12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

137. mál, kennsla í útvegsfræðum

Flm. (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 11. þm. Reykv., Ólafi Ragnari Grímssyni, 2. þm. Reykn., Kjartani Jóhannssyni, og 3. þm. Norðurl. v., Stefáni Guðmundssyni, leyft mér að bera fram svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að hafin skuli kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands. Skipuð verði nefnd fróðustu manna, sem undirbúi og skipuleggi námið, og stefnt að því að byrja kennslu eigi síðar en haustið 1984.“

Á síðari árum hefur mikil umræða orðið um þörf aukinnar menntunar fólks, sem starfar í sjávarútvegi, og um þörf almennrar fræðslu um sjávarútveginn. Talsvert hefur verið unnið á þessu sviði af opinberri hálfu og síst skyldi vanþakka það sem vel hefur verið gert, en betur má ef duga skal.

Með bréfi til menntmrh., dags. 1. apríl 1976, fór fiskimálastjóri, Már Elíasson, þess á leit, að settur yrði á fót vinnuhópur til þess að gera tillögur um fyrirkomulag og umfang menntunar og þjálfunar fólks á framhaldsskólastigi fyrir sjávarútveg og fiskiðnað, ekki síst í tengslum við núverandi og væntanlega fjölbrautaskóla. Jafnframt var sett fram ósk um að reynt yrði að láta þetta nám fara fram sem víðast eða a. m. k. hluta þess.

Um mánaðamótin jan-febr. 1976 var myndaður vinnuhópur undir forustu Más Elíassonar fiskimálastjóra. Voru hugmyndir um starfsáætlun að setja fram fyllri áætlanir um kynningu námsefnis í 8. og 9. bekk grunnskóla, sem yrði starfskynning, leggja útlinur að námsefni í sjávarútvegsgreinum, sem kenna mætti í 1. bekk framhaldsskóla (fjölbrautarskóla), að ræða tengst við verknámsskóla og þá sérstaklega Vélskólann, Stýrimannaskólann og Fiskvinnsluskólann.

Hópurinn starfaði vel hélt marga fundi og fékk fjölda manna til skrafs og ráðagerða. Ýmsar íhugunarverðar staðreyndir komu fram í starfi hópsins og niðurstöðum. Skortur virtist vera á fólki með praktíska menntun í fiskiðnaði, ungt fólk leitaði ekki sem skyldi inn í þessa þýðingarmiklu atvinnugrein. Talið var að ungt fólk legði ógjarnan út á námsbraut sem ekki væri skipulögð og skilgreind frá upphafi til enda. Staðhæft var að fiskverkunarstöðvarnar yrðu á taka að sér í ríkara mæli þjálfun fólks, ella yrði ekkert þjálfað starfsfólk til innan skamms tíma. Mikil vélvæðing hefur átt sér stað í fiskiðnaði hér hin síðari ár sem kostað hefur mikla fjármuni. Með tilliti til þess virðist auðsætt að gera verður meiri kröfur til þjálfunar starfsfólks en áður. Hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað gagnvart fiskveiðum og fiskiðnaði og virðing skapast fyrir starfsgreinunum. Óeðlilegt er að sjómenn og fiskiðnaðarmenn fái ekki grundvallarfræðslu í náttúrufræðigreinum, svo sem í haffræði, veðurfræði, fiskilíffræði og fleiri skyldum greinum. Sjávarútvegur og fiskiðnaður er flókin atvinnugrein, samspil milli líffræðilegra og haffræðilegra lögmála er flókið og í mörgum tilvikum lítt þekkt.

