10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Mér hefur stundum áður í þessum stól verið borin á brýn vanþekking í þessum málum. Ég held að reynslan hafi sýnt annað.

Staðreynd málsins er sú, að 1979 var gróði Flugleiða af Evrópufluginu 2 milljarðar kr. Fargjöldin voru svo há, að gróði fyrirtækisins af Evrópufluginu, þessu flugi sem hér er verið að tala um, var 2 milljarðar kr. Það jafngildir því, að allir kjósendur í Norðurlandskjördæmi vestra og allir kjósendur á Vestfjarðakjördæmi hefðu getað farið frítt fram og til baka til London, eða m. ö. o. allir kjósendur frá Eyjafirði vestur um land og á Breiðafirði hefðu getað farið ókeypis til Lundúna og til baka fyrir þann umframgróða sem Flugleiðir tóku á þessu eina ári á Evrópufluginu.