12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

241. mál, bætt þjónusta við íbúa Vestur-Húnavatnssýslu

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Á þskj. 473 flytur hv. þm. Þórður Skúlason þáttill. um bætta opinbera þjónustu við íbúa í Vestur-Húnavatnssýslu. Ég vil undirstrika nauðsyn bættrar þjónustu í Vestur-Húnavatnssýslu. Eins og flm. gat um kemur sýslumaður eða fulltrúi sýslumanns síðdegis einu sinni í viku til Hvammstanga og er þá þröngt á þingi í orðsins fyllstu merkingu, biðraðir langar myndast og miklar tafir.

Það hafa, eins og ekki þarf að lýsa fyrir hv. alþm., orðið miklar þjóðfélagsbreytingar á síðustu áratugum eða jafnvel á síðustu árum, og það, sem gott þótti þá, þykir ekki viðunandi núna. Það eru allmörg ár síðan sýslumaður eða fulltrúi hans fór að veita okkur þessa þjónustu. Áður þurftu allir Vestur-Húnvetningar að fara til Blönduóss ef þeir áttu erindi við sýslumann eða sýsluskrifstofu, að því leyti sem ekki var hægt að reka þessi erindi gegnum síma, en símamál Vestur-Húnvetninga hafa löngum verið í hinni mestu úlfakreppu og eru enn árið 1981.

Þessar þjóðfélagsbreytingar hafa m. a. — hvort sem okkur líkar það betur eða verr — leitt til aukinna umsvifa í opinberri umsýslu sem sífellt verður viðameiri. Og er það raunar umhugsunarefni fyrir okkur alþm., hversu langt eigi að ganga á þeirri braut að auka opinbera umsýslu stöðugt. Við hér á Alþingi erum sífellt að samþykkja hvers konar ályktanir og lög sem auka þessa umsýslu. Og við krefjumst aukinnar þjónustu, en kvörtum jafnframt yfir því að þurfa að borga þessa þjónustu í formi skatta eða einhverra annarra tegunda fjárgreiðslna til ríkisins. Er hér enginn flokkur undanskilinn.

Með þessari þáltill. er ekki gert ráð fyrir aukinni þjónustu ef á heildina er litið, heldur tilfærslu á þjónustu. Virðist það eðlilegur vinnumáti að flytja þá þjónustu, sem á að veita fólki í umræddu byggðarlagi, til fólksins sem á að njóta þjónustunnar, fremur en að neyða það til að ferðast um langan veg, að sjálfsögðu í misjöfnum veðrum, til þess að fá notið þessarar þjónustu sem þá oft og tíðum er sú að fá að greiða hin margvíslegustu gjöld til hins opinbera. Eins og frsm. gat um er þetta frá Hvammstanga að telja 120 km leið fram og til baka til þess að hitta sýslumann Húnvetninga og þykir mörgum nóg um.

Ég stend hér og mæli með samþykkt þessarar þáltill. og vænti þess, að sá ráðh., sem fer með þessi mál, athugi þetta mjög svo brýna hagsmunamál og réttindamál þessa byggðarlags og að þessi till., ef samþykkt verður, verði ekki bara pappírsgagn eitt, heldur leiði til aðgerða í þessu mjög svo brýna hagsmunamáli Vestur-Húnvetninga.