12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

124. mál, veiðar og vinnsla á skelfiski í Flatey

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Flatey lætur aldeilis að sér kveða, ég segi það bara. Hún kemst inn í umr. um brbl, og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég fer nú ekki að tína upp þau rök sem ég var með hér áðan gegn þessari till. Og ég fer ekki heldur að svara hv. 1. þm. Vestf., en ég verð að endurtaka að ég held að þetta hafi verið svona eins og þegar maður skrifar upp á víxil fyrir kunningja sinn og svo fellur hann á mann, enda upplýsti hv. 1. þm. Vestf. að hann hefði gert þetta, skrifað upp á þetta, og hann stæði náttúrlega við það, og er ekkert um það að sakast. En ég nafngreindi hann eingöngu vegna þess að hann hefur frábæra þekkingu á atvinnulífi og sjávarútvegi. Ég ætla ekki heldur að svara því, að hann leggur til að nú sé hert á, nú sé bara borað eftir vatni í Flatey. Ég vil ekki tefja tímann með því að ræða við hv. þm. Karvel Pálmason. Hann taldi sér þetta frv. til tekna og til hróss. Hver hefur sinn smekk í því. Og ef hann hefur haldið að ég mælti það af heilum hug að þetta væri honum til hróss, þá hann um það. En það, sem ég vildi segja, ef ræða á í alvöru um þetta mál, er það, að ég mótmæli því sem menn halda hér fram, að ég hafi verið með einhverjar flimtingar eða skítkast í það ágæta fólk sem býr í Flatey. Það kom hvergi fram í minni ræðu. Ég mundi hiklaust styðja allar tillögur sem miðuðu að því á raunhæfan hátt að endurreisa þarna byggð, og það væri þá þáltill. efnislega eitthvað á þá leið, að einhverri ákveðinni nefnd væri fatið að athuga möguleika á endurreisn eða eflingu byggðar í Flatey og kynna sér hvaða atvinnugreinar kæmu til greina og hvaða þættir væru þar árangursríkastir. Þannig á að flytja tillögur. En það á ekki að flytja tillögur sem eru, eins og í þessu tilfelli, á engan hátt framkvæmanlegar eða til þess fallnar að bjarga því fólki sem hlut á að máli. Ég fer ekki að þylja þau rök upp aftur. Ef hv. 1. þm. Vestf. hefði sjálfur samið þessa till. — (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Karvel Pálmason hefur skrifað upp á hana á eftir honum. Hann hefði sjálfsagt lesið hana áður hefði hann séð nafnið hans fyrir á till. En ef svona till. er gerð, þá á hún ekki að beinast að ákveðnum framkvæmdum þar sem viðkomandi möguleikar eru ekki til. Ef það eru fjórar manneskjur atvinnulausar í Flatey, þá vil ég vissulega gera eitthvað í þeim efnum, en ekki með þessum ósköpum. Þetta er ekkert hugsað, þetta er engin markviss tillaga til lausnar vanda fólks í Flatey eða til eflingar byggð í Flatey. Alveg það gagnstæða. Ég vísa því þess vegna frá mér, að ég hafi verið með eitthvert skítkast til fólks í Flatey eða á einhvern hátt verið að gera lítið úr því. Ekkert er jafnfjarri mér og það.

Ég tek undir með hæstv. sjútvrh. um rannsóknir á þessu máli, byggð í Breiðarfjarðareyjum. Hins vegar vildi ég spyrja þá hv. þm., sem aðhyllast byggðarstefnu og hlustuðu hér á Karvel Pálmason hvísla yfir þingsalinn: Er þetta til framdráttar byggðastefnu, svona tillögur? Svona tillögur eru alveg í gagnstæða átt, þær eru til hins gagnstæða og eru til skaða.

Að endingu þakka ég svo hv. þm. Karvel Pálmasyni fyrir að meta mjög vel framlag mitt til byggingar verkamannabústaða í Reykjavík.