Starfshópur um sjávarútvegsbrautir á framhaldsskólastigi, sem í voru Gerður G. Óskarsdóttir skólastjóri, Sigurður Haraldsson skólastjóri og Þorsteinn Gíslason skipstjóri og kennari, skilaði niðurstöðuskýrslu sinni til menntmrn. í mars 1980. Í inngangi að skýrslunni segir svo, með leyfi forseta:

„Fiskurinn í hafinu umhverfis landið er mikilvægasta auðlind Íslendinga. Þjóðarbúskapurinn stendur og fellur með því, hvernig til tekst um nýtingu hans og skiptingu afrakstursins. Samt hefur ekki þótt til þess ástæða hingað til að mennta fólk í skólum til undirbúnings fiskveiða og fiskvinnslu. Ákveðna menntun þarf til þess að vinna önnur matvæli, eins og kjöt, brauð og mjólk, en öllum á að vera í blóð borið að meðhöndla fisk. Þar eð einskis undirbúnings er krafist til að vinna þessi störf njóta þau lítillar virðingar og eru lítils metin til launa. Þekkingarleysi og lítil tengsl milli sjómanna og verkafólks annars vegar og sérfræðinga hins vegar valda oft tortryggni og koma í veg fyrir að hægt sé að beita nauðsynlegum stjórnunaraðgerðum.

Sjávarútvegs er að litlu getið í námsefni grunnskólans, nám tengt sjávarútvegi er nú eingöngu í sérskólum eða á námsbrautum fjölbrautaskóla sem eru í raun hluti sérskólanna. Stýrimannaskóli, Vélskóli og Loftskeytaskóli búa menn undir að stjórna skipum og vélum þeirra og sjá um fjarskiptasamband. Í þessu námi er varla minnst á fisk, líffræði sjávarins eða sögu og félagsfræði sjávarútvegsins. Mjög auðvelt virðist vera að fá undanþágur frá tilskildum starfsréttindum og er það ekki til að efla þessa skóla. Fiskvinnsluskólinn hefur þarna nokkra sérstöðu, en hann er alger fagskóli og býr nemendur undir stjórnunarstörf í fiskvinnslu, en veitir engin lögbundin réttindi. Sama gildir um útgerðartæknanám sem er sérnám án starfsréttinda. Iðnskólar búa menn undir að smíða skip og framleiða og gera við veiðarfæri. Háskóli Íslands menntar matvælafræðinga og matvælaverkfræðinga til eftirlits og rannsóknarstarfa í matvælaiðnaði.

Ljóst er að mikið verk er fram undan á næstu árum í skipulagningu námsbrauta á framhalds- og háskólastigi og námskeiða til menntunar starfsfólks í fiskiðnaði og fiskveiðum, en með auknum gæðakröfum og aukinni tækni á öllum stigum veiða og vinnslu stóreykst þörfin fyrir slíkt nám.“

Síðan er gerð grein fyrir núverandi námsmöguleikum á sviði sjávarútvegs í sérskólunum fjórum og á námsbrautum fjölbrautaskóla sem í raun eru hluti sérskóla. Sérskólarnir eru Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði, Stýrimannaskólinn í Reykjavík, útgerðardeild Tækniskóla Íslands og Vélskóli Íslands. Stýrimannanám fer einnig fram í deildum skólans á Akureyri og Ísafirði, í stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum og fjölbrautaskólunum á Akranesi og á Suðurnesjum.

Hlutverk Fiskvinnsluskólans er að veita fræðstu og þjálfun í vinnslu sjávarafla. Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði útskrifar fiskiðnaðarmenn og fisktækna auk þess sem hann heldur ýmiss konar námskeið fyrir starfsfólk í fiskiðnaði.

Kennsla skólans miðar að því að: a) fiskiðnaðarmenn hafi öðlast nægilega undirstöðuþekkingu, bóklega og verklega, til þess að geta annast almenna verkstjórn, gæðaflokkun og stjórn fiskvinnsluvéla. b) Fisktæknar verði auk þess færir um að annast sérhæfð eftirlitsstörf, verkþjálfun, vinnuhagræðingu, stjórnun og tiltekin rannsókna- og skipulagsstörf. Náminu er skipt í bóklegt og verklegt skólanám og starfsþjálfun á vinnustöðum.

Námstími fer eftir undirbúningi og því, að hvaða námslokum er að stefnt.

