10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2784 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

382. mál, norsku- og sænskukennsla í grunnskólum

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Vegna margvíslegra ástæðna og nokkurs óróa í þingsölum, sem virðist stafa af einhverjum utanaðkomandi áhrifum, óttast ég nokkuð að ágæt svör menntmrh. við þessari fsp. kunni að hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þm. og öðrum sem hlustað hafa og hlýða hér venjulega á umræður. Hér er nefnilega á ferðinni hið stórmerkasta mál, og þegar rætt er um það hvort nemendum á grunnskólastigi verði almennt gert að þurfa að læra dönsku frekar en norsku eða sænsku, þá held ég að menn verði að átta sig á því, að það er almenn skoðun þeirra sem einhver samskipti hafa við Norðurlandaþjóðir, að það komi íslenskum nemendum yfirleitt meira að gagni að læra t. d. norsku eða sænsku heldur en dönsku. Það getur því haft mikil áhrif hvernig á þessum málum verður haldið í framtíðinni.

Það upplýstist hér m. a., að ekki eru til neinar kennslubækur í norsku eða sænsku fyrir grunnskóla og reynt er að ráða bót á því með því að fá þær erlendis frá.

En ég vil þakka hæstv. menntmrh. hans ágætu svör, og tel þau fullnægjandi. Einnig þakka ég honum fyrir þá nefndarskipun sem hann skýrði hér frá, sem ég tel að sé stórt spor í rétta átt.