11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

243. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Guðmundur 7. Guðmundsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er um fjallað á þskj. 475 er ekki viðamikið að efnisbreytingum, en þó býsna viðkvæmt fyrir ýmsa þá sem hlut eiga að máli. Hin fræga 66. gr. laga um tekju- og eignarskatt hljóðar svo nú, með leyfi forseta:

„Heimilt er skattstjóra að taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem hér greinir:

1. Ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega“.

Síðan eru talin hér upp sjö atriði. Sjöundi liðurinn er sem dæmi: „Ef maður lætur af störfum vegna aldurs og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.“

Brtt., sem felst í frv. sem við flytjum, er sú, að í staðinn fyrir að heimilt sé skattstjóra komi: „Skattstjóri skal taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem hér segir.“ Síðan eru allir liðir óbreyttir, en síðasta málsliðnum breytt til samræmis við upphafið.

Sannleikurinn er sá, að það er ekki minnsti vafi á að hugsun löggjafans, þegar þessi lög eru samþykkt, er sú, að þegar svo stendur á fyrir fólki sem hér er til greint, skuli taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns. — Reyndar ætti að lögleiða sérstaklega ef maður lætur af störfum vegna aldurs og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum o. s. frv. Það er full ástæða til að lögleiða slíkt alveg sér á parti.

Það, sem knýr okkur til að flytja í frv. þessa brtt., kemur fram í grg., að eins og ég tók fram áðan er ekki vafi á hver er hugsun löggjafans þegar þessi lög voru sett, en reyndin er sú, að túlkun er mjög mismunandi hjá hinum ýmsu skattstjórum og ákaflega mismunandi úrskurðir skattstjóra í þessum efnum þó í sama skattumdæmi sé. Að vísu er það, að mörgum þeim, sem hlut eiga að máli og þarna hafa mesta þörf, er hreinlega ekki kunnugt um þessi ákvæði og þennan rétt sinn, að þeir eigi þennan rétt ef þeir verða fyrir þessum áföllum.

Við flm. viljum taka þarna af öll tvímæli um það, að skattstjóra beri skylda til að taka fullt tillit til lækkunar á tekjuskattsstofni vegna veikinda o. fl. samkvæmt þessari grein. Ég vil fá það afdráttarlaust og skýrt fram í lögum að það sé skylda skattstjóra. Það eru hér skýringarákvæði sem fylgja um að þetta sé ekki heimildarákvæði, — ef þessi skilyrði séu fyrir hendi sé það skylda viðkomandi skattstjóra að gefa eftir, það sé engin geðþóttaákvörðun tekin þar að lútandi.

Ég tek það fram, að í fjölmörgum tilfellum bregðast skattstjórar vel við og afgreiða þessi mál vel og drengilega. Í öðrum tilfellum er mér hulin ráðgáta hvernig þeir úrskurða oft og tíðum og skjóta sér oft og tíðum bak við að í 66. gr. sé heimildarákvæði sem nánast sé á þeirra valdi hvort þeir nýti eða nýti ekki.

Með því að samþ. frv. þetta tel ég að réttur þess fólks, sem lendir í erfiðleikum á borð við þá sem eru tilgreindir í lögunum, sé betur tryggður en fyrir var og þess vegna sé frv. til bóta.

Ég legg til að eftir 1. umr. verði frv. vísað til fjh.- og viðskn. Nd.