11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

227. mál, siglingalög

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Árið 1972 urðu miklar umr. hér á Alþingi varðandi tryggingamál sjómanna, þ. e. tryggingar við dauða og örorku. Þá náðist samkomulag á hv. Alþingi um að tryggja samningsbundnar bætur á þann veg, að sett voru ákvæði þess efnis til bráðabirgða inn í siglingalögn sjálf. 1977 voru svo gerðar miklar umbætur og breytingar á þessu bráðabirgðaákvæði og gilda þær enn í dag, — breytingar sem fólu m. a. í sér ákveðnar upphæðir, sem kæmu til greiðslu þegar slík slys bæri að, og jafnframt viðmiðunarupphæðir við sambærilegar bætur frá almannatryggingum. Jafnframt var í þessu nýja lagaákvæði tekið fram, eins og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu, og skal ráðh. þá innan 6 mánaða breyta upphæðum bóta samkv. bráðabirgðaákvæði þessu í samræmi við það.“

Nú er sú staðreynd ljós, að sjómönnum hefur þótt nokkuð á skorta að þessu lagaákvæði væri fylgt og telja það hafa dregist úr hófi fram oft og tíðum. Sú skoðun hefur líka komið fram hjá tryggingasérfræðingum, að þótt ráðh. sé þetta skylt verði ekki talið að breytingar á fjárhæðum bráðabirgðaákvæðisins taki gildi nema ráðh. auglýsi þær. Því hefur líka verið haldið fram af sömu aðilum, að breyting fjárhæða bráðabirgðaákvæðisins taki þá fyrst gildi er ráðh. auglýsir breytingu, en gildi ekki aftur fyrir sig frá þeim tíma er breyting varð á vikukaupi í almennri verkamannavinnu.

Gildandi bætur til sjómanna eru nú miðaðar við 16. okt 1980 og voru dánarbætur við áramót 83 860 nýkr. — 1. jan. 1981, og örorkubætur 1. jan. 1981 frá 16. okt. 251 570 nýkr. Ef hækkun hefði komið á þessar bætur 1. des. 1980, eins og lagaheimild er fyrir að mati flm., hefðu dánarbæturnar átt að hækka og verða 101 340 nýkr. eða tæpum 2 millj. kr. hærri í gkr. Örorkubæturnar hefðu átt að verða 304 þús nýkr. eða rúmum 5 millj. kr. meira í gkr.

Frv. þetta er m. a. flutt vegna þeirra mannskaða sem hafa orðið á tímabitinu frá 1. des. s.l. Þeir hljóta að vekja þá spurningu, hvort það sé einhver ástæða fyrir löggjafann að skapa efa í brjóstum þeirra, sem bótanna eiga að njóta, eða hafa af þeim réttmætar fjárhæðir, ef lagaákvæðum er ekki fylgt og ekki brugðið nógu fljótt við þegar breyting er heimil. Það er þess vegna sem ég hef flutt þetta frv. nú að beiðni aðila úr sjómannasamtökunum. Þeir hafa margoft bent á nauðsyn þessara breytinga, ekki aðeins í síðustu samningum, heldur og áður. Þeir hafa löngum fengið vilyrði um að þessar breytingar muni komast á, en það hefur ekki enn orðið og því er þetta frv. nú flutt.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, nema frekara tilefni gefist til, og leyfi mér að leggja til að þegar þessari umr. er lokið verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.