12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

124. mál, veiðar og vinnsla á skelfiski í Flatey

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki efast ég um að hjá þeim þremur valinkunnu sæmdarmönnum, sem þessa till. flytja, hafi góður hugur legið að baki. Hins vegar — eins og kom raunar fram í máli síðasta ræðumanns hér — er þessi till. ekki þrauthugsuð. Þar fyrir er svo sem engin sérstök ástæða til að hafa þetta mál í flimtingum hér á Alþingi, ég sé það a. m. k. ekki.

Það er alveg rétt, sem hér hefur fram komið, að í Flatey er nánast engin aðstaða til að vinna skelfisk eins og er. Þar er ekki frystihús, þar vantar vatn, þar vantar rafmagn og þar vantar vinnukraft. Þetta mál hefði því, held ég, átt að hugsa á svolítið öðrum forsendum. Ef menn vilja bæta úr atvinnumálum þeirra sem þarna búa, þá held ég að vænlegra hefði verið að leita einhverra annarra ráða í þeim efnum en þessara. Þar að auki er því við að bæta, að í Stykkishólmi er skelfiskvinnsla meginatvinna þeirra, sem þar búa, og atvinnulíf þess staðar hvílir á þeirri vinnslu. Þess vegna er það miður, eins og gert hefur verið raunar að umtalsefni hér á Alþingi áður, að hæstv. sjútvrh. skuli hafa farið út á þær brautir að dreifa þessum skelfiskkvóta á æ fleiri staði. Nú hafa bæst við Grundarfjörður og síðast Brjánslækur þar sem aðstaða til slíkrar vinnslu mun ekki heldur vera góð. Hefur þess vegna verið farið þar út á hæpnar brautir, að ekki sé meira sagt, og engin ástæða til að fjölga frekar þeim stöðum sem fást við vinnslu skelfisks. Eins og síðasti ræðumaður gat um, þá er mjög fullkomin aðstaða til slíkrar vinnslu í Stykkishólmi og raunar hægt að vinna þar allan þann afla, sem leyft er að veiða, og þó meira væri. Og þar er þetta undirstaða atvinnulífsins.

Ég held að leita beri annarra leiða ef brýnt þykir að bæta atvinnuástand hjá þeim sem í Flatey búa. Ég held að þessi till., þótt ég efist ekki um þann góða hug sem þar liggur að baki, sé ekki rétta leiðin til að leysa það vandamál.