04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

354. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Arnórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 64 fsp. til hæstv. landbrh. um útflutningsuppbætur. Er hún svohljóðandi:

„Hyggst ríkisstj. gera einhverjar ráðstafanir til að mæta þeim vanda er við blasir hjá bændastéttinni í landinu, þar sem augljóst er að lögbundnar útflutningsuppbætur nægja ekki til að bændur fái greitt fullt grundvallarverð fyrir afurðir sínar á verðlagsárinu 1979–1980?“

Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú, að fyrirspyrjandi telur að mikil óvissa ríki nú meðal bænda í landinu um hverjir séu raunverulegir tekjumöguleikar og afkomumöguleikar búrekstrar. Þær aðgerðir, sem gripið hefur verið til og eiga að stuðla að samdrætti í landbúnaðarframleiðslunni, hafa óneitanlega rýrt til muna tekjumöguleika bænda frá því sem áður var. Mér er kunnugt um að þessar samdráttaraðgerðir eru mjög umdeildar meðal bændastéttarinnar og er það eðlilegt, einkum og sér í lagi þar sem áhrif þeirra koma mjög misjafnlega niður og auka enn til muna þann aðstöðumun og tekjumun, sem óneitanlega er innan bændastéttarinnar. Hins vegar gerðu bændur sér ljóst, að það þurfti að grípa til einhverra ráðstafana. Þeir gerðu sér ljóst, að það var ekki hægt að halda áfram á sömu braut, og settu því sjálfir í framkvæmd svokallað kvótakerfi sem miðar beint að því að samdráttur verði í landbúnaðarframleiðslunni á næstu árum. Við framkvæmd kvótakerfis kom í ljós, að á því eru verulegir annmarkar. Verstu agnúarnir voru að vísu lagfærðir með brbl. af hálfu ríkisstj. í sumar, en engu að síður kemur framkvæmd þess mjög misjafnlega niður á bændum í landinu.

Ríkisstj. lagði síðan á í sumar, svo sem kunnugt er, með útgáfu brbl. 200% fóðurbætisskatt vegna sérstaks vanda er við blasti í mjólkurframleiðslunni, m.a. vegna verulegs samdráttar á ostamarkaði í Bandaríkjunum og staðbundins offramleiðsluvanda. Ég segi: staðbundins, vegna þess að ljóst er að aðeins á vissum landssvæðum er mjólkurframleiðslan meiri en neysluþörfin.

Áhrif þessara samdráttaraðgerða hafa verið að koma í ljós á þessu ári, einkum í mjólkurframleiðslunni. Sé verðlagsárið 1979–1980 borið saman við næsta verðlagsár á undan hefur mjólkurframleiðslan minnkað um 6 millj, lítra eða 5.2%. Samdrátturinn varð allur á þessu ári, og ef tímabilið frá 1. jan. til 1. sept. er borið saman við sama tíma í fyrra er samdrátturinn um 6.6%. Og mjólkurframleiðslan í sept. í ár borið saman við sept í fyrra er 8.2% minni, þannig að samdrátturinn er meiri seinni hluta þessa árs.

Í sauðfjárframleiðslunni er ekki ljóst enn hvort um nokkurn samdrátt er að ræða. Mun færra fé var á fóðrum s.l. vetur, en vegna mjög hagstæðs árferðis eru líkur á að kindakjötsframleiðslan verði svipuð og í fyrra. Það er því ljóst, að bændur hafa brugðist við þeim vanda, er við blasir, og hafa nú þegar dregið verulega úr framleiðslunni. Því fylgja óhjákvæmilega rekstrarerfiðleikar, mismiklir eftir aðstæðum, en talið er að um verulega skuldaaukningu sé að ræða hjá bændum í landinu. Auk þess sem í framkvæmd er kvótakerfi, sem sett hefur verið á með fullum þunga á þessu ári, og lagður hefur verið á fóðurbætisskattur, hefur verið innheimt af bændum allt þetta ár verðjöfnunargjald, þar sem ljóst var í upphafi árs að útflutningsuppbótarétturinn nægði ekki. Innheimt verðjöfnunargjald af mjólk nemur á þessu ári um það bil 1 milljarði 170 millj. kr. og af kindakjöti um það bil 2.7 milljörðum kr. eða samtals 3 milljörðum 870 millj. kr. Eftir er að innheimta um 420 millj. kr. verðjöfnunargjald af mjólk. Samtals hafa því verið innheimtir um það bil 4 milljarðar 290 millj. kr. eða um það bil 1 millj. á hvern bónda í landinu.

Það er fyrirspyrjanda ærið áhyggjuefni, og mér er kunnugt um að það er bændum þessa lands einnig, hvort þeir eigi að bera þetta verðjöfnunargjald til viðbótar við þann vanda og þá tekjuskerðingu sem við blasir vegna samdráttaraðgerðanna. Mér er kunnugt um að sú skoðun er ríkjandi meðal forustumanna bænda, að eðlilegt sé að bændur fái vissan aðlögunartíma til að laga framleiðsluna að innanlandsmarkaðinum og á þeim tíma hlaupi ríkisvaldið undir bagga með þeim og taki þátt í því að greiða það sem umfram er lögleyfðan útflutningsbótarétt.

Fyrir verðlagsárið 1979–1980 hefur verið tekið á móti reikningum vegna útflutningsuppbóta að upphæð 13 milljarðar 630 millj. kr., en heildarþörfin mun vera um það bil 13 milljarðar 920 millj. kr. Útflutningsuppbótarétturinn er áætlaður 8 milljarðar 300 millj. kr. Ríkisstj. lagði fram 1 milljarð s.l. vor, þannig að vöntunin mun nú vera um það bi14 milljarðar 620 millj. kr. Sá vandi, sem við blasir, er því ærinn þar eð vanta mun um 1 millj. kr. á hvern bónda í landinu, og sú upphæð dregst vitanlega beint frá nettótekjum bændanna og verkar sem bein tekjuskerðing.

Þann vanda sem nú steðjar að bændastéttinni í landinu tel ég vera vanda þjóðarinnar allrar. Eigi íslenskum bændum að vera kleift að draga úr framleiðslunni, laga hana að innanlandsmarkaðinum og jafnframt auka fjölbreytni hennar og leita nýrra leiða í landbúnaði er þörf á náinni samvinnu milli forustu bænda og ríkisvaldsins um lausn mála. Nú þegar afkomu búresktrar í landinu hefur verið stefnt út í mikla óvissu vegna samdráttaraðgerða tel ég brýna nauðsyn til að ríkissjóður taki á sig hluta þess vanda er við blasir vegna ónógra útflutningsuppbóta á verðlagsárinu 1979–1980. Ég óttast mjög og tel raunar augljóst, að enn einu sinni verði gengið á þann rétt bænda, að þeir hafi sambærileg laun og aðrar vinnandi stéttir í landinu.

Eins og nú er komið í íslenskum landbúnaði er spurningin því sú, hversu mikið eigi að ganga á þann rétt bændastéttarinnar að hafa sambærileg laun við aðrar vinnandi stéttir í landinu. Það svar, sem kemur frá hæstv. landbrh., mun að einhverju leyti verða svar við þeirri spurningu. Það er þess vegna sem ég ber fram þessa fsp. á hv. Alþ. í von um jákvætt svar frá hæstv. landbrh.