10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli hv. alþm. á hinu alvarlega ástandi sem nú ríkir í raforkumálum þjóðarinnar, þar sem stór landssvæði hafa með stuttu millibili orðið rafmagnslaus vegna vatnsskorts til virkjana þeirra sem við eigum stærstar og treyst er á af meiri hluta þjóðarinnar svo og vegna bilana sem orðið hafa á flutningslínum.

Það verður að teljast óskynsamlegt og raunar háskalegt hversu öllum stærstu raforkuverum landsins hefur verið valinn staður, þar sem þau eru í sama héraðinu og orkunni síðan dreift þaðan út um byggðir landsins með línum sem reynst hefur bilanahætt í þeim veðrum sem tilheyra íslenskri vetrarveðráttu. Ég mun ekki gera tilraun til að spá um framtíðina, hvorki um veðurfar landsins né aðra þætti íslenskrar náttúru. Ég þykist vita að allir hv. alþm. geri sér ljósa þá hættu, sem staðsetning mestu raforkuvera landsins á eldvirkum svæðum hefur í för með sér, og að bilanir, eins og verið hafa að undanförnu á dreifikerfi raforku um landið, svo og sá vatnsskortur til orkuveranna, sem nú er, væri e. t. v. varla umtalsverður miðað við það ástand sem skapast gæti ef til alvarlegra tíðinda drægi á virkjanasvæðunum á Suðurlandi, svo sem eldgosa eða jarðskjálfta. Er því einsýnt að hér þarf að ráða bót á og það fyrr en síðar. Herra forseti. Með vísan til þess sem ég hef nú sagt vil ég leyfa mér að vekja athygli hv. Alþingis á atburði sem átti sér stað hér í Alþingishúsinu nú skömmu áður en þingfundir hófust í dag, en þá voru hæstv. iðnrh. afhentir undirskriftalistar með nöfnum rúmlega 3000 kjósenda í Norðurlandskjördæmi vestra þar sem áhersla er lögð á að næsta stórvirkjun landsins verði utan eldvirkra svæða. Með leyfi forseta mun ég lesa bréf það sem hæstv. iðnrh. var afhent í dag, þar sem 3256 kjósendur í Norðurlandskjördæmi vestra skrifuðu nöfn sín undir, en bréfið hljóðar þannig:

„Við undirritaðir kjósendur á Norðurlandi vestra leggjum ríka áherslu á að hraðað verði samningum um virkjun Blöndu. Við skorum eindregið á ríkisstj., iðnrh., þm. kjördæmisins og alla samningsaðila að vinna markvisst að því að sanngjarnir samningar náist þar sem gætt sé í hvívetna hagsmuna heimaaðila og þjóðarinnar.

Þá skorum við á ríkisstj. og Alþingi að taka ákvörðun um að Blönduvirkjun, sem er fjarri eldvirkum svæðum, verði næsta stórvirkjun. Virkjunin fellur vel að dreifikerfi raforkunnar og verður tvímælalaust til öryggis og heilla fyrir landsmenn alla.“

Það er sérstök ástæða til að vekja athygli hv. alþm. á alvöru þessa máls, þar sem hér er um að ræða undirskrift um 50% þeirra sem á kjörskrá voru við síðustu almennar kosningar sem fram fóru hér á landi, þ. e. forsetakosningar á s. l. sumri, og 56% þeirra kjósenda af Norðurlandi vestra sem neyttu kosningarréttar síns við sömu kosningar.

Unnið hefur verið að undirskriftasöfnun síðustu viku eða svo, oft við erfiðar aðstæður sökum illviðra og rafmagnsleysis og ófærðar á vegum. Fer því ekki hjá því, að þeir eru margir sem ekki áttu þess kost að skrifa nafn sitt á þessa lista til styrktar málefninu á þennan hátt, en þó hefðu gjarnan viljað vera með. Sá mikli fjöldi kjósenda á Norðurlandi vestra, sem með undirskrift sinni hafa sýnt hversu alvarlega þeir líta á núverandi ástand raforkumála á Norðurlandi vestra og raunar allrar þjóðarinnar, svo og sá fjöldi Norðlendinga, sem situr hér á pöllum hv. Alþingis, hygg ég að sýni ótvírætt samstöðu heimamanna um þetta málefni og ótvíræða kröfu um að að þessum málum verði unnið af festu og framsýni af hálfu forsvarsmanna orkumála, hæstv. ríkisstj. og raunar hv. alþm. allra.

Með áskorun þessari um virkjun Blöndu, sem ég las áðan, fylgja aðeins nöfn kjósenda úr Norðurlandskjördæmi vestra. Það ber þó ekki að skilja þannig, að fleiri hafi ekki áhuga á að sá virkjunarkostur verði nýttur næst þegar virkjun verður gerð. Mér er kunnugt um áhuga Vestlendinga, Vestfirðinga og íbúa Norðurlandskjördæmis eystra fyrir þessu máli, enda fara hagsmunir þessara landshluta saman á þessu sviði, og raunar eru það hagsmunir þjóðarinnar allrar að dreifa áhættu gegn óhöppum svo sem verða má.

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina því til hæstv. iðnrh., að hann hlutist til um að unnið verði sem ötullegast að virkjun Blöndu svo að þjóðin komist sem fyrst úr því hættuástandi sem hún nú er í á sviði orkumála. Beini ég því raunar til hæstv. ríkisstj. allrar svo og alþm., að þeir vinni hér að svo sem verða má.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og vil þakka það tækifæri sem mér er gefið til að taka hér til máls utan dagskrár og beina athygli hv. alþm. að þessu mjög svo brýna hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar.