10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2814 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

241. mál, bætt þjónusta við íbúa Vestur-Húnavatnssýslu

Flm. (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Á þskj. 473 leyfi ég mér að flytja till, til þál. um bætta opinbera þjónustu við íbúa Vestur-Húnavatnssýslu. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að vinna að því, að á Hvammstanga verði starfrækt umboðsskrifstofa frá sýslumannsembættinu á Blönduósi, þar sem m. a. verði skrifstofuhald sýslusjóðs og sjúkrasamlags Vestur-Húnavatnssýslu, umboð Tryggingastofnunar ríkisins, innheimta þinggjalda og veðmálabækur.“

Árið 1907 er Húnavatnssýslu skipt í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu. Ástæða þeirrar skiptingar hefur eflaust verið sú, að íbúunum og löggjafanum hefur verið ljóst að landfræðilegar aðstæður og miklar vegalengdir kæmu í veg fyrir að íbúar Húnavatnssýslu óskiptrar gætu myndað eina félagslega heild. Það er fyrir löngu ljóst, að þessi skipting Húnavatnssýslu í tvær sýslur var skynsamleg ákvörðun og tekin á réttum tíma. Það er engin tilviljun, að sýslunefndir Húnavatnssýslna hafa löngum verið starfsamari og tekið að sér fleiri og stærri verkefni en aðrar sýslunefndir. Það er fyrst og fremst því að þakka, að sýsluskipanin var á sínum tíma löguð að héraðslegum þjónustusvæðum og byggð upp í kringum verslunarstaði sem eru þannig í sveit settir, að allir íbúar sýslnanna eiga auðvelt með að sækja þangað alla daglega þjónustu.

Hvammstangi er verslunar- og þjónustumiðstöð Vestur-Húnavatnssýslu. Hann byrjar að byggjast um líkt leyti eða litlu áður en Húnavatnssýslu er skipt, en áður höfðu íbúarnir sótt verslun um langan veg, m. a. til Blönduóss og Borðeyrar. Þegar eftir sýsluskiptin hófu íbúar sýslunnar, bæði í gegnum sýslunefnd og í frjálsu félagsstarfi, uppbyggingu verslunar og alhliða þjónustu á Hvammstanga. Og allar götur síðan hefur sú þróun haldið áfram. Á Hvammstanga er vöruhöfn fyrir Vestur-Húnavatnssýslu. Þar er skipað upp þungavöru er dreifist um alla sýsluna, og þaðan eru fluttar landbúnaðar- og sjávarafurðir. Kaupfélag Vestur-Húnvetninga rekur þar verslun, sláturhús og kjötvinnslu - og mjólkursamlag, trésmiðju og bakarí í samvinnu við aðra. Verslun Sigurðar Pálmasonar hf. er gamalgróið verslunarfyrirtæki er kaupir og selur afurðir bænda úr sýslunni allri og rekur sláturhús. Á Hvammstanga er bátaútgerð og vinnsla sjávarafla fer þar ört vaxandi. Allar stofnanir sýslusjóðs Vestur-Húnavatnssýslu eru á Hvammstanga, enn fremur Sparisjóður Vestur-Húnavatnssýslu og Sjúkrahús Hvammstanga sem einnig er elliheimili. Þar eru nú samtals um 35 rúm og í tengslum við það er rekin tveggja lækna heilsugæslustöð. Þá eru flestir hreppar sýslunnar nú að byggja saman á Hvammstanga átta íbúðir fyrir aldraða. Bæjarhreppur í Strandasýslu er einnig aðili að því samstarfi, en Bæhreppingar hafa um langan tíma sótt læknisþjónustu til Hvammstanga og verið í Hvammstangalæknishéraði. Að vísu var Bæjarhreppur fluttur undir Hólmavíkurumdæmi samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1978. Það var gert að Bæhreppingum fornspurðum og í algerri óþökk þeirra og vil ég beina til hv. þm. að því þarf að breyta. Á síðustu árum hefur verið komið á fót á Hvammstanga löggæslu og viðgerðarþjónustu fyrir síma og Rafmagnsveitu ríkisins sem þjónar sýslunni allri. Varla þarf að taka það fram, að á Hvammstanga er auðvitað fyrir hendi margs konar þjónusta önnur sem ekki verður talin upp hér. Af þessu má fullljóst vera að flestir sýslubúar eiga oft erindi til Hvammstanga, og þangað vilja þeir geta sótt sem víðtækasta og besta þjónustu.

Þjónusta sýslumannsembættisins er þess vegna nær því eina opinbera þjónustan sem sýslubúar þurfa að hafa greiðan aðgang að og ekki er fyrir hendi á Hvammstanga. Dómsvald og stjórn löggæslu er ekki nema hluti af því starfi sem unnið er við sýslumannsembætti. Ýmis konar skrifstofuhald annað er stór hluti starfseminnar Innheimtaþinggjalda, sjúkratryggingagjalda, söluskatts, launaskatts, bifreiðagjalda, kirkju- og kirkjugarðsgjalda og fleiri gjalda fyrir ríkissjóð og aðra er einn þátturinn, skrifstofuhald sjúkrasamlags er annar, umboðsstörf fyrir Tryggingastofnun ríkisins sá þriðji. Ýmis konar skráning er einnig veigamikill þáttur, þinglýsingar, stimplun afsala og kaupsamninga, útgáfa veðbókarvottorða og fleira þess háttar. Allt er þetta þjónusta sem þegnar landsins þurfa að hafa sem greiðastan aðgang að. Greiður aðgangur skattgreiðenda að innheimtustofnunum er mikilvægur, bæði fyrir innheimtumenn og gjaldendur, m. a. vegna ákvæða um álagningu dráttarvaxta. Greið upplýsingamiðlun eyðir líka óþarfri tortryggni og misskilningi og stuðlar að betri innheimtu. Ekki þarf að eyða löngu máli í að útlista nauðsyn þess að fólk hafi góðan aðgang að skrifstofu sjúkrasamlags, sem sér m. a. um ýmsar endurgreiðslur, t. d. tannlækninga og sjúkraflutninga. Sama er að segja um umboð Tryggingastofnunar ríkisins. Ég óttast hreint og beint að vegna erfiðleika á samskiptum við tryggingaumboðið leiti fólk ekki bótaréttar síns. Við skulum hafa það í huga, að hér er fyrst og fremst um fólk að ræða sem gengur ekki heilt til skógar, er óframfærið og á ekki gott með að afla sér upplýsinga. Forsvarsmenn sveitarfélaganna eiga líka mikil viðskipti við sjúkrasamlagið, m. a. vegna greiðsluþátttöku sveitarsjóðanna. Sama er að segja um sýslusjóðinn sem fjármagnaður er með álögum á sveitarsjóðina.

Þá má geta þess, að nær öllum fjármunum sjúkrasamlags Vestur-Húnavatnssýslu og sýslusjóðs er ráðstafað í Vestur-Húnavatnssýslu. Alla þessa þjónustu þurfa íbúar Vestur-Húnavatnssýslu að sækja til sýslumannsembættisins á Blönduósi. Hvammstangabúar þurfa þá að aka 120 km, en þeir sem lengst eiga að sækja, um 200 km. Þess er hins vegar skylt að geta, að sýslumaður hefur sýnt góðan vilja til að bæta þjónustuna, þó innan þess ramma að skrifstofuhaldið verði áfram á Blönduósi. Hann eða fulltrúi hans kemur oftast einn dag í viku til Hvammstanga og er þá með viðtalstíma. Í flestum tilfellum er biðstofan við afgreiðsluherbergi þeirra þéttsetin, og þó eru fjölmargir sem gefa sér ekki tíma til að bíða, heldur reyna að leysa mál sín eftir öðrum leiðum.

Auðvitað eru margar leiðir til úrbóta í þessu máli. Ein er sú sem sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu benti dómsmrn. á að farin yrði, en það er að gera Vestur-Húnavatnssýslu að sérstöku lögsagnarumdæmi. Þess eru líka nýleg dæmi, að sú leið hafi verið farin þar sem líkt stóð á, t. d. með skiptingu Skaftafellssýslu í tvö lögsagnarumdæmi árið 1977. Það er þó ekki lagt til nú, m. a. vegna þess að það þyrfti lengri aðdraganda en Vestur-Húnvetningar telja sig geta beðið eftir. E. t. v. væri hægt að koma á fót gjaldheimtu í Vestur-Húnavatnssýslu, t. d. með Hvammstangahreppi eða fleiri sveitarfélögum, og auðvitað er þægilegast fyrir alla aðila að geta greitt bæði þinggjöld og útsvör á sama stað. Þó er mér einungis kunnugt um eina gjaldheimtu utan Reykjavíkur, þ. e. á Seltjarnarnesi.

Stjórn Sjúkrasamlags Vestur-Húnavatnssýslu reyndi á sínum tíma að flytja skrifstofu samlagsins til Hvammstanga, en neikvæð afstaða Tryggingastofnunar ríkisins kom í veg fyrir það. Það hefði þó verið viðleitni til úrbóta.

Sýslusjóður Vestur-Húnavatnssýslu er nú að byggja 500–600 fermetra húsnæði þar sem m. a. er áætlað að koma upp héraðsbókasafni og lögregluvarðstofu og fleiru. Þar verður því strax á þessu ári húsnæðisaðstaða fyrir þá þjónustustarfsemi sem við íbúar Vestur-Húnavatnssýslu viljum flytja inn í sýsluna, og er húsið m. a. byggt með það fyrir augum. Auðveldasta og fljótvirkasta leiðin til úrbóta í þessu máli tel ég þess vegna að sé sú sem þáltill. gerir ráð fyrir, að umboðsskrifstofa frá sýslumannsembættinu á Blönduósi verði starfrækt á Hvammstanga.

Loks skal á það bent, að ólíklegt er að umtalsverður kostnaðarauki hljótist af því að koma skrifstofunni á fót á Hvammstanga. Fyrst og fremst er um það að ræða að flytja þjónustustarfsemi, sem nú er unnin annars staðar, heim í hérað til þeirra íbúa sem hún á að þjóna. Sá kostnaðarauki er a. m. k. smávægilegur miðað við þá hagkvæmni er umboðsskrifstofan hefði í för með sér fyrir íbúa Vestur-Húnavatnssýslu og ályktun þessi miðar að.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Að umr. lokinni legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til allshn.