Hlutverk Stýrimannaskólans er að mennta skipstjórnarmenn á fiskiskip, kaupskip og varðskip. Skipstjórnarnám er nú í fjórum stigum og veitir hvert stig sérstök skipstjórnarréttindi.

Samkvæmt reglugerð Tækniskólans er útgerðardeild ein af sérgreinadeildum skólans. Hún útskrifar útgerðartækna. Inntökuskilyrði eru m. a. 18 mánaða starfsreynsla í sjómennsku og fiskverkun.

Vélskólinn menntar vélstjóra til starfa við vélgæslu á sjó og landi. Náminu er skipt í fjögur stig sem hvert um sig veitir ákveðin atvinnuréttindi.

Fimm fjölmennir fjölbrautaskólar eru nú starfandi í landinu og fjöldi smærri skóla með fjölbrautanám tengt þessum skólum.

Í Námsvísi fjölbrautaskólanna á Akranesi, í Flensborg í Hafnarfirði og á Suðurnesjum, sem út kom í desember 1978 og yfir 20 skólar í landinu starfa nú eftir, er gerð grein fyrir sjö námssviðum sem hvert um sig skiptist í nokkrar námsbrautir. Á einu þessara sviða, tæknisviði, eru fjórar brautir með nám til undirbúnings starfa á sviði sjávarútvegs. Þær eru fiskvinnslubraut, fisktæknabraut, skipstjórnarbraut 1. stig og vélstjórabraut 1. og 2. stig.

Við Hagaskólann er starfandi sjávarútvegsbraut á framhaldsskólastigi og er það eina framhaldsnámið við skólann. Skiptist námsbrautin í fiskvinnsludeild og skipstjórnardeild.

Við Háskóla Íslands er hægt að stunda matvælafræði til BS-prófs, sem tekur þrjú ár, og matvælaverkfræðiprófs á fjórum árum innan verkfræði og raunvísindadeildar. Námið er undirbúningur undir eftirlits- og rannsóknarstörf í matvælaiðnaði. Einnig geta nemendur úr deildinni farið í kennslustörf í matvæla- og næringarefnafræði í framhaldsskólum.

Þá má geta þess, að í viðskiptadeild Háskólans er valgrein, sem nefnist fiskihagfræði, og í raunvísindadeild er kennd haffræði og sjávarlíffræði.

Í námsefni grunnskólans fer lítið fyrir efni um sjávarútveg. Í lokabekk grunnskólans, 9. bekk, geta skólar ráðstafað nokkrum vikustundum í valgreinar og hafa allmargir skólar siglingafræði og verklega sjóvinnu meðal þessara valgreina. Skólaárið 1978–1979 munu 340 nemendur í 9. bekk í rúmlega 30 skólum hafa verið í siglingafræði og nokkru fleiri í verklegri sjóvinnu.

Starfshópurinn leggur til að skipulagðar verði sjávarútvegsbrautir við fjölbrautaskólana. Við skipulagningu námsefnisins verði annars vegar tekið mið af því, að hér sé um almennt menntandi nám að ræða sem uppfylli þau markmið framhaldsskóla að bjóða upp á víðtæka undirstöðumenntun er stuðli að alhliða þroska nemandans. Hins vegar verði boðið upp á námsefni er veitir nemendum nokkra innsýn í sjávarfitveg landsmanna frá líffræðilegu, félagslegu og rekstrarlegu sjónarmiði. Námið er þannig undirbúningur undir ákveðin störf eða frekara nám og gert ráð fyrir að starfsnám eða önnur tengsl við atvinnulífið verði hluti námsins. Hér er um að velja almennt menntandi nám sem leggur áherslu á fræðslu um hafið, fiskinn og sjávarútveginn.

