11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

245. mál, útvarpslög

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 19 15. apríl 1971, ásamt Alexander Stefánssyni og Stefáni Valgeirssyni. Ég vil — með leyfi forseta — lesa greinina eins og hún kæmi þá fram breytt:

„Ríkisútvarpið hefur einkarétt á útvarpi, þ. e. útsendingu til viðtöku almennings á tali, tónum, myndum eða öðru efni, hvort sem er þráðlaust, með þræði eða á annan hátt. Í þessu skyni reisir Ríkisútvarpið sendistöðvar og endurvarpsstöðvar eftir þörfum.

Ríkisútvarpið skal hafa til útlána fyrir almenningssöfn og sjómannastofur myndsegulbandsspólur með öllu því efni til fróðleiks og skemmtunar er á dagskrá þess hefur verið í a. m. k. tvo mánuði eftir útsendingu, enda takist samningar við réttarhafa efnis.

Heimilt er Ríkisútvarpinu að flytja inn, eiga og reka senditæki, viðtæki og önnur slík tæki, sem eru sérstaklega framleidd fyrir útvarp, enda fullnægi tækin þeim skilyrðum um öldutíðni, útgeislun o. fl. sem ákveðið er samkvæmt atþjóðasamþykktum og reglugerðum varðandi fjarskipti, sem Ísland er aðili að.“

2. gr. þessa frv. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sjónvarpið er áhrifamesti fjölmiðillinn. Samt er það svo, að fjölmennir hópar í þessu þjóðfélagi eiga þess ekki kost að fylgjast með dagskrá þess. Hér veldur annars vegar að þeir þurfa að sinna störfum sínum til sjós eða á landi á sama tíma og útsending sjónvarpsins stendur yfir eða þá að þeir eru búsettir eða dveljast á stöðum sem útsending sjónvarpsins nær ekki til. Hér er um mikla þjóðfélagslega mismunun að ræða.

Sú lausn, sem hér er lögð til, er ekki fullnægjandi til frambúðar hvað dreifingu útsendingarefnis varðar, en ætti að gera mönnum biðina léttari.

Sanngjarnt væri að tollar af myndsegulböndum til þeirra, sem ekki gætu notið sjónvarps með öðru móti, væru felldir niður.

Ég tel að hér sé hreyft sjálfsögðu máli, að útvarpið sinni þjónustu á þann hátt sem hér er lagt til, en að sjálfsögðu væri eðlilegt að gjald kæmi fyrir.

Ég vil bæta því við það sem er minnst á í grg., að ég hygg að skólar muni í framtíðinni nota myndsegulbönd sem kennslutæki og þetta ætti að auðvelda þeim að koma sér upp innan sinna veggja safni af efni sem sýnt hefur verið í sjónvarpinu og hefur kennslugildi.

Ég vænti þess, að menn horfi á þetta frv. með velvild, vitandi að þær stéttir þjóðfélagsins, sem helst verða út undan, eiga það vissulega inni hjá íslenskri þjóð að þær fái að njóta efnis sjónvarpsins sem aðrir þegnar í þessu landi.