10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2784 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fsp. er svo orðuð: „Með hvaða hætti hafa Flugleiðir hf. efnt skilyrði þau sem sett voru við ákvörðun um heimild til ríkisábyrgðar vegna lántöku fyrirtækisins?“

Eins og hv. deild rekur sjálfsagt minni til voru sett ýmis skilyrði við þessa lántöku. Við efni þeirra gerði ég ekki ágreining, enda tel ég efni þeirra skilyrða á ábyrgð ríkisstj. Á hinn bóginn var það skoðun mín og okkar Alþfl.-manna, að skilyrði þessi ættu að vera í lögum svo að þau yrðu ekki teygð eða toguð, heldur yrði eftir þeim farið.

Skilyrðin voru: Í fyrsta lagi þau, að aukning hlutafjár í 20% verði komin til framkvæmda fyrir næsta aðalfund félagsins. Í annan stað, að starfsfólki yrði á sama tíma gefinn kostur á að eignast hlutafé fyrir 200 millj. kr. Í þriðja lagi, að aðalfundur yrði haldinn fyrir lok febrúarmánaðar — það er sá febrúarmánuður sem þegar er liðinn. Í fjórða lagi, að Starfsmannafélagi Arnarflugs væri gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða í Arnarflugi. Í fimmta lagi, að ársfjórðungslega verði ríkisstj. gefið yfirlit yfir þróun og horfur í rekstri Flugleiða. Í sjötta lagi, að fram fari viðræður milli ríkisstj. og Flugleiða um nýjar reglur varðandi hlutafjáreign í fyrirtækinu, sem m. a. takmarki atkvæðisrétt einstaklinga og fyrirtækja. Í sjöunda lagi, að Norður-Atlantshafsfluginu verði haldið fjárhagslega aðskildu eins og frekast er unnt.

Það varð ofan á hjá stuðningsmönnum ríkisstj., að það dygði að setja þessi skilyrði í nál., og skyldi fara með það þannig, að ráðherrar sæju um að framkvæmd málsins væri í samræmi við þau skilyrði sem eru í nál. Við bentum hins vegar á, fulltrúar Alþfl., að slíkt skilyrði væri á engan hátt bindandi og hætta yrði á að málin yrðu teygð og toguð.

Ég spyr hvernig hafi til tekist um að efna þessi skilyrði. Er aukning hlutafjár komin til framkvæmda? Hafa starfsfólki verið boðin hlutabréf, og þá með hvaða hætti, og hve mikið var keypt og hvenær gerðist þetta? Ég vil líka spyrjast fyrir um aðalfund Flugleiða. Mér er vissulega ljóst að hann hefur ekki verið haldinn. Hins vegar hafa verið haldnir tíðir fundir síðan þessari fsp. var dreift hér í þingsalnum, og mætti spyrjast fyrir um hvort einhverra tíðinda væri að vænta af öllum þeim mörgu stjórnarfundum sem hafa verið haldnir.

Enn fremur spyr ég hvernig eða hvenær það verði efnt, að Starfsmannafélagi Arnarflugs verði gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða í Arnarflugi. Hefur þetta verið efnt eða hvenær verður það efnt? Og hver var hugmyndin, þegar þetta skilyrði var sett, um það, hvenær þetta skilyrði yrði efnt?

Hver hafa skilin verið á yfirlitunum yfir þróun og horfur? Hafa farið fram viðræður milli ríkisstj. og Flugleiða um nýjar reglur varðandi hlutafjáreign? Og hefur Norður-Atlantshafsfluginu verið haldið fjárhagslega aðskildu?

Það má líka í þessu sambandi velta fyrir sér hvernig hafi til tekist um framtíðarstefnumótun í þessum málum. Þegar þessi mál voru til umræðu á sínum tíma gerðum við fulltrúar Alþfl. till. um að fenginn yrði óháður aðili með sérþekkingu á sviði flugrekstrar og markaðssviðs flugmála til þess að gera úttekt á stöðu þessara mála og vera ríkisstj. til ráðuneytis um stefnumörkun. Á þeim tíma talaði hæstv. ráðh. um að líklega mundi hann skipa nefnd í málið. Ég vil gjarnan spyrjast fyrir um hvernig það mál standi, hvort nefnd hafi verið skipuð í málið, hvernig hafi miðað í framtíðarstefnumótun, hvort núna sé t. d stefnt að því að leggja Ameríkuflugið niður eða hvort það sé liður í hinni nýju stefnumótun að leiguflug gangi til erlendra aðila, eins og lesa má í blöðum í dag.

Ég skal ekki fjölyrða öllu frekar um þetta mál. Að vísu væri freistandi að spyrja frekari spurninga, t. d. um það, hvort Flugleiðir hafi í reynd óskað eftir því að halda áfram svonefndu Atlantshafsflugi eða ekki og hvort mat ráðh. sé það, að stjórn fyrirtækisins sé nú traustari en þegar þessi mál voru hér upphaflega til umræðu. Hver er sem sagt líkleg þróun þessara mála, hvernig er staða þessara mála? Ég spyr vegna þess að hér er um mjög mikilvægan málaflokk að ræða, og ég ítreka spurninguna: Hvernig gengur að uppfylla skilyrðin sem sett voru, og hvernig hefur eftirlit ráðh. verið með þeim málum?