10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt matsatriði hvort þetta hafi verið fróðlegar umræður eða ekki. En þær hafa þó a. m. k. verið fróðlegar að því leyti, að hv. formaður fjh.- og viðskn. Ed. upplýsir eða staðfestir að félagið hafi tafið fyrir því og flækst fyrir því að starfsfólki væri boðið hlutafé, en ráðherra upplýsir að það hafi ekki verið gert og telur að það framboð og það bréf, sem þarna sé um að ræða, dugi til þess að sanna að'staðið hafi verið með eðlilegum hætti að útboði hlutafjár til starfsfólks. Ekki gengur þetta nú sérlega vel upp.

Það hefur líka komið fram, að skilyrðin eru mismunandi eftir því, hvort hv. formaður fjh.- og viðskn. Ed. segir frá eða hv. formaður fjh.- og viðskn. Nd. segir frá.

Það hefur líka komið fram, að ráðh. telur að einungis eitt skilyrði sé uppfyllt, meðan annar nefndarformaðurinn telur að þrjú séu óuppfyllt. Þarna ber því nokkuð á milli.

En því miður hefur ekki fengist neitt út úr þessari umræðu um stefnumörkun. Við erum engu nær um það, jafnvel þó að menn hafi pexað mikið um leiguflugsfargjöld.