10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

198. mál, Laugavegur 166 (Víðishúsið)

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hve mikill er kostnaður orðinn við húseignina? Óskað er sundurliðunar á heildarkostnaði: a) kaupverð, b) viðgerðarkostnaður, c) annar kostnaður og gjöld.

2. Hve mikill er áætlaður sundurliðaður kostnaður við að koma öllu húsinu í nothæft ástand? (Verðlag jan. 1981.)

3. Hverjar eru áætlanir varðandi viðgerðarframkvæmdir og nýtingu húsnæðisins?

4. Hverjar eru áætlaðar greiðslur fyrir leiguhúsnæði ríkisstofnana og ráðuneyta á árinu 1981? (Kostnaður vegna menntamálaráðuneytis sérstaklega tilgreindur.)

Skriflegt svar óskast.

Svar við 1. lið.

Kaupsamningur er dagsettur 15. febrúar 1978. Kaupverð alls hússins var 259 millj. kr. Útborgun, sem greiddist á einu ári, var 130 millj. kr. Eftirstöðvar, 129 millj. kr., greiðast á næstu fimm árum eftir undirritun kaupsamnings með jöfnum afborgunum. Engar áhvílandi skuldir voru yfirteknar.

Af eftirstöðvum kaupverðs (129 millj. kr.) greiðast 13% ársvextir af skuldinni eins og hún er á hverjum tíma. Af einstökum útborgunarliðum greiddust ekki vextir.

Afhending hússins átti sér stað hinn 1. mars 1978 að því er 2., 3., 4. og 5. hæð varðar, en afhending 1. hæðar fór fram 1. september 1978.

Ríkisútgáfa námsbóka, nú Námsgagnastofnun, er talin kaupandi 1. og 2. hæðar og eiga 42,47% heildareignar. Ríkissjóður (forsætisráðuneyti) v/Stjórnarráðs Íslands er talinn kaupandi 3., 4. og 5. hæðar eða 57,53% eignarinnar.

Menntamálaráðuneytið svarar fyrirspurnum skv. b.-lið og c.-lið að því leyti er þær snerta 1. og 2. hæð hússins með svofelldum hætti:

„b) Viðgerðarkostnaður greiddur af Námsgagnastofnun 1978–1980 nam 14.496.131 gkr.

c) Annar kostnaður greiddur af Námsgagnastofnun er fasteignagjöld, sem á sömu árum voru 7.424.054 gkr.“

Viðgerðir eða endurbætur hafa ekki farið fram á þeim hluta fasteignarinnar sem keyptur var til afnota fyrir Stjórnarráð Íslands. Fasteignagjöld hafa verið greidd vegna 3., 4. og 5. hæðar á móti Ríkisútgáfu námsbóka í samræmi við eignarhluta.

Svar við 2. lið.

Menntamálaráðuneytið svarar fyrirspurninni og fjallar um viðgerðarkostnað alls hússins:

„Samkvæmt frumkostnaðaráætlun frá Húsameistara ríkisins, dags. 28.08.1978, var lagfæring hússins að utan (veggir, gluggar, þak) talin kosta 2,45 millj. kr. og frágangur lóðar og gerð bifreiðageymslu húss 1,04 millj. kr. Samkvæmt frumkostnaðaráætlun teiknistofunnar Arkhönn frá 02.10.1978 var kostnaður við frágang innanhúss áætlaður 3,36 millj. kr. á hverja hæð nema á fyrstu hæð 2,78 millj. kr. eða alls 16,22 millj. kr. Samtals var endurbyggingarkostnaður því áætlaður 19,71 millj. kr. og er þá miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í janúar 1981 eða 626 stig.“

Svar við 3. lið.

Menntamálaráðuneytið svarar fyrirspurninni að því er varðar 1. og 2. hæð svo:

„Samkvæmt ákvæði í fjárlögum er heimilt að taka allt að 1 millj. kr. lán og nota það ásamt söluandvirði húseignanna Tjarnargötu 12 og Brautarholt 6 til endurbóta á hluta Námsgagnastofnunar í Laugavegi 166. Skv. bréfi Námsgagnastofnunar frá 05.02.1981 gerir stofnunin ráð fyrir að verja fé þessu í eftirfarandi;

1. teikningar á innréttingu,

2. lagfæra lagerhúsnæði í Nóatúnsálmu,

3. innrétta kennslumiðstöð á 1. hæð.

Endanlegar ákvarðanir um fyrirkomulag og framkvæmdir einkum á 2. hæð er þó ekki unnt að taka fyrr en niðurstaða liggur fyrir varðandi viðgerð á veggjum, gluggum og lögnum.“

Til viðbótar þessu svari er rétt að minna á að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1981 er ætlað að verja 1 milljón króna til að greiða viðgerðarkostnað við húsið og er þá fyrst og fremst stefnt að því að koma þaki í viðunandi horf og forða húsinu þar með frá frekari skemmdum en orðið hafa.

Að svo stöddu er óráðið um not 3., 4. og 5. hæðar. Nú standa yfir viðræður milli ríkissjóðs og Sambands íslenskra samvinnufélaga um hugsanleg kaup ríkissjóðs á húseign Sambandsins við Sölvhólsgötu. Takist þar viðunandi samningar munu áform um not húseignarinnar að Laugavegi 166 fyrir ráðuneyti að sjálfsögðu verða lögð til hliðar. Alþingi hefur veitt heimild til að selja þessar hæðir en til eru þær ríkisstofnanir sem nú eru í leiguhúsnæði er nýtt gætu húsnæði þetta án þess að kostnaður við breytingar á því yrði mjög mikill.

Svar við 4. lið.

Greiðslur ríkisins fyrir leiguhúsnæði nema um 1 028 þús. kr. á mánuði miðað við vísitölu atvinnuhúsnæðis 1883 stig, sem gildir í janúar 1981. Vegna verðstöðvunarlaga er ekki fyrirsjáanlegt að þessi grunnvísitala breytist fyrir 1. maí 1981.

Gert er ráð fyrir að hækkun húsaleigu nemi 17% 1. maí, 8% 1. júlí og 11,5% 1. október. Þessar hækkanir jafngilda 41% hækkun á leiguhúsnæði frá upphafi til loka árs. Þannig myndu greiðslur fyrir húsaleigu ríkisins nema alls um 14 759 þús. kr. á árinu 1981 miðað við gefnar forsendur. Heildargreiðslur á vegum menntamálaráðuneytisins nema um 4 229 þús. kr., eða ca. 29% af heildargreiðslum ríkisins í leigugjöld, þar af nema leigugreiðslur ráðuneytisins sjálfs um 440 þús. kr. á árinu 1981.