10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2791 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austurl. hefur að nokkru tekið af mér ómakið. Um það má vitanlega deila, hvort skilyrðin átti að setja í lög. En ég er enn þeirra skoðunar, að erfitt hefði verið að setja í lög skilyrði um það t. d., að Arnarflug skuli selt starfsmönnum. Ætli starfsmenn vilji ekki fá að hafa síðasta orðið um það, hvort þeir vilja kaupa Arnarflug?

Ég tel einnig ákaflega vafasamt að setja í slík lög sem þessi svo viðamikla breytingu á hlutafjárlögunum sem í því felst að takmarka rétt einstakra hluthafa umfram það sem hlutafélagalögin gera ráð fyrir. Nóg um það.

Ég held að það sé ofsagt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að þrjú skilyrðin séu ekki uppfyllt. Að vísu má segja að þetta skilyrði sem ég nefndi síðast, um takmörkun á hlutafjárrétti, sé ekki uppfyllt og verði ekki uppfyllt. Eins og kom fram í áliti Nd. er alls ekki unnt að tryggja að það verði uppfyllt nema þá að setja lög um það. Það verða menn þá að gera. Hlutafélagalögin ákveða hvaða rétt einstakir hluthafar hafa o m. a. til að hafna takmörkun á eigin rétti umfram það. Ég er þeirrar skoðunar enn, að slíka takmörkun verði þá að gera á annan máta og betur undirbúinn.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að ég hafi ekki vitað að kjósa á fimm á öðrum aðalfundi, en fjóra á hinum. En ég lýsi undrun minni að hv. þm., sem sat í nefnd sem vann mikið að þessu máli, skyldi ekki kynna sér samþykktirnar. Hvers vegna í ósköpunum gerði hv. þm. það ekki? Samþykktirnar hafa legið fyrir t. d. uppi í rn. og alls staðar hjá hluthöfum þessa félags. Þannig lá ljóst fyrir að aðeins yrðu kosnir fimm á fyrsta hluthafafundi. (KJ: Ég hef aldrei sagt það, ég vissi það. Þú varst að lýsa yfir að þú hefðir fengið bréf um það.) Ég lýsti engu, ég nefndi ekki að ég hefði fengið neitt bréf. Ég upplýsti þessa staðreynd, að það ætti að kjósa fimm á fyrsta fundi og því væri að sjálfsögðu kostur að fá tvo menn kjörna strax á hluthafafundi eða skipaða strax á hluthafafundi, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson rakti hér áðan.

En það er skilyrði, sem hefur ekki verið haldið, er um aðalfundinn, það er alveg ljóst. Um það má deila hvort átti að fallast á þá ósk Flugleiða að afgreiða málið frekar á hluthafafundi. Ég taldi það ekki, og aðrir, sem ég ræddi við um það mál úr ríkisstj., töldu það ekki frágangssök, m. a. með tilvísun til þess sem kom fram í nál. Nd.

En það er alrangt, að ég hefði sagt að Flugleiðir hefðu tilkynnt að ekki væri hægt að halda aðalfundinn í febrúar. Ég vildi gjarnan að hv. þm. hætti að koma með slíkan útúrsnúning og rangfærslu. Ég nefndi þetta ekki. Vitanlega var hægt að halda aðalfund í febrúar og síðan framhaldsaðalfund síðar. Þetta lá alveg ljóst fyrir. Og vel má vera að það hafi verið mistök að standa ekki fast á því og láta þá nægja að fá einn mann. Um það má deila, það getur vel verið. En vitanlega er ljóst að hægt var að halda aðalfund. Að vísu höfðu Flugleiðir haldið því fram í bréfi til nefndarinnar, að það væri miklum vandkvæðum bundið, en segja í því sama bréfi, að sé á það lögð sérstök áhersla muni það að sjálfsögðu gert og síðan framhaldsaðalfundur síðar. Á þetta var því fallist af því að menn töldu þetta fullt eins góðan kost. Og ég vil leyfa mér að fullyrða að ef sú hugmynd hefði náð fram að ganga sem að var unnið, þá hefði það ekki verið lakari kostur og þá ríkisvaldið með tvo menn í stjórn félagsins.

