10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ingólfur Guðnason, 5. þm. Norðurl. hóf í dag umr. sína um þessi mál með tali um orkuskortinn eða orkuskömmtunina sem þjóðin hefur búið við undanfarna mánuði. Í ljósi þeirrar stöðu eða öllu heldur skugga hennar hélt hann síðan ræðu sína. Þessi orkuskortur er auðvitað mjög alvarlegt mál. Iðnrh. hefur nú óskað eftir rannsókn á orsökum orkuskortsins og væntanlega geta þm. fengið skýrslu um þær innan tíðar.

Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að nokkurs orkuskorts gæti það ár sem ný virkjun tekur til starfa. Landsvirkjun hefur haldið því fram, að slæmt vatnsár sé ein aðalástæða þessa orkuskorts. Eigi að síður er það svo, að í byrjun hausts er staða vatnsmiðlana í landinu glettilega góð. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hin mikla aukning álags á raforkukerfið, sem kom til framkvæmda á síðasta ári, hefur hér mikil áhrif. Álverið var stækkað, ofni var bætt við málmblendiverksmiðjuna, Vestfjarðalína var tengd, Vopnafjarðarlína var tengd, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Auk þess nefna menn sem orsök lekann í Sigöldulóni, sem sjálfsagt er mál þess eðlis að ekki væri óeðlilegt að þm. fengju skýrslu um stöðu þess máls. Eigi að síður var staðan sú í vatnsbúskap Íslendinga haustið 1980, að vatnshæð miðlunarlóna var tiltölulega góð. Í ljósi þessa gerði Landsvirkjun þann samning við málmblendiverksmiðjuna að keyra báða ofna hennar út októbermánuð. Það hafði auðvitað í för með sér að verulegu vatni var hleypt úr Þórisvatni út allan október áður en að venjulegur miðlunartími hefst. Í október var hins vegar nægilegt rennsli í Þjórsá til þess að knýja Búrfellsvirkjun, þannig að það vatn, sem hleypt var úr Þórisvatni í gegnum Sigölduvirkjun, rann fram hjá Búrfelli ónotað, og getur það hæglega numið meðalvetrarrennsli Þjórsár í nokkuð langan tíma, gæti vel verið 90 til 140 rúmmetrar á sekúndu. Síðan lenda menn í þeirri stöðu, að októbermánuður er óvenjulega kaldur og ísmyndun í Þjórsá verður geysilega mikil, þannig að í nóvember verður að nota upp undir 1/3 af Þórisvatni til að skola ís fram hjá Búrfelli. Þar með reynist sú ákvörðun að keyra báða ofna málmblendiverksmiðjunnar út október röng. Þetta hefur auðvitað veruleg áhrif á orkuskortinn og orkuskömmtunina sem í kjötfar alls þessa kemur: Þetta leiðir síðan til þess, að framleiða verður verulega raforku með olíu á þessum vetrarmánuðum og jafnframt að skammta svo mikið raforku að mikil skömmtun er hjá álverinu, málmblendiverksmiðjunni er lokað, mikil skömmtun hjá áburðarverksmiðjunni o. s. frv., o. s. frv. Enn eru landsmenn ekki búnir að súpa seyðið af þessu fyllilega vegna þess að sú mikla olíukeyrsla, sem þarna er um að ræða, hefur í för með sér verulegan halla hjá Rafmagnsveitunum og ekki kæmi mér á óvart að þar væri um að ræða nokkra milljarða króna sem eftir er að finna lausn á hvernig greiða skuli. Hér er því auðvitað um mjög alvarlegt mál að ræða.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram í ræðum margra manna, að í stjórnarsáttmálanum er sagt að stefnt skuli að því að næsta virkjun skuli vera utan eldvirkra svæða. En þegar menn tala um öryggi virkjana eiga menn ekki bara við hættu vegna eldgosa eða jarðskjálfta. Þar kemur fleira til, ekki kannske hvað síst mismunandi úrkomusvæði og vatnsbúskapur landsmanna, eins og við höfum áþreifanlega einmitt orðið vitni að þessa síðustu vetrarmánuði. Enn fleira kemur til. Í því sambandi mætti nefna þá hættu, sem stofnlínur frá virkjunum eru í vegna veðurofsa, og hættan auðvitað mun meiri ef línurnar eru allar á sama svæði. Þannig mætti lengi telja. En þegar menn tala um öryggi í orkubúskap er það auðvitað ekki aðeins um öryggið sem varðar staðsetningu virkjunarinnar sjálfrar, heldur líka það öryggi að næsta virkjun komi nægilega fljótt á eftir Hrauneyjafossi til þess að ekki komi upp orkuskortur í svipuðum mæli á milli virkjana og við erum nú í. Þessi öryggisatriði verða að vera í lagi. Þetta eru meginatriði. Reynslan s.l. vetur hlýtur að kenna okkur það, að við verðum að taka tillit til þessara atriða. Hagkvæmnin spilar auðvitað mjög mikið þarna inn í, en öryggið verður að vera í fyrirrúmi.

Því hefur oft verið haldið fram að Hrauneyjafossvirkjun, sem á að taka til starfa í lok þessa árs, muni verða fullnýtt einhvern tíma á árunum 1986–1987, jafnvel þó að ekki komi til neinn orkufrekur iðnaður á þeim tíma. Þá verður ný virkjun að taka til starfa. Að vísu greinir menn nokkuð á um þennan tíma og hann færist nokkuð til eftir því, hversu bjartsýnir menn eru um orkuframleiðslu Kröflu og fleiri atriði. En eitt verða menn að vera sammála um í öllu þessu tali, og það er að næsta virkjun verður að geta tekið til starfa áður en kemur til orkuskorts á eftir Hrauneyjafossi.

Það er rétt að Íslendingar eru þó það lánsamir nú að þeir eiga að geta valið um þrjá hagkvæma virkjunarkosti. Ég held að það hafi komið fram í ræðu hæstv. landbrh., að eftir þeim tölum, sem hann hefði, væri e. t. v. ekki mjög mikill munur á hagkvæmni þessara virkjana. Það stemmir nokkuð við þær tölur sem ég hef séð. En ég tek undir orð þeirra manna sem hér hafa talað og sagt að þarna sé ekki um endanlegar tölur að ræða og þær geti enn þá breyst. Þess vegna er umræða um þessi mál varla tímabær. Þarna getur ýmislegt breyst enn þá.

Blanda liggur vel við kerfinu, segja menn, og Blanda er hagkvæmur virkjunarkostur. Það er enginn vafi á því. En deilur verða menn að setja niður og friður verður að nást áður en menn verða sammála um að ráðast í virkjun þar.

Fljótsdalsvirkjun er í 500–600 m hæð yfir sjávarmáli eða verulegur hluti framkvæmdasvæðisins. Þar er nýtt virkjunarsvæði og sjálfsagt óttast margir að hún muni ekki verða tilbúin nægilega snemma.

Sultartangi gæti líklega orðið fyrstur í röðinni, ef ráðist væri í hann, en þau jarðlög, sem gera þar virkjun hagkvæma, valda þar líka erfiðleikum með leka sem fram hefur komið þarna fyrir ofan.

Þrjár virkjanir höfum við, því höfum við keppt að, til að velja á milli en væntanlega stöndum við frammi fyrir talsverðum héraðadeilum um þessar virkjanir því að allir vilja fá virkjanir eins og staðan er.

Það er auðvitað rétt, að virkjunarmálin er ekki hægt að slíta úr tengslum við atvinnumálin og það skiptir miklu máli hver orkunýtingin er. Menn horfa mikið til orkufreks iðnaðar, og ég skal ekki draga úr því, að okkur er nauðsynlegt að nýta orkulindir okkar og fá úr þeim eins mikið fé og unnt er. En ég vil benda mönnum á að reynslan af okkar orkufreka iðnaði er ekki sérlega glæsileg.

Álsamningurinn, með því lága raforkuverði sem þar er, er okkur að verða fjötur um fót. Við verðum að fá þann samning endurskoðaðan. Það eru grundvallaratriði sem hafa breyst í öllum orkumálum veraldarinnar síðan sá samningur var gerður, en samningurinn er samt enn með bundið lágt orkuverð. Þessi samningur minnir mig á 12 mílna landhelgissamninginn við Breta. Við verðum að brjótast út úr honum, fá hann endurskoðaðan, brjótast út úr honum á sama hátt og landhelgissamningnum á sínum tíma.

Ef ég man rétt er gert ráð fyrir að hallinn af málmblendiverksmiðjunni verði þó nokkuð margir milljarðar á þessu ári. Þetta verða menn að hafa í huga. Það er fleira matur en feitt kjöt. Það er fleira iðnaður en orkufrekur iðnaður. Það verða menn líka að hafa í huga. Ýmis léttur iðnaður, sem byggist á hugvita og þekkingu, er mjög mikils virði í þessu sambandi og þar ættum við líka að taka á.

Það er enginn vafi á því, að það er nauðsynlegt að taka ákvörðun um næstu virkjun fyrir þinglok. E. t. v. er rétt að taka ákvörðun um tvær virkjarnir eða tímasetja allar virkjanirnar þrjár, en umfram allt verður að leggja þunga áherslu á að iðnrh. fái þm. hið allra fyrsta í hendur öll nauðsynleg gögn um þessa þrjá virkjunarkosti svo að þeir hafi nauðsynlega undirstöðu og séu í stakk búnir til að taka ákvörðun sem tæpast getur dregist lengur.