10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2829 í B-deild Alþingistíðinda. (2941)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. iðnrh. gat um í ræðu sinni áðan urðu hér umræður um fsp., sem ég bar fram til hans, um mánaðamótin jan.-febr., þar sem hann lýsti því yfir, að á yfirstandandi þingi yrðu teknar ákvarðanir um næstu stórvirkjun. Hann ítrekaði þá yfirlýsingu sína hér áðan og því ber að fagna. Í þessum umræðum var auðvitað farið vítt og breitt yfir hagkvæmni ýmissa virkjana og það hefur verið gert í umr. hér áðan, og þess vegna get ég farið að óskum forseta og reynt að stytta mál mitt. Þar að auki hygg ég að t. d. gestir okkar hér í dag hafi margir heyrt mig síðustu áratugina eða svo berjast fyrir virkjun Blöndu og reyndar stórvirkjunum yfirleitt og orkufrekum iðnaði að vissu marki. Vissulega er það gleðilegt tímanna tákn, að nú ræða talsmenn allra stjórnmálaflokka meira og minna um nauðsyn þess að við nýtum okkar orkulindir og gerum það jafnvel býsna hratt, eins og síðasti ræðumaður t. d. vék að. Ég er honum sammála um að það er alveg áhættulaust að fara talsvert hratt í virkjanir.

Ég hélt satt að segja að þegar stefnuyfirlýsing ríkisstj. var birt mættu menn vera nokkuð öruggir um að Blanda yrði næst virkjuð. Það var talað um að virkja næst utan eldvirkra svæða. Ég held að menn hafi einmitt haft hliðsjón af því, að næsta virkjun yrði þá ekki á Þjórsársvæðinu, hvað sem jarðfræði líður, eins og síðasti ræðumaður var að nefna hér. Þá var ekki nema um tvær virkjanir að ræða: Blönduvirkjun og stóru virkjunina á Austurlandi, Fljótsdalsvirkjun, sem vissulega er ekki hagstæð virkjun nema hún verði mjög stór strax í fyrsta áfanga og þá með stóriðju. Sumir telja það óhagstætt að stóriðja skuli verða að fylgja slíkri virkjun. Það tel ég ekki. Ég tel æskilegt að eitt stóriðjufyrirtæki rísi á Austurlandi og annað á Norðurlandi. En hins er að gæta, að það tekur mjög langan tíma að ná slíkum samningum og að byggja slíkt stórt orkuver og samhliða iðjuver sem á að nota orkuna, þannig að það lá í augum uppi að fyrst yrðu menn þá að ráðast í virkjun Blöndu af því að þar var ekki nauðsyn á neinni stóriðju. Það er hægt að flytja nærri því helming orkunnar hingað suður til Reykjavíkur. Það hefur ekki komið hér fram í röksemdum fyrir Blönduvirkjun, sem er ekki síst mikilvægt og þá einmitt fyrir Suðvesturlandið, að með því að geta flutt orku úr tveim áttum eftir línum, sem þegar eru til eykst auðvitað öryggi hér suðvestanlands gífurlega. Ég held að Reykvíkingar ættu ekki síður en aðrir að berjast fyrir því, að Blanda verði virkjuð og það sem allra fyrst. Að hluta til er auðvitað hægt að nota orkuna frá Blöndu til þeirrar stóriðju, sem þegar er fyrir hendi í Hvalfirði, og yrði vafalaust gert.

Til að forðast allan misskilning bæti ég við að ég er mjög eindreginn stuðningsmaður Fljótsdalsvirkjunar og ég tel að það eigi að leggja í þær framkvæmdir eins fljótt og nokkur kostur er, en það verður ekki gert alveg á næstu árum af þeirri ástæðu, eins og ég áðan gat um, að það tekur langan tíma að ná samningum um stóriðju og það tekur miklu lengri tíma að fullhanna svo stórt iðjuver en það sem minna er og einfaldara í sniðum, þar sem Blanda er.

Síðasta árið hef ég ekki haft mjög hátt um Blönduvirkjun, meðfram vegna þessarar yfirlýsingar í sáttmála ríkisstj. Að vísu tek ég það plagg ekki ýkjahátíðlega, það er nú búið að svíkja í því flest, — en engu að síður hafði maður þó von um að við yrði staðið að næsta virkjun yrði utan eldvirkra svæða, og þá var það auðvitað Blönduvirkjun. Ekkert annað gat komið til greina ef ekki átti að bíða svo tengi að landið yrði orðið orkulaust, yrði orkuþurrð, ekki bara til stóriðju, heldur líka til almennrar notkunar. Það held ég að allir menn viti og sjái í hendi sér.

Ástæðan til þess, að ég m. a. hef ekki haft mjög hátt um Blönduvirkjun, er sú, að það hafa verið deilur í kjördæminu. Að vísu er það ekkert vafamál — ég fullyrði það — að yfirgnæfandi meiri hluti fólks í þessum landshluta vill fá Blönduvirkjun og vill fá hana strax. En það eru aðrir sem hafa talið að óhætt væri að fara lítið eitt hægara, athuga sinn gang betur og hafa meir séð eftir þeim landspjöllum, sem óneitanlega verða, heldur en aðrir menn hafa gert. Ég hef fyrir mína parta viljað reyna að leggja mig fram um að sættir gætu náðst, jafnvel þó virkjunin yrði eitthvað dýrari en ella. Það eru einmitt, eins og hér hefur komið fram, samningamenn að störfum þessa dagana, og ég held að við hljótum öll að vona og treysta að einmitt núna, alveg næstu daga, — ég vil segja daga, en ekki vikur, — verði á það reynt að ná þessu samkomulagi.

Það er kannske svo, eins og einhver ræðumaður vék að, að aldrei getur hver einasti maður verið sammála um slíka stórframkvæmd. Stjórnarskráin gerir raunar ráð fyrir því, að hagsmunir eins og eins manns eða örfárra manna verði að víkja fyrir almannaheill. Helst ætti ekki til þess að koma að neinn mann þurfi að kúga. Ég hef einhvern veginn trú á því, að svo fari að engan mann þurfi að kúga í þessu máli. Ég held að ef menn snúa bökum saman um það núna alveg næstu dagana — og ég endurtek: dagana — að reyna að leysa þetta mál geti það leystst svo farsællega að allir geti vel við unað. Það skulu verða mín síðustu orð hér nú. Ég vona sem sagt einlæglega að sú lausn náist sem allir getir vel við unað.

Það er vissulega ánægjulegt að fólkið í kjördæminu og á Norðurlandi öllu hefur lýst hug sínum til þessa máls. Auðvitað er þetta líka hagsmunamál Vestfjarðanna, Vesturlands, en alls ekki síst Suðurlandsins og stór-Reykjavíkursvæðisins þar sem vandræðin yrðu auðvitað langsamlega mest ef allt rafmagn færi. — Við skulum játa að við erum langóviðbúnastir. Fólkið í sveitunum hefur þó — sums staðar a. m. k. — nokkur tækifæri til að bjarga sér, en ef við missum allt rafmagn og allan hita erum við algerlega ósjálfbjarga.