atvinnureksturinn hafi getað aflað sér nauðsynlegs fjármagns til að fylla upp í skörðin sem þessi vinstri stjórn og tvær á undan henni hafa brotið niður.

Herra forseti. Ég óska eftir því að gera hlé á ræðu minni á meðan hæstv. félmrh. er fjarverandi. Ég er reiðubúinn að ljúka ræðu minni á næsta fundi. Ég sá að hæstv. sjútvrh. þurfti að koma máli að þarna. Það má kannske gefa honum tækifæri. (Forseti: Félmrh. er í salnum.) Nú, hann er kominn þarna megin. Maður veit ekki í hvaða gátt hann er.

Og svo er í fimmta lagi, með leyfi hæstv. forseta: „Að gera tillögur um úrbætur í atvinnumálum.“ Þetta eru mikil verkefni og þess vegna er ekkert óeðlilegt að maður spyrji: Hversu margir eru starfsmenn vinnumálaskrifstofu félmrn.? Telur hæstv. félmrh. að þeir séu nógu margir til þess að geta annað því sem lagt er til í 54. gr.? Eða hefur hæstv. félmrh. kannske fólk aflögu er anni þessu öllu saman og geti bætt á sig verkum? Er kannske kominn tími til að leggja niður byggðadeild Framkvæmdastofnunarinnar, getur hann tekið þetta allt saman inn á bekk til sín? (Gripið fram í.) Mér finnst lágmark að menn séu í salnum þegar þeir grípa fram í fyrir manni.

En nú þurfa menn náttúrlega ekki að vera í vafa um það, að þótt eitthvað hafi verið kroppað í öll þau margvíslegu og miklu verkefni sem talað er um í 54. gr. Ólafslaga, þá fer því víðs fjarri að nein fullnægjandi skil hafi verið gerð þeim verkefnum sem þar skipta mestu máli, og það er að gera tillögur og ráðstafanir til að byggja aftur upp atvinnulífið í landinu á sama tíma og þjóðartekjur fara minnkandi ár eftir ár, 1979, 1980 og 1981.

Það er eitt enn sem rétt er að minnast á í sambandi við þetta frv. Lög um eftirlit með útlendingum eru nánast þýdd úr dönskum lögum. Síðan þau voru sett hefur verið unnið mikið og merkt starf til að samræma norræna löggjöf. Á hinn bóginn skilst mér að þessi lög hér um atvinnuréttindi útlendinga séu algjörlega út í hött, — „skáldskapur þinn er skothent klúður, skakksettum höfuðstöfum með,“ — séu algjörlega út í hött miðað við aðra norræna löggjöf um þessi mál. Og mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. af því tilefni, hvort hann telji að það þjóni ekki tilgangi að efla norrænt samstarf á þessu sviði, og vil m. a. vekja athygli á því, að samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, er hugsanlegt að útlendum manni sé veitt atvinnuleyfi, en þegar hann kemur síðan hingað á Keflavíkurflugvöll kemur í ljós að þessum manni hefur verið vikið brott úr einhverju öðru Norðurlanda, og þá hefur hann ekki landvistarleyfi hér samkvæmt þeim samningum sem um það gilda. Maðurinn getur því setið uppi með atvinnuleyfi í landinu án þess að mega vera í því.

Í framhaldi af þessu vekur líka forvitni hvers vegna hæstv. félmrh. var á móti því, að inn í þetta frv. kæmi klásúla þess efnis — eða með leyfi hæstv. forseta, svo ég vitni orðrétt í till. Þorsteins Pálssonar sem birt er sem sérálit með þessu frv.: „Óheimilt er að veita útlendingi atvinnuleyfi, sem ekki hefur dvalarleyfi hér á landi samkv. lögum nr. 45 1965, um eftirlit með útlendingum, eða hefur verið gert að fara af landi brott samkv. þeim lögum.“

Í fyrsta lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. félmrh.: Er hann ekki sammála því, að ef einhverjum manni hefur verið gert að fara af landi brott samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum, þá skuli hann ekki fá atvinnuleyfi hér á landi? Má ekki bæta þessu inn? Eigum við ekki bara að útiloka það, að félmrn. geti þannig farið á bak við dómsmrn.? Og af því að hæstv, dómsmrh. situr hér í sínum stól: Er það endilega víst að þau ákvæði, sem eru í þessu frv., séu í samræmi við starfsvenjur, starfsreglur og þau lög sem Útlendingaeftirlitið vinnur eftir? Eða eru þessi lög kannske þvert ofan í þau ákvæði sem þar gilda?

