11.03.1981
Efri deild: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er til meðferðar frv. til l. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, 220. mál Ed.

Sjútvn. þessarar deildar ræddi frv. á fundi 4. mars s. l. og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Guðmundur Karlsson og Egill Jónsson skrifa undir nál. með fyrirvara, en fjarverandi afgreiðslu þess voru Gunnar Thoroddsen og Kjartan Jóhannsson.

Meginefni þessa frv. er að framlengja olíugjald til fiskiskipa til ársloka 1981. Þetta gjald hefur verið 7.5% af fiskverði.

Frv. um olíugjald til fiskiskipa hefur æðioft verið á borðum þm. s. l. tvö ár, en það var tekið upp með lögum fyrir réttum tveimur árum og var þá ákveðið 2.5%. Þá kostaði gasolíulítrinn 68.90 kr., en hefur nú verið hækkaður í dag og er því núna kominn í 2.60 eða 260 gkr. lítrinn. Í mars 1979 kostaði svartolían 40.50 kr., en með þessari hækkun, sem við heyrðum núna, er lítrinn kominn í 201 kr.

Eftir þessar hækkanir, sem nú eru kunnar, hefur gasolía hækkað um 68% frá því í júní í sumar, en svartolía þó enn meir eða um hvorki meira né minna en rétt um 99%. Þessi holskefla olíuhækkana, sem nú ríður yfir útgerðina, er geigvænleg og mun kosta útgerðina á einu ári hvorki meira né minna en um 6 milljarða gkr.

Ég vænti þess, að hv. alþm. átti sig á þeim mikla vanda sem hér er við að fást. Ef svo heldur fram sem horfir sé ég ekki hvernig sú undirstöðuatvinnugrein, sem nær allt okkar efnahagslíf byggist á, fær undir risið. Ég legg þunga áherslu á að unnið verði af fullri festu og hraða að frekari lausn þessa vanda. Það atriði var lítillega rætt á fundi sjútvn. þegar þetta olíugjald var þar til meðferðar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál hér og nú þó að vissulega gefi það tilefni til ítarlegra umræðna. Það olíugjald, sem hér er ákveðið, kemur ekki nema að hluta til með að bæta útgerðinni þær gífurlegu olíuhækkanir sem orðið hafa. Það verður að leita annarra leiða. Ég vil hvetja hæstv. sjútvrh. og treysti honum til að sjá svo um að ýtt verði rösklega úr vör til að forða hér frá frekari áföllum.