09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

237. mál, þýðingarsjóður

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa frv. er óneitanlega mjög athyglisvert og mikilvægt, og það minnir mig á gamla daga, á fyrri þingár mín, ef svo má segja. Þá flutti ég frv. til l. um mjög svipað efni, sem ég held að ég hafi kallað frv. um fjárhagsstuðning við útgáfu erlendra öndvegisrita, en ekki man ég nú lengur hversu háar upphæðir voru nefndar í því frv. En það vil ég taka fram, að þetta er mjög mikilvægt mál og ég held að nauðsynlegt sé að taka það gaumgæfilega til athugunar.

Það er rétt, sem fram kemur í grg. og kom fram í ræðu fyrri flm. áðan, að þýðingar erlendra bókmennta, erlendra öndvegisrita, eru mjög mikilvægar fyrir íslenskar bókmenntir. Og það hefur kannske aldrei verið gerð á því náin úttekt, hversu mikilvægar ýmsar þýðingar, sem gerðar hafa verið í aldanna rás, hafa verið fyrir bókmenntir Íslendinga og fyrir málþróunina á Íslandi. En ég hygg þó að sýna mætti fram á það, að slíkar þýðingar hafi haft úrslitaþýðingu um bókmenntaþróun og um málþróun á Íslandi. Að þessu leyti get ég sannarlega tekið heils hugar undir mikilvægi þess, að unnið sé sem skipulegast að því að þýða slík erlend öndvegisrit á íslensku og í miklu ríkara mæli en verið hefur. Og það verður að segjast sem er, að því miður eru Íslendingar heldur fátækir af slíkum ritum á eigin máli, og það kann að hafa sín áhrif á þekkingarheim okkar og hvernig við öflum okkur menntunar.

Ég held líka að það sé augljóst mál, að Íslendingar hafa töngum verið kunnir að því að vilja fylgjast vel með í ýmsum fræðum og menntum og sjálfsmenntun hefur verið talin mjög mikil á Íslandi. Ég held að enn sé fyrir hendi þörf fyrir að gera mönnum kleift að afla sér sjálfsmenntunar á sem auðveldastan hátt. Og það er alveg áreiðanlegt að mínum dómi, að ef á íslensku væru til ýmis erlend öndvegisrit, sem markað hafa spor í sögu mannsandans, bókmenntanna og fræðanna yfirleitt, þá mundi það hafa mjög veruleg áhrif á þekkingarheim Íslendinga.

Nú er auðvitað af svo miklu að taka í þessu efni að það er dálítið erfitt að ætla sér að leysa þetta stóra verkefni í einu vetfangi. Hins vegar tel ég að stefnt sé í rétta átt með þeirri hugsun, sem kemur fram í þessu frv., að hafa tiltækt fjármagn til að greiða þýðendum, hæfum þýðendum, fyrir að þýða á íslensku vönduð rit, bæði fræðileg rit og bókmenntarit, sem mjög brýnt er eða a. m. k. æskilegt að Íslendingar eigi aðgang að á eigin máli.

Með tilliti til þessa get ég tekið mjög undir efni þessa frv. Ég áskil mér þó allan rétt í sambandi við tölur, sem hér eru nefndar, 500 þús. kr. á ári, til þessara hluta. Ég held að ég geri hvorki að játa né neita að það sé eðlileg tala. En efnislega get ég vel fellt mig við þetta frv. og tek undir þá skoðun sem í frv. kemur fram, að mikilvægt sé að á íslensku séu til þýðingar erlendra öndvegisrita, bæði ýmissa rita, sem eldri höfundar hafa skrifað og haft hafa áhrif á gang sögunnar, mest menningarsögunnar, og einnig rita, sem hæst ber í heiminum á hverri tíð og þannig hafa bein áhrif á samtímann. Hvort tveggja þetta hlýtur að koma til greina að mínum dómi, og ég get fallist á að það sé að vissu leyti eyða í okkar bókmenntir að ekki skuli vera til meira af slíkum ritum. Og ég get með góðri samvisku sagt að ég vildi geta stuðlað að því fyrir mitt leyti að fleiri slík rit yrðu til á íslensku.