Ég lít því svo á að einu skilyrði hafi ekki verið og verði ekki héðan af fullnægt eins og að var stefnt. Um Arnarflug fer vitanlega eftir því hvort starfsmenn vilja kaupa, og eftir því verður gengið. Ég get ekki sagt hvert matið verður, og það getur eflaust enginn sem hér er staddur. Því síður get ég sagt hvort starfsmenn Arnarflugs velja þann kostinn að kaupa félagið á því mati. Þetta verður að hafa eðlilegan gang. Það eru hinir ágætustu menn, eftir því sem ég best veit, sem meta.

Ég vil upplýsa að formanni stjórnar félagsins hefur verið tilkynnt að ríkisábyrgðin verði ekki afgreidd að fullu fyrr en öllum skilyrðum hafi verið fullnægt, m. a. með aðalfundi. Aðalfund verður að halda áður. Ríkisábyrgðin hefur verið afgreidd að 3/4, 1/4 er eftir. Hvort einhver hluti af því verður afgreiddur skal ég ekkert um segja, það finnst mér koma til greina. En ég er eindregið þeirrar skoðunar, að ekki komi til mála að afgreiða ríkisábyrgðina alla fyrr en öllum skilyrðum er fullnægt.

Í framsöguræðu sinni kom hv. þm. inn á fjölmörg önnur stórmál sem við gætum rætt hér lengi. Hann spurði hvort ætlunin væri að sleppa öllu leiguflugi lausu. Það er alls ekki ætlunin, langt frá því. En verið er að semja nú ítarlega skýrslu um þessi leiguflugsmál. Ég veit ekki hvort hv. þm. vita að það eru örfá ár síðan við gengum, ef ég má orða það svo, með grasið í skónum eftir Dönum til að fá leiguflug íslenskra félaga þangað og fengum leyfi fyrir 20 ferðum eitt árið. Það er dálítið alvörumál ef Dönum er síðan neitað um leiguflug hingað. Leiguflug hefur tíðkast í gegnum árin. Það hefur verið mismunandi mikill hávaði í kringum þau. Ég veit að hv. þm. er eflaust ekki kunnugt um það, að Tjæreborg, sem á Sterling, hefur þegar fengið samþykktar hingað tólf ferðir. Umsókn kom til Loftferðaeftirlitsins, leitað var umsagnar Flugleiða og Flugleiðir svöruðu, að vísu munnlega, segir Björn Jónsson hjá Loftferðaeftirlitinu mér, að þær gerðu enga athugasemd. Verðið á þessum ferðum er 3298 danskar kr. fyrir einnar viku dvöl hér í tveggja manna herbergi á hóteli.

Hinar ferðirnar til Danmerkur, sem beðið er um og ekki hefur verið afgreitt, eru á 3000 ísl. kr. fyrir dvöl í fimm manna sumarhúsum, að vísu í tvær vikur en miklu ódýrara húsnæði. Ég get vel skilið suma Íslendinga sem kvarta undan því, að Dönum skuli gert kleift að fljúga hingað fyrir lægra verð og njóta sumarleyfis hér heldur en Íslendingum til Danmerkur. Og hvers vegna gera Flugleiðir ekki athugasemd við flug Dana hingað? Mætti ekki ætla að einhverjir af þessum Dönum hefðu flogið með Flugleiðum? Og hvernig stendur á því, að lengi hefur tíðkast að Danir gætu keypt helgarferð hingað fyrir 1800 kr., en Íslendingur þarf að borga yfir eða um 4500 kr.?

Það er mikil spurning hvort það á að líðast að okkur sé haldið hér í eins konar herkví hárra fluggjalda. Ég vil vekja athygli á því, að þegar menn tala um kostnað er ekki sambærileg olíueyðsla Boeing-727 vélar frá 1967, þriggja mótora, og Super Caravelle vélar frá 1973 eða 1974. Og hér liggja fyrir hjá ferðaskrifstofum t. d. boð frá Britannia og frá Braathens um leiguflug til Íslands sem er sambærilegt eða lægra en það sem Sterling býður. Getur verið að þessir aðilar séu allir svona vondir, að þeir ætli að fórna sjálfum sér til þess að setja Flugleiðir á hausinn?

Nei, við höfum dregist aftur úr, því miður, með flugvélakost, og þetta er vandasamt mál og spurning hvernig við getum í raun og veru komist úr þeirri miklu klípu, sem við erum komnir í með okkar flugmál, m. a. vegna stöðnunar á þessu sviði um allmörg ár. Þetta mál er nú í ítarlegri skoðun og verður reynt að leysa það þannig að menn geti við unað. En ég get ekki rætt það hér.