Þegar ég bað um að fá í félmrn. þær athugasemdir, sem fylgdu við samningu þessa frv., þá gerði ég satt að segja ráð fyrir því, að leitað hefði verið álits Útlendingaeftirlitsins áður en frv. var samið. En það er greinilegt að ekkert erindi hefur komið þaðan varðandi þetta mál og ekki hefur verið haft samráð við það við samningu þessa frv. Þykir mér það að sönnu að fara aftan að hlutunum og get ekki skilið hvaða nauðsyn bar til þess að viðhafa þvílík vinnubrögð.

Í 3. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Enn fremur skulu vera í ráðningarsamningi ákvæði um flutning viðkomandi frá Íslandi að starfstíma loknum, sé viðkomandi ráðinn erlendis, svo og um greiðslu ferðakostnaðar og heimflutning í veikindum eða við óvænt ráðningarslit, sem starfsmaður á ekki sök á. Í ráðningasamningi sé einnig tilgreint hvernig háttað sé fæði og húsnæði svo og ákveðið hvernig með skuli fara þegar atvinna fellur niður af óviðráðanlegum ástæðum, sbr. 3. gr. laga nr. 19 1979.“

Athygli vekur að þarna er ekki neitt um það fjallað, hvernig með skuli fara ef ráðningarsamningur fellur úr gildi vegna vanefnda þess sem ráðinn er. Á hinn bóginn getur maður ekki betur séð en í þessari grein séu erlendum starfsmönnum veitt miklu meiri réttindi en íslenskum starfsmönnum sem vinna fjarri sínum heimilum. Ekki getur íslenskur starfsmaður gengið út frá því sem gefnu, að í lögum standi að hann skuli fá greiðslu ferðakostnaðar og heimflutning í veikindum eða um það sé ákveðið áður en hann ræður sig til vinnu. Þarna er því verið að gera erlendum mönnum hærra undir höfði en íslenskum, og get ég ekki fallist á að út frá þeirri meginreglu sé gengið við íslenska lagasetningu. En mér er tjáð að í praksís muni þetta koma þannig út. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. nánar um skilning hans á þessu ákvæði, hvernig hann hugsi sér þetta.

Hér er í 4. tölul. komist svo að orði: „Að vottorð viðkomandi yfirvalda liggi fyrir um að atvinnurekandi hafi hæfilegt húsnæði fyrir erlendan starfsmann meðan ráðningarsamningur er í gildi, ef hinn erlendi starfsmaður hefur ekki slíkt húsnæði sjálfur.“ Einnig þarna eru ákvæði sem gera ekki annað en auka á skriffinnsku. Ég vil aðeins benda á það, að sú nefnd, sem samdi þetta frv., er nú — á vegum félmrn. eða heilbrmrn. kannske öllu frekar — að vinna að reglugerð um verbúðir, starfsmanna- og viðlegubúðir með stoð í heilbrigðislögum. Ég get ekki séð annað en að þar sé sá eðlilegi vettvangur fyrir ákvæði af þessu tagi og get alls ekki skilið að nein ástæða sé til að gera upp á milli innlendra manna og erlendra varðandi heilbrigði og hollustuhætti í verbúðum eða á vinnustöðum. En þetta er náttúrulega bara uppsláttarfrv., pappírsflóð, gagnslaust með öllu, og ekki eitt einasta ákvæði í þessu frv. sem hæstv, ráðh. getur ekki með sama hætti, ef hann hefur áhuga á, komið fram með reglugerð eða hefur ekki nægilegar lagaheimildir fyrir annars staðar. Ef það er eitthvað í þessu frv., sem hann telur sig ekki hafa nægilegar lagaheimildir fyrir nú þegar, þá langar mig að vita hvað það mundi vera.

Ef fyrirtæki er í rekstri, ætli það sé þá ekki almennt eftirlit á staðnum varðandi hollustuhætti viðkomandi verbúða? Það ætti að vera það a. m. k. Það á a. m. k. ekki heima í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, að það eigi að ganga sæmilega um vistarverur starfsfólks hér uppi á Íslandi. Útlendingar eiga ekki meiri rétt en Íslendingar.

Í 4. gr. er svo enn eitt pappírsflóðið: „Með umsókn um atvinnuleyfi skulu vera upplýsingar um vinnustaðinn, tegund vinnu, aðila kjarasamnings og áætlaða lengd daglegs vinnutíma á ráðningartímanum. Í umsókn skal enn fremur færa rök fyrir nauðsyn þess að nota erlent starfsfólk og gera grein fyrir því hvaða tilraunir hafi verið gerðar til þess að ráða innlent starfsfólk í starfið. Áður en atvinnuleyfi er veitt rannsakar vinnumálaskrifstofa félmrn. sjálfstætt atvinnuástand á viðkomandi stað og í nágrenni hans, en hún skal einnig leita til Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna um almenna stefnumörkun varðandi innflutning erlends starfsfólks, með tilliti til atvinnuástands í landinu á ákveðnum landssvæðum.“

Þarna eru mörg orð sem hafa marga stafi, en hvert er innihaldið? Áður er í 3. gr. gert að skilyrði nr. eitt fyrir atvinnuleyfi að fyrir liggi umsögn verkalýðsfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein, eða viðkomandi landssambands ef ekki er verkalýðsfélag á staðnum. Svo á í 4. gr. að leita til Alþýðusambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Vinnuveitendasambandsins, Vinnumálasambandsins. Hvers konar umsagnardella er þetta eiginlega? Eigum við Íslendingar ekki að vera í öðru en að gefa hver öðrum umsagnir? Ég hef nú séð hvernig fjórðungssamböndin eru, ekkert nema umsagnir. Hver les allar þessar umsagnir? Í Útlendingaeftirlitinu vinna núna fjórir menn, fyrir 10 árum voru þeir fimm og fyrir 30 árum voru þeir fimm. Þeir eru ekki með alla þessa skriffinnsku, þeir reyna að skipuleggja starf sitt vel. Hvað ætli erlent verkafólk vinni í mörgum frystihúsum? Hvað ætli félmrn. þurfi að athuga sjálfstætt, rannsaka sjálfstætt atvinnuástand á viðkomandi stað víða? Og hvað felst í þessum orðum: að rannsaka sjálfstætt atvinnuástand á viðkomandi stað og í nágrenni hans? Hvers konar rannsókn er hér verið að tala um? Eða eru þetta bara orðaleppar?

Það er eðlilegt að útbúa skriflegar upplýsingar og dreifa til sendiráða Íslands, til opinberra vinnumiðlana erlendis og annarra sem þess óska, þar sem greint sé frá almennum launakjörum, vinnutíma, aðbúnaði við vinnu hér á landi, sköttum og öðrum opinberum gjöldum o. s. frv., eins og gert er ráð fyrir í 5. gr., en þessi grein er algjörlega óþörf. Hæstv. ráðh. getur alveg komið þessu í kring án þess að hafa stoð í þessum lögum. Hins vegar má vel vera að hann þurfi að fá fjárveitingu til þess í fjárlögum. En það er algjör misskilningur að halda að setja þurfi ákvæði um þetta inn í lagasafn, — algjör misskilningur.

Og 6. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvers konar áróður til þess fallinn að hvetja til innflutnings verkafólks til landsins er óheimill ef hann er villandi eða byggður á röngum og ónógum upplýsingum.“

Nú er orðið áróður í sjálfu sér neikvætt orð og niðrandi að merkingu. Tökum þetta orðalag t. d.: byggður á ónógum upplýsingum. Hvenær er áróður fyrir því að fá fólk til Íslands byggður á nógum upplýsingum? (Gripið fram í: Það hefur verið. Þetta er að gefnu tilefni.) Er þetta að gefnu tilefni, já? Formaður Verkamannasambandsins segir að þetta sé að gefnu tilefni. Hvaða viðurlög eru svo við því, ef einhver maður skyldi reyna að fá hingað mann, og til hvers er öll þessi löggjöf, ef þetta er nauðsynlegt? Er ekki löggjöfin um að tryggja það, að enginn komi hingað án þess að nægar upplýsingar séu fyrir hendi? Heldur hv. þm. að þeir menn, sem leituðu allra ráða til að fá hingað verkafólk, mundu taka nærri sér þótt eitthvað af þessu tagi standi í íslenskum lögum?

Þessi 6. gr. er bara orðaleppar. Það er eðli málsins samkvæmt óheimilt að blekkja menn. Það á ekki aðeins við um erlenda menn, það á líka við um íslenska menn. Atvinnurekendum er almennt óheimilt að blekkja menn til að ráða sig í vinnu. Þvílíkur vinnusamningur er ógildur sem reistur er á röngum forsendum og fölskum forsendum og þar sem um vanefndir er að ræða. Það leiðir af sjálfu sér. Þess vegna get ég ekki skilið hvaða tilgangi þetta þjónar. Þetta svo sem skaðar engan og má vel standa þarna. Þetta skiptir engu máli. Það má fylla lagasafnið af alls konar almennum hugleiðingum sem enga þýðingu hafa, og þetta er eitt af því.

Ég veit ekki hvað maður á að halda þessu lengi áfram. Það gefur náttúrulega auga leið, að ef farið yrði nákvæmlega eftir ákvæðum 3. gr. eins og þau eru hér, þá mundi það torvelda t. d. fólki, sem á íslenskan maka, að setjast hér að og hefja hér störf. Ef þessum ákvæðum yrði vandlega fylgt varðandi starfsfólk hjá heilbrigðisstofnunum, þá mundi þetta einnig torveldu ráðningu þess svo og alls konar sérfræðinga sem hér vinna.

Vegna þess að þessi löggjöf er einvörðungu miðuð við fólk í frystihúsum og tekur þess vegna ekki til ýmissa afbrigða annarra, þá held ég að það sé líka deginum ljósara, að erlent fólk fær ýmis forréttindi samkvæmt þessu frv., eins og raunar ýmsum öðrum lögum sem benda má á. Segjum t. d. að erlendur maður og íslenskur maður vinni saman í frystihúsi og ætli að skjótast til útlanda í sumarleyfi. Þá getur sá erlendi fengið meiri gjaldeyri en sá íslenski og sá íslenski verður að borga 10% meira fyrir gjaldeyrinn en sá erlendi, þar sem er gjaldeyrisskatturinn sem þessi ríkisstj. lagði á, skatturinn á ferðamannagjaldeyri. Í þeim lögum eru einnig forréttindi fyrir erlent fólk sem hér vinnur gagnvart Íslendingum. Og þannig er þetta víðar. Það var því síst ástæða til að bæta þar um.

Ég vil svo að lokum ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. félmrh.

Í fyrsta lagi: Telur hann að vinnumálastofnunin hafi með sómasamlegum eða fullnægjandi hætti annast þau verkefni sem ég lýsti áðan og um getur í 54. gr. svokallaðra Ólafslaga, sérstaklega varðandi það að koma með tillögur um úrbætur í atvinnumálum þar sem atvinna er stopulust og verst? Ég vil bæta því við í þessu sambandi, hvort vinnumálaskrifstofa félmrn. hafi kannað þær heimildir sem eru í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, um vaxtalaus lán til þess að bæta úr atvinnuleysi, t. d. í byggingariðnaðinum, með því að flýta fyrir verkefnum. Ég get tekið þar sem dæmi Víðishúsið við Laugaveg, hvort fram hafi farið einhver athugun á vegum félmrn. á því að verða við ósk Múrarafélags Reykjavíkur um að flýta fyrir að ganga frá því húsi að innan og hvort viðræður hafi hafist um það milli félmrn. og fjmrn. Og ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hafi rætt um það við Seðlabankann hvort ástæða væri til að reyna nú að reisa húsið sem á að standa neðan við Arnarhól, ljúka því til þess að atvinnulausir byggingarmeistarar fengju þá störf við það, — eða hvaða tillögur aðrar hæstv. félmrh. hefur gert um úrbætur í atvinnumálum. Við vitum að ýmsir byggingariðnaðarmenn fóru fyrir einum 13 árum til annarra Norðurlanda og sóttu þangað vinnu. Þessir menn eru núna ýmist að búa sig undir að hverfa af landi brott, á fyrri slóðir, eða búnir að því vegna atvinnuástandsins. Þess vegna er við því að búast að vinnumálaskrifstofan hafi látið þau mál að einhverju leyti til sín taka.

Og í öðru lagi spyr ég hæstv. félmrh: Liggur fyrir jákvæð umsögn um þetta frv. frá dómsmrn. eða undirstofnunum þess, og er þetta frv. samið í samráði við þær ríkisstofnanir sem annast eftirlit með útlendingum og hafa um þau mál að segja lögum samkvæmt?