15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

3. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Bara örfá orð til áréttingar, vegna þess að ég heyrði ekki betur en að hæstv. dómsmrh. hefði á einhvern hátt misskilið mín orð. Ég er ekki að deila á það, að þyrla skuli hafa verið keypt, heldur eingöngu á málsmeðferðina gagnvart fjárveitingavaldinu, — ekkert annað og aftur ekkert annað. Um hitt er ekki deilt.

Hins vegar er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að við áttum báðir sæti í fjvn. og ræddum raunar þessi mál þar. Núv. ríkisstj. hefur tekið þann hátt upp að skipa ráðherra í auknum mæli til starfa í þingnefndum. Af þeirri reynslu, sem ég hef í fjvn. af ágætu samstarfi við hæstv. dómsmrh., sýnist mér að annir ráðherra og embættisstörf séu með þeim hætti, að þeir hafi ekki mjög mikinn tíma til nefndarstarfa, og það er auðvitað slæmt.

Ég kvaddi mér hljóðs áðan aðeins til að vekja athygli á þeirri staðreynd, að fjvn. Alþingis hefur tvisvar óskað eftir upplýsingum frá dómsmrn., fyrst 22. júlí í sumar og síðan 1. okt., og þær upplýsingar hafa enn ekki borist. Svo einfalt er þetta mál.