10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

205. mál, graskögglaverksmiðja

Helgi Seljan:

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta, rekstrarformið, tel ég fyllilega athugandi að við könnum rækilega hvaða form sé heppilegast á rekstri þessara verksmiðja. Og samstarf með okkur Austurlandsþingmönnum er nú svo gott, að það verða ekki vandræði fyrir okkur hv. 11. landsk. þm. að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum.

Það skal í engu dregið úr því, að kanna beri rækilega form þeirrar verksmiðju sem hér er um rætt, þó að auðvitað minni þetta okkur á verkefni sem lengi hafa verið í undirbúningi varðandi verksmiðjurnar bæði í Saltvík og Hólminum. Auðvitað minnir þetta á þær um leið og hvað stutt er þar á veg komið enn varðandi þau tvö mikilvægu svæði.

Ég tel þess vegna rétt og skylt að huga vel að hagkvæmni þessara verksmiðju. Ég held að það sé rétt, sem hv. 1. flm. kom inn á, að aukinn innlendur fóðuriðnaður og bætt heyverkun í heild séu einhverjir veigamestu þættirnir í þróun íslensks landbúnaðar, einmitt í átt til aukinnar hagkvæmni í landbúnaðinum.

Ég kom hins vegar hingað upp aðeins til að vekja athygli á því, sem reyndar mun blasa við á borðum þm. á morgun, að á s. l. þingi flutti Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur, sem sat þá hér á þingi sem varamaður, till. um rannsóknir á nýtingu innlendrar orku til bættrar heyöflunar og innlendrar kjarnfóðurframleiðslu. Í till. sagði að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að láta framkvæma nauðsynlegar rannsóknir og kveðja til aðila til að gera langtímaáætlun um það, hvernig hægt væri að nýta innlenda orkugjafa til að bæta heyverkun og efla innlenda kjarnfóðurframleiðslu. Þessa till. höfum við verið með nú í nokkurri endurvinnslu og höfum leyft okkur að endurflytja hana, með nokkuð breyttu orðalagi að vísu. Inn í það dæmi kæmi greinilega spurningin um það sem hv. 11. landsk. þm. fjallaði um, því að sú till. er það víðtæk að orðalagi. Og án þess að draga nokkuð úr þessu einstaka máli, þá held ég einmitt að langtímaáætlun svipað og segir í till. Guðrúnar Hallgrímsdóttur frá síðasta þingi, sem kom því miður aldrei hér til umræðu, sé sjálfsögð og taki til sem allra flestra þátta í þessum málum.

Ég nefni þetta aðeins hér, að þetta sé skoðað sem jákvætt innlegg í þetta einstaka mál. En ef við erum ekki með neinar áætlanir í þessum efnum og byggjum þetta ekki upp með heildarsýn yfir landið í huga, þá verður þetta þannig, að eitt mál kallar á annað og verksmiðja í einu héraði kallar í viðbrögð manna í öðru héraði um að fá verksmiðju þangað. Það þarf ekki endilega virkjun til þess að menn tryllist.

Ég segi það þess vegna, að ef ekki er unnið samkvæmt áætlun þar sem hliðsjón er höfð af hagkvæmni og öllum aðstæðum, t. d. með tilliti til markaðarins, sem er auðvitað stórt atriði í þessu, með tilliti til rekstrarformsins, sem hér var talað um áðan, — ef ekki er unnið samkvæmt slíkri áætlun koma auðvitað héruðin hvert af öðru í kjölfarið, og þá kann raunin að verða sú, að það verði í raun og veru hvergi aðhafst neitt. Ég ætla að vona að örlög þeirra Borgfirðinga verði ekki svipuð og raunin hefur orðið á varðandi þá Norðlendinga sem eru búnir að bíða æðilengi eftir verksmiðjunum í Saltvík og Hólminum eins og menn þekkja.

Ég gæti auðvitað nefnt það hér, að það er ekki mikill vandi fyrir okkur hv. 11. landsk. að nefna hið víðlenda Fljótsdalshérað sem dæmi um ákjósanlegan stað, sérstaklega með tilliti til markaðar, og þá ekki bara á Fljótsdalshéraði, heldur líka e. t. v. til markaðar á norðausturhorninu og þar í grennd, sem mjög æskilegan stað fyrir svona verksmiðju.

Ég held sem sagt að flm. hafi mjög mikið til síns máls varðandi Borgarfjörðinn, varðandi hagkvæmnina þar og ýmislegt sem kemur fram og er vel stutt í þeirra grg. En ég er enn sannfærður um það, að langtímaáætlun, svo sem till. var hér uppi um á síðasta þingi og kom þá ekki til umr., sé einmitt það sem við eigum að fara út í hér og vinna svo skipulega samkvæmt því.