Í niðurlagi skýrslu starfshópsins segir, með leyfi forseta:

„Hópurinn leggur áherslu á að þær tillögur, sem hér liggja fyrir, verði aðeins fyrsta skrefið í uppbyggingu á námi í sjávarútvegi í landinu. Verði þessar tillögur að veruleika og takist framkvæmd vel er mjög mikilvægt að haldið verði áfram og stofnað til fleiri námsbrauta á framhaldsskólastigi til undirbúnings hinna ýmsu starfa í útgerð og fiskvinnslu í landinu og einnig verði gert átak í uppbyggingu fullorðinsfræðslu á þessu sviði. Æskilegt væri að reynt yrði að greina þörfina á eftirmenntun og þjálfun starfsfólks í fiskiðnaði eins og nefnd á vegum iðnrn. gerir nú í sambandi við annan iðnað.“

Huga þarf að mótun námsleiða að háskólastigi. Sjálfsagt er að hafa samvinnu við aðrar fiskveiðiþjóðir meðal Norðurlandaþjóðanna um þessa uppbyggingu. Við Íslendingar höfum tekið þátt í samstarfi Norðurlandanna um þessi mál og er sjálfsagt og nauðsynlegt að halda því samstarfi áfram. En um leið verðum við að vinna hér heima og megum hvergi síga aftur úr þeirri þróun sem er með öðrum fiskveiðiþjóðum. Norðmenn eru óskoruð forustuþjóð í kennslu í útvegsfræðum. Það tók Norðmenn langan tíma að undirbúa og stofna til kennslu í útvegsfræðum á háskólastigi. Nefndir og ráð höfðu rætt og gert áætlanir um námið frá því fyrir seinni heimsstyrjöld. En það var fyrst árið 1972 að skriður komst á málið. 2. mars 1972 var loks samþykkt tillaga í Stórþinginu um að byrja kennsluna í háskólanum í Tromsø. Byrjað var að kenna strax sama haust en síðan hafa orðið miklar breytingar á náminu og þróun háskóladeildarinnar orðið mjög ör. Markmið kennslunnar er að mennta sem hæfasta starfskrafta fyrir sjávarútveg og fiskvinnslu með alhliða menntun og sérfræðilega þekkingu og með því skapa þá starfsmenn sem sjávarútveginum eru nauðsynlegir en hann hefur til þessa vantað, enda ekki verið til.

Það er skoðun Norðmanna, að þróun samfélagsins krefjist æðri menntunar í útvegsfræðum. Með þeim eru margar og áleitnar spurningar vakandi um ástand auðlinda sjávarins. Hvernig eiga þeir að varðveita fiskstofnana, sem þeir bera ábyrgð á, og hvernig eiga þeir að ábyrgjast endurnýjun þeirra og viðhald? Hvers konar veiðarfæri eiga þeir helst að nota? Hvernig á fiskveiðiflotinn að vera samsettur? Hvernig verður mestri framleiðni náð í sjávarútveginum? Hvernig verður 200 sjómílna fiskveiðilögsagan best nýtt? Hvernig verður fiskveiðum best stjórnað? Hvernig á skipulagið að vera? Hvernig verða auðlindir sjávarins best nýttar? Hvernig verður sjávaraflinn best nýttur til manneldis? Er hægt að finna nýjar aðferðir og tækni til meiri og betri nýtingar auðlindanna? Hver eru áhrif aukinnar tæknivæðingar á fiskveiðarnar og samfélagið? Hver eru áhrif hennar á fiskimanninn og starfsmanninn í fiskvinnslunni, líf þeirra, störf og afkomu? Hvaða áhrif hafa gildandi lög og reglugerðir á þróun og skipulag sjávarútvegsins? Á að reyna að skapa þeim framleiðslueiningum og fiskimannasamfélögum, sem byggja afkomu sína eingöngu á fiskveiðum, áfram lífvænleg skilyrði til vaxtar og viðgangs, eða á að beita áhrifum til breytinga og umsöðlunar í atvinnuháttum? Hvað kemur unglingnum til að velja sér starf við fiskveiðar og vinnslu? Hvernig verður atvinnuöryggi best tryggt í sjávarútveginum? Er stefnt að réttum markmiðum í sjávarútvegi? Hinir ungu og vel menntuðu Norðmenn leita svara við öllum þessum áleitnu spurningum og mörgum fleiri.

Námið í háskólanum í Tromsø tekur venjulega fjögur og hálft ár og er því lokið með kandidatsprófi (fiskerikandidat), en hægt er að vera lengur við nám og ljúka æðri prófum eða gráðum. Grunnnámið felst í líffræði, félagsfræði, hagfræði og tæknigreinum og ýmsum aukagreinum, svo sem stærðfræði, statistik og efnafræði. Þá er kennd rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði, þjóðfélagsfræði og fiskveiðiskipulag og stjórnun. Í síðasta hluta námsins eru tæknifræðileg efni, útgerðar- og skipatækni, haffræði, fiskirækt og framleiðnitækni. Náminu lýkur með eins árs sérhæfingu í líffræði hafsins, fiskihagfræði, fiskirækt, fiskveiðisamfélagsfræði og fiskveiðastjórnun eða fisktæknifræði, og skrifa nemendur lokaritgerð um valgrein sína. Nemendurnir fá því mjög alhliða fræðslu um vandamál í sjávarútveginum, en um leið tækifæri til að sérhæfa sig í valgrein sinni og áhugasviði. Þeir fá heildarsýn yfir allan sjávarútveginn og hvernig vandamál í líffræði, tækni, haffræði, hagfræði, skipulagi og stjórnun vegast á. Þeir ættu því að vera vel til þess hæfir að taka þátt í þeirri skipulagningu, stjórnun og stefnumörkun sem fram undan hlýtur að vera.

Til inntöku í skólann er krafist 18 mánaða starfsreynslu í sjávarútvegi, annaðhvort í veiðum eða vinnslu. Starfsreynslan er talin nauðsynlegur bakgrunnur til þess að nemendur öðlist nægilegan skilning á fræðilegu og bóklegu námi. Krafist er stúdentsprófs eða ámóta undirbúningsmenntunar. Reynslan hefur sýnt að nemendurnir koma úr strandhéruðum Noregs og hefur meðalaldur þeirra verið óvenjulega hár og viðhorf þeirra til námsins mjög jákvætt.

Í Noregi er sjálf sjómannafræðslan einnig að færast á háskólastig. Skip búin háþróuðum tæknibúnaði gera auknar kröfur um tæknimenntun skipstjórnarmanna. Fyrsta kennslan mun hafa byrjað við sjómannaháskóla haustið 1979 og er stefnt að því að stofna níu slíka skóla. Námið mun ætlað stýrimönnum, skipstjórum, vélstjórum og rafeinda- og stýritæknum.

Aukin tæknivæðing kaup- og fiskiskipa okkar gerir stöðugt meiri kröfur um meiri tækniþekkingu og innsýn bæði stjórnenda og undirmanna. Og svo langt er komið, að líta verður á sjómenn sem fagmenn eða sérfræðinga sem eiga kröfur á bestu menntun, fræðslu og þjálfun í fagi sínu, og hlýtur skylda okkar að vera sú að gera þá sem hæfasta til að taka við og nota allar nýjungar í starfi sínu. Ef ekkert verður aðhafst hér verður þess ekki langt að bíða að sjómannsmenntun verður á öllum sviðum minni og lakari en meðal samkeppnisþjóða okkar, þó enn séum við í fremstu röð með sjómannamenntun. Það er mikið og krefjandi starf að skipuleggja og útbúa námsgögn fyrir svo fjölbreytt nám sem sjómannafræðsla er og því ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Hvatinn að tillögu þessari um kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands var viðtöl við Gísla Pálsson, stundakennara við Háskólann, en hann er mikill áhuga- og fræðimaður á þessu sviði. Hann samdi drög að grg. um útvegsfræði og segir þar m. a., með leyfi forseta:

„Hér verða leidd að því nokkur rök, að tímabært sé að skapa sérstakan vettvang fyrir kennslu og rannsóknir á sviði útvegsfræða við Háskóla Íslands. Ef haft er í huga þjóðhagslegt mikