10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2830 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst óska fólki á Norðurlandi vestra til hamingju með þessa myndarlegu suðurgöngu. Ég skil það vel, að íbúar í Norðurlandi vestra hafi miklar áhyggjur af því, að sundurlyndi í héraði eða kröfuharka fámenns hóps þar verði til þess að tefja fyrir eða hindra virkjun Blöndu. Það er vissulega ástæða til að óttast það eins og málin hafa gengið að undanförnu.

Það er kannske ekki nema von að íbúar á Norðurlandi vestra hafi haft sérstakar áhyggjur af þessu — líka af því að heyra málflutning hæstv. iðnrh. Ég get ekki sagt að málflutningur hans hér í dag hafi sefa þennan ótta eða gefið ástæðu til þess að úr honum drægi. Það sterkasta, sem hæstv. ráðh. hafði um þetta að segja, var að hann vonaði náttúrlega að þannig tækist að halda á málum að Blanda kæmi til álita varðandi stefnuna til langs tíma. En vitaskuld hafa Austfirðingar líka áhuga á sínum virkjunarmálum og það er von.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því, að landshlutatogstreita má ekki verða til þess að tefja fyrir virkjunarframkvæmdum hér á landi. Blanda hefur átt sér marga ötula talsmenn, eins og bæði Árna Gunnarsson alþm. og Finn Torfa Stefánsson fyrrv. alþm., og það hafa líka verið til ötulir talsmenn fyrir virkjun í Fljótsdal. Engu að síður er það svo, að sú spurning, sem fyrir okkur liggur, snýst í rauninni fyrst og fremst um hvort við ætlum að virkja til stóriðju eða ekki. Mér virðast þau áform, sem uppi eru, vera af því tagi að það eigi ekki að virkja til stóriðju. Þau áform, sem uppi eru, og það má ráða af ræðu hæstv. iðnrh., beinast að því, að það komi hér inn virkjun á árinu 1987 eða 1988. Það þýðir að ekkert svigrúm er til frekari stóriðju. Það er ekkert svigrúm til frekari framkvæmda í orkufrekum iðnaði fram til þess tíma og mjög takmarkað þá.

Ef við lítum á hver virkjunarhraðinn hefur verið að undanförnu er það svo, að ef við héldum sama virkjunarhraða á komandi árum og við höfum haft, og uppbygging í orkufrekum iðnaði hefur ekki verið sérlega mikil, ættu allar þær þrjár virkjanir, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, að vera komnar í gagnið innan 12 ára, — ef við bara héldum sama virkjunarhraða og á undanförnum 15 árum. Ef hugmyndin er hins vegar að mæta þörfinni fyrir aukna atvinnu, fyrir fleiri atvinnutækifæri, með stóriðju, með orkufrekum iðnaði, sem er áreiðanlega langbesti valkosturinn í þessum efnum, á virkjunarhraðinn vitaskuld að vera meiri en hann hefur verið að undanförnu. Ef hann væri 50% meiri en hann hefur verið að undanförnu ættu allar þær þrjár virkjanir, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, að vera komnar í notkun innan átta ára. Það er þessi stefna sem ég tel að þurfi að marka hér á Alþingi. Ef sú stefna liggur fyrir er ekkert meginmál hver röðin verður nákvæmlega.

Allir góðir menn vænta þess væntanlega að þær sættir takist að enginn þessara virkjunarvalkosta lendi út undan á þessu tímabili. Að því hljóta allir að vilja vinna. Þess vegna held ég að jafnvel þótt áhyggjur séu á Norðurlandi vestra um þessi mál og líka á Austfjörðum sé það meginstefnumörkunin sem skiptir sköpum og það skipti ekki meginmáli hvar byrjað er, svo framarlega sem menn geta haldið þannig á málum að þessar virkjanir verði ekki eyðilagðar með hagsmunatogstreitu sé rúm fyrir þær allar innan átta ára. Það er þetta sem við eigum að setja niður fyrir okkur.

Það er annað sjónarmið sem ég tel nauðsynlegt að menn hafi í huga: atvinnusjónarmiðið í virkjunarframkvæmdunum sjálfum. Það hafa sjálfsagt um 600–800 manns eða jafnvel fleiri haft atvinnu af því að vinna í virkjunarframkvæmdum og við byggingu iðjuvera á undanförnum árum. Ef þeirri stefnu verður fylgt fram að gera ekkert fyrr en 1983 verður hlé á virkjunarframkvæmdum. Þá verður fjöldi fólks sem ekki hefur atvinnu. Og það sem verra er: Þetta er fólk sem kann til verka. Þetta er fólk sem kann að byggja virkjanir. Og hættan er sú, að ofan á annan landflótta, sem við höfum hér á landi, fáum við viðbótar landflótta af hálfu þessa fólks sem flýr úr landi vegna þess að það hefur ekki verkefni. Þess eru meira að segja dæmi að menn, sem hafa unnið við virkjunarframkvæmdir, hafa þegar flutt sig til Afríku — til Mogadishu í Sómalíu — vegna þess að verkefni eru ekki fyrir hendi hér á landi.

Herra forseti. Ég vil einungis leggja áherslu á það, að ef við ætlum að koma í veg fyrir landflótta, ef við ætlum að skapa hér betri lífskjör verður virkjunarhraðinn að vera meiri en hann hefur verið að undanförnu, þá verður virkjunarhraðinn að vera meiri en ráða má af orðum hæstv. iðnrh., og þá er rúm fyrir allar þessar þrjár virkjanir innan áratugs. Þá ættu menn, sem bera hag þessara þriggja virkjana hverra fyrir sig sérstaklega fyrir brjósti, allir að geta unað sáttir við sitt. Í þessu máli má það ekki henda, að landshlutatogstreita verði til þess að tefja fyrir eðlilegri og æskilegri framþróun.