10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér hafa orðið ítarlegar umræður um orkumál og ekki að ástæðulausu þar sem ljóst er að ákvarðanir um næstu virkjanir þarf að taka hið fyrsta. Hér hefur verið lýst af mörgum ræðumönnum kostum þess að virkjað sé við Blöndu, og ég held það sé nú búið að segja flest það sem segja þarf í því sambandi og ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þann þátt málsins, en ég hef sjálfur margoft lýst yfir stuðningi mínum við virkjun Blöndu og vil gera það hér enn.

Ég verð hins vegar að segja að fyrir eins og hálfum til einum áratug var það í mínu kjördæmi talsvert mikið álitamál hvaða virkjun ætti að verða næst fyrir valinu og fyrst fyrir valinu af stórum virkjunum þar. Þá var tiltölulega lítill orkumarkaður þar fyrir hendi, — landið ekki samtengt eins og nú er, — og menn deildu um hvor virkjunin væri heppilegri, Villinganesvirkjun eða Blönduvirkjun. Við óttuðumst það margir, að ef Blanda væri virkjuð við þær aðstæður yrði það til þess að farið yrði að selja verulegan hluta af orkunni til erlendrar stóriðju á lágmarksverði, eins og vond reynsla er af hér á landi, og ég var satt að segja alls ekki hrifinn af því að mál tækju þá stefnu, taldi þá hyggilegra að byrja á Villinganesvirkjun. En nú er gjörbreytt staða orðin í þessum málum og það fyrir allnokkru. Landið er allt orðið að samtengdu kerfi í raforkumálum, og nú er það svo, að Blönduvirkjun upp á 160 til 170 mw. er alls ekki stór virkjun. Það er hægt að nýta hana í þágu landsmanna allra nokkurn veginn tafarlaust eftir að hún hefur verið byggð og engin sérstök hætta á að menn telji óhjákvæmilegt að tengja hana við stóriðju erlendra manna.

Vissulega hefur það verið áhyggjuefni margra hversu miklar deilur hafa orðið um þá landeyðingu á heiðum uppi sem virkjunin veldur, en að sjálfsögðu er það fyrst og fremst samningamál. Það er samkomulagsatriði og framkvæmdaatriði sem auðvitað er hægt að finna lausn á ef vilji er fyrir hendi. Ég tel það mjög gott, að nú í seinni tíð eru ört vaxandi líkur á að viðunandi samkomulag geti tekist um fyrirkomulag þessarar virkjunar. Mér finnst að menn tali um þessi mál af talsvert miklu meiri skynsemi en þeir gerðu fyrir kannske einu til tveimur árum og menn geri sér ljóst að finna verði lausn á þessum vandamálum og að hún hljóti að vera innan seilingar. Í því sambandi vit ég taka það fram, að auðvitað koma ekki til greina neinir afarkostir í samningamálum. Auðvitað verða samningar að vera af því tagi að virkjunin sé áfram í hópi hagkvæmra virkjana og þar verða menn að kunna sér hóf í kröfugerð og leita að lausnum sem eru raunhæfar.

Ég er sem sagt sæmilega bjartsýnn á að menn finni rétta niðurstöðu í þessum efnum, og þá virðist það blasa nokkuð ljóst við að Blanda sé einn allra hagkvæmasti kosturinn sem völ er á. Ég legg hins vegar á það áherslu, að við Íslendingar erum að taka ákvörðun um virkjun í sameiningu. Við erum ekki að taka ákvörðun um virkjun í þágu einhvers sérstaks landshluta eða í þágu einhvers ákveðins hóps manna sem vantar atvinnu. Við erum að taka ákvörðun um virkjun sem á að nýtast landsmönnum öllum og þar verður auðvitað hagkvæmnisjónarmiðið að vera allsráðandi. Við verðum að velja hagkvæmasta kostinn. Ég er ekki, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, í neinum vafa um að Blanda stendur mjög vel að vígi í þeim samanburði.