09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

237. mál, þýðingarsjóður

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil eins og hæstv. menntmrh. taka mjög eindregið undir þá meginhugsun, sem í þessu frv. til l. felst, og m. a. þann málatilbúnað allan, að það er æskilegt að erlend öndvegisrit séu til þýdd á okkar þjóðartungu. Og auðvitað væri æskilegt að vel væri hægt að gera við slíka starfsemi.

Hins vegar eru hér auðvitað ákveðin vandkvæði, eins og hv. flm. gat raunar um. Við vitum að það eru vandræði í okkar hagstjórn allri. Þessir svokölluðu mörkuðu tekjustofnar festa niður fjármagn úti um hagkerfið allt með þeim afleiðingum að hagstjórn verður æ erfiðari með hverju árinu sem líður.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að festa 500 þús. nýkr. með þessum hætti og gera það um langan tíma væntanlega. Og það gildir auðvitað þarna, að hversu háleitt sem markmiðið er sem í frv. felst, þá er það nú einu sinni svo, að markmiðin eru misjafnlega háleit, og sennilega leggjum við á það mælikvarða eftir því hvaða áhugamál við höfum fyrst og fremst. Það eru þessar almennu athugasemdir sem ég vil gera við þetta frv.

Þegar þetta frv. var í smíðum og hv. flm. sýndi mér það og ræddi efni málsins og stakk ég upp á því, hvort ekki gæti verið skynsamlegt, — og vil varpa því fram hér til umhugsunar fyrir menntmn., sem síðan fær þetta frv. til meðferðar — hvort það væri skynsamlegra um frv. af þessu tagi að láta gilda um það svofellda reglu, að lög þessi öðlist gildi en falli síðan úr gildi eftir tiltekinn árafjölda, t. d. eftir þrjú ár. Það er auðvitað rétt, sem fram kemur hjá flm., að stundum verður ekki hjá því komist að binda tekjustofna um einhvern tíma. En e. t. v. gæti orðið auðveldara fyrir hv. alþm. að meðtaka efni svona frv. ef því væri aðeins ætlað að gilda í þrjú ár og falla síðan sjálfkrafa úr gildi. Menn yrðu þá að rétta upp höndina upp á nýtt ef þeir vildu framlengja efni þess.

Þessi aðferð hefur verið farin víða erlendis þar sem menn hafa haft áhyggjur af að binda fjármagn til langs tíma í lögum. Og þessi aðferð, sem er á engilsaxnesku kölluð sólarlagsaðferðin, hefur þótt gefa góða raun. Menn hafa komið af stað þýðingarmiklum verkefnum og menn hafa ekki eins horft í það að binda fjármagn þegar það er aðeins gert til skamms tíma í einu. Þessu er varpað fram hér til umhugsunar.

Í annan stað má gera athugasemdir við að í 1. gr. frv. er menntmrn. gert að setja reglugerð um framkvæmd þessara laga. Fyrir vikið er þessi lagabálkur, eins og honum er ætlað að koma frá Alþingi, mjög svo opinn. Hugleiða mætti hvort ekki væri skynsamlegt, ef af þessu yrði, að hafa þetta með einhverjum hætti nákvæmar bundið í lögum.

Þriðju hugmyndinni má varpa fram um þetta, hvort æskilegt sé að hér sé einvörðungu og að öllu leyti um styrki að ræða, hvort ekki mætti hugsa sér að hluti af þessu fjármagni yrði lánaður og yrði þar með endurgreitt eftir einhvern tíma. Við vitum það um mikla útgáfustarfsemi, að oft er það fyrsta fjármagn sem vantar. Það skilar sér svo inn síðar. Spurningin er hvort ekki mætti ná þeim virðulegu markmiðum, sem hér er auðvitað verið að fjalla um, og hvort ekki væri hægt að fara betur með fjármagn og gera fleirum kleift að stunda þessa starfsemi með því að hugsa sér að t. d. hluti af því, sem úr þessum sjóði rynni, yrði að lánsfé.

Auðvitað er skiljanlegur áhugi allra hv. alþm. á því að fá sérleg áhugamál sín fest í lög. Og að engum skyldi hvarfla að gera lítið úr slíkum áhuga. En þegar við stöndum frammi fyrir því, að ríkisfjármálum er nánast ekki stjórnandi vegna þess hvað á undanförnum árum og áratugum er búið að gera mikið af þessu — og yfir allt sjónarsviðið, ekki bara í menningarmálum eins og hér er verið að fjalla um, heldur í vegagerðarmálum og framkvæmdamálum hvers konar,-þá er það auðvitað þarna sem menn staldra við og spyrja: Er ekki hægt að fara einhverja aðra leið, einhverja leið sem er minna bindandi, til að ná svipuðum árangri, þó að um skamman tíma væri.

Þessu frv. verður væntanlega vísað til menntmn. þar sem ég meðal annarra á sæti, og ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni, að auðvitað ber að skoða þetta frv. af mikill í virðingu. En það eru nokkur ljón þarna í veginum sem ég vona þó að með einhverjum hætti megi vinna bug á.