10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

58. mál, eftirgjöf á gjaldi fyrir síma elli- og örorkulífeyrisþega

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn., sem liggur hér fyrir á þskj. 428, um till. til þál. um eftirgjöf á ársfjórðungsgjaldi fyrir síma elli- og örorkulífeyrisþega. Fyrir nefndinni hefur legið umsögn póst- og símamálastjórnar og ráðuneytisstjóra samgrn. um samhljóða till. sem lá fyrir á síðasta þingi.

Jafnframt fékk nefndin á sinn fund þá Jón Skúlason póst- og símamálastjóra og Róbert Sigurðsson forstöðumann þjónustuíbúða aldraðra að Dalbraut 27.

Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt till., en fjarstaddir voru hv, þm. Halldór Blöndal, Páll Pétursson og Steinþór Gestsson.

Ég get ekki stillt mig um að fagna því, að þetta mál skuli nú loksins vera komið á þetta stig. Þessi litla þáltill. er búin að liggja hér fyrir tveim þingum. Hún náði ekki afgreiðslu á síðasta þingi vegna umsagna sem voru ákaflega neikvæðar. Það kom hins vegar í ljós, þegar menn komu til viðtals við nefndina, að þær umsagnir voru hreinlega á misskilningi byggðar og vanþekkingu. Þetta er nokkurt umhugsunarefni fyrir okkur þm. Þegar við eigum ekki sæti í þeim nefndum, sem fjalla um mál sem við erum að flytja hér, kunnum við að eiga á hættu að þau nái ekki fram að ganga vegna þess að umsagnir eru ekki réttar. Slíkt getur auðvitað alltaf komið fyrir. En sem betur fer leiðréttist þessi misskilningur nú í nefndinni, og engar raddir komu fram sem voru andstæðar því að till. næði fram að ganga. Og ég treysti því, að hv. Sþ. samþykki nú þessa till. og þetta mál sé þar með úr sögunni. Það er satt að segja of lítið til að vera svo lengi á leiðinni og fá svo langa meðferð.