12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim þm., sem standa að ósk þessari með hv. þm. Eiði Guðnasyni um skýrslu frá hæstv. menntmrh. um fjárhag útvarpsins. Ég fæ nú ekki séð að hægt sé að taka illa upp fyrir hv. þm. þó hann ræki á eftir þessari skýrslu, ekki heldur þótt hann stillti sig ekki um að minnast á ráðstafanir sem þegar hefur orðið uppvíst um að til mála kemur að gera til þess að ráða bót á fjárhagsvandræðum útvarpsins, enda þótt ég geti ekki að öllu leyti tekið undir það sjónarmið, sem fram kom hjá hv. þm., að stytting dagskrár hlyti að vera hinn versti kostur, og enn þá síður náttúrlega undir þingflokkssamþykkt Alþfl. um að snúast gegn því að dagskrá útvarps verði stytt.

Ég veit það ekki — ég hafði nú ætlað mér það, — jú, hér situr hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, svo að mér er óhætt að segja það sem mér kom í hug þegar hann var að tala, hv. þm., nú fyrir nokkrum mínútum. Þá kom mér í hug sú skilgreining á afstöðu minni til lengdar dagskrár og gæða, að lengd er ekki ávallt mælikvarði á gæði. Ég er ekki viss um að gæði þyrftu að rýrna við styttingu.

En við eigum sem sagt von á svari senn frá hæstv. menntmrh. Ég fagna því. Það er rétt, að um margt var spurt, en það þýðir ekki endilega það, að ritverkið með svörunum þurfi að vera langt. Það sama gildir um þetta eins og dagskrá útvarpsins og hæð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar: Stutt svör, en skýr við þessum mörgu spurningum yrðu vel þegin. En hæstv. ráðh. gerði okkur svo forvitna, jók á forvitni okkar í ræðu sinni áðan, sem mér fannst óþarflega löng og ítarleg, en gaf þó í skyn að við gætum átt vona á býsna merkilegum upplýsingum þegar svörin koma.

Og aðeins vil ég víkja því að hv. þm. Friðrik Sophussyni, sem ég hef að vísu einum tvisvar sinnum áður vikið að honum þegar hann hefur rætt um málefni Ríkisútvarpsins, að ég öfunda hann ekki aðeins af hvatleika hans og snerpu þegar hann skundar hér í ræðustól, heldur einnig af æsku hans, að hann skuli muna svo skammt í ferli Ríkisútvarpsins sem svo lengi sem ég man — og man ég þó alveg frá upphafi tilorðningar þess, orðinn það gamall — hefur æ verið í fjárhagsvandræðum. Hefur þá ekki skipt máli hvort það er hægri stjórn eða vinstri stjórn. Ég bið hv. þm. um að trúa þessum orðum mínum, að einnig svo hefur verið þegar Sjálfstfl. hefur haft tögl og hagldir á fjármálum ríkisins. Leita ber annarra orsaka en hinna flokkspólitísku ef maður vill komast að hinu sanna í málinu.