10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

205. mál, graskögglaverksmiðja

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hv. þm. Egill Jónsson kom að eignarforminu og stjórnarforminu um leið, með hvaða hætti væri best að haga því í þeim rekstri sem hér er til umræðu, þ. e. fóðuriðnaðinum. Ég skal taka undir ýmislegt af því sem hann sagði. En það er ekki víst að sama form henti jafnvel alls staðar. Það er alls ekki víst. Það, sem lagt er til í þeirri till. sem er til umfjöllunar, er fyrst og fremst að ríkið verði þarna hluthafi. Það er mergurinn málsins sem lagt er til hér.

Að því er vikið í till., að líklegt sé að með tilkomu ríkisins sem eignaraðila yrði sá eignarhluti e. t. v. stærstur hinna ýmsu eignarhluta. Nú er þetta ekkert ákveðið. En í hugum heimamanna þykir að ýmsu leyti tryggara að hafa styrka hönd ríkisins með sér í þessari ráðagerð. Þannig eru viðhorfin nú. Hinu vil ég ekki neita, að varðandi rekstur slíkrar verksmiðju er mjög nauðsynlegt að ábyrgð heimaaðila sé óyggjandi, og ég tel að eins og þetta mál er hér lagt fyrir, að um er að ræða stærstan samanlagðan eignarhlut heimaaðila, þá mundi ábyrgðin fyrst og fremst vera hjá heimaaðilum.

Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir tók undir orð hv. þm. Egils Jónssonar um það, að einkareksturinn mundi í þessu tilliti e. t. v. gilda best. Nú vil ég segja það, að rekstur Brautarholts-verksmiðjunnar hefur gengið mjög vel og þeir, sem þar ráða og starfa, hafa sýnt mikinn dugnað í þessari starfsemi, um það er ekki deilt. Hins vegar hefur það komið fram í þessari umr. — og það ætla ég ekki að fara að endurtaka — að mesta áhyggjuefnið er sú stýring sem þarf að vera á sölu varningsins sem kemur frá þessum verksmiðjum. Og þar komum við e. t. v. að því atriði sem mest er um vert að fari vel úr hendi og að gengið verði lengra í þá átt í íslenskum landbúnaði að nýta þessa innlendur framleiðslu til búvöruframleiðslunnar. Það eru mál sem vissulega þurfa gaumgæfilegrar athugunar við. Og ég endurtek það hér: ég lít svo á, að eftir því sem íslenskur landbúnaður byggir meira á heimaafla, því styrkar séu stoðir hans.

Ég þakka jákvæðar undirtektir við þessa till. og sé ekki ástæðu til að fjölyrða um hana frekar.