12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

124. mál, veiðar og vinnsla á skelfiski í Flatey

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem hér hefur komið fram bæði hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og hæstv. sjútvrh., en vil aðeins fara örfáum orðum um þetta mál og þá ekki síst þá ræðu sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson flutti áðan.

Nú er það auðvitað lögmál lífsins, að menn hafa mismunandi skoðanir á hinum ýmsu hlutum og menn greinir á um það, hvernig framkvæma eigi eða leiðrétta ýmislegt. En mér ofbýður alveg þegar þessi hv. þm., hv. 7. þm. Reykv., þm. Alþb., formaður Verkamannasambands Íslands, kemur hér upp í ræðustól og er nánast með skítkast í þá íbúa sem þarna eiga hluta að máli, gerir þetta að algjöru gamanmáli, máli sem í hans augum virðist líta út fyrir að vera algjört skrípamál.

Nú langar mig fyrst að vita hvort hv. þm. hefur hér túlkað stefnu Alþb. í þessu máli, hvort hér er um að ræða afstöðu Alþb. til byggðastefnunnar. Ef svo er, þá höfum við það líka. En manni hefur heyrst á a. m. k. sumum frambjóðendum Alþb. víðs vegar um landið að þeir hafi ekki fylgt þessari byggðastefnu Guðmundar J. Guðmundssonar. En ég óska eftir svari við því, hvort hér er um að ræða stefnu Alþb. í byggðamálum.

Ég þakka hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir það, að hann hafði fyrst og fremst trú á því, að ég stæði að slíkum tillöguflutningi að því er varðar byggðastefnuna. Ég tek þetta sem hól um mig, því að hér er í raun og veru um að ræða algjöra byggðastefnu spurningu um það, hvort gera á ráðstafanir af hálfu hins opinbera til að þessi byggð fari ekki í eyði, eða hvort á með tilstuðlan Alþingis að horfa upp á það, að þessi annars blómlega byggð fyrr á árum verði gjörsamlega lögð í eyði. Ég tel þetta því mér til tekna og ég er alveg viss um að það hefur verið þannig meint af hv, þm. Hann hefur meint það svo sannarlega úr sínu stóra hjarta, að þetta væri mjög jákvætt fyrir mig.

Það er út af fyrir sig rétt, að það er ekki mikill mannskapur þarna til þess að vinna. En má ekki fjölga þar? Er það bannmál af hálfu Alþb., að fjölgað sé úti á landsbyggðinni, á þeim stöðum sem geta verið blómlegir ef ríkisvaldið á annað borð leggur sitt af mörkum til þess að svo geti orðið, og það þarf oft á tíðum ekki mikið til þess að það geti orðið. Það er ekki um mikla fjármuni að ræða á þennan stað til þess að þarna geti verið traust byggð, að vísu ekki stór og þarf ekki að vera það, en eigi að síður traust. Það þarf oft ekki að bæta miklu við til þess að íbúarnir, eins og t. d. á þessum stað, telji sig geta unað áfram og orðið þar með þjóðfélaginu kannske að meira gagni heldur en með því að flytja þá í steinkassa hér á Reykjavíkursvæðinu sem litlu sem engu þjónar, þó að ríkisvaldið hafi oft og tíðum lagt ógrynni fjármuna fram til þess, m. a. að kröfu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, — kröfu um að hér yrði fyrst og fremst veitt fjármagn til að byggja steinkassa fyrir fólk utan af landi til að setjast að í.

Hv. þm. sagði: Ef Alþingi ætlar að gera það að leik sínum að samþykkja slíka till., þá er til nóg af peningum. Mér þykir slæmt ef enginn fjölmiðlafulltrúi er hér í dag. Mér þykir afar slæmt ef blaðamaður frá Þjóðviljanum er ekki hér staddur til þess að koma á framfæri við sína lesendur orði til orðs þeim ummælum sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafði um þetta mál í ræðu hér á Alþingi. (Gripið fram í.) Það væri full ástæða til þess, að ritstjóri Þjóðviljans kæmi þessu vel til skila, t. d. til Vestfirðinga, þessum ummælum og þessari afstöðu Alþb. til þessa máls. (Gripið fram í.) Já, ég óska sérstaklega eftir því. Það er ekki svo oft sem Þjóðviljinn greinir frá mínu máli hér á Alþingi. Það er sérstök ósk um það að frá þessu máli verði sérstaklega greint að því er varðar Guðmund J. Guðmundsson, það er mín ósk að svo verði gert sérstaklega, með skilaboðum til ritstjóra Þjóðviljans sem ég veit að er því mjög hlynntur að vel sé frá þessu greint í Þjóðviljanum fyrir Vestfirðinga.

Hv. þm. var að tala um atkvæði. Það er greinilegt að þessi hv. þm. hugsar einvörðungu í atkvæðum. Því fer víðs fjarri að ég geri það eða við hinir sem höfum talað í þessu máli. Hér er fyrst og fremst um það að ræða, að halda í byggð stað sem áður fyrr var blómlegur og getur verið blómlegur með tiltölulega lítilli tilstuðlan af hálfu ríkisvaldsins. Það er skylda ríkisvaldsins að mínu viti að leggja það af mörkum sem til þess þarf að þarna geti áfram verið blómleg byggð.

Þó að á þessu svæði væru eintómir kommúnistar — sem betur fer er ekki svo — en þó að þarna væru eintómir kommúnistar, meira að segja línukommúnistar, þá breyti það engu um afstöðu mína í þessu máli, að það þarf að rétta hlut þessa fólks. Ég hugsa ekki í atkvæðum eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson.

Ég tek að sjálfsögðu undir það — og það er ekki nema eðlilegt að það komi fram — að þetta er kannske ekki eina leiðin sem hægt er að fara til að rétta hlut þessa fólks. Vel má vera að hægt sé að finna aðra leið, sem hentar því eins vel, jafnvel betur, til að styrkja þessa aðstöðu. En þá á líka að kanna það og benda á þá leið, en ekki, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að koma hér upp og gera grín að þessu máli, vera með skítkast í það fólk, sem þarna á hlut að máli, og hafa þetta mál algjörlega í flimtingum hér á Alþingi. Það er ekki þess eðlis og engin ástæða til þess.

Ég skal ekki, herra forseti, fara um þetta fleiri orðum. Sem flm.till. vænti ég þess að sjálfsögðu, að hún fái eðlilega meðferð hér í þinginu og jákvæða, og að menn hafi þetta mál ekki í flimtingum heldur fjalli um það af alvöru, með því hugarfari að gera þurfi tilraun til að bæta stöðu þessa fólks frá því sem hún er, en að Alþingi eða ríkisvald beiti sér ekki gegn því að það geti verið áfram á þessum stað ef það vill vera þar.