04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Stefán Valgeirsson viti ofurvel um þau loforð sem fólkið norður á Sléttu taldi sig hafa, og ef svo er ekki, þá getur hv. fyrirspyrjandi kannske upplýst hann um það.

Ég vil svo aðeins fagna því að hafa fengið hv. 2. þm. Norðurl. e. til liðs við mig í því að drifið verði í því að Sléttulínan komi eigi síðar en árið 1982. Mér finnst það fulllangt. Það mætti kannske byrja í sumar á Núpskötlu, sýna hreyfingu á málinu.

Ég vil líka fagna því, að þessi hv. þm. lýsti einörðum vilja sínum til þess að staðið yrði við fyrirheitin um Hafísveginn. Það skal sannarlega ekki standa á mér að fylgja því máli eftir, og ég er viss um að ef við tækjum báðir á, þá mundi það hafast. Þess vegna þakka ég fyrir liðsstyrkinn og veit að fólkið fyrir norðan gerir það líka og treystir því, að við þetta verði staðið og veginum ljúki á næsta sumri. Þá vitum við að það mál er í höfn eins og fleiri sem þessi duglegi og ötuli þm. tekur að sér, að það mun ekki standa á því að vegurinn komi í sumar og línan ekki seinna en að tveimur árum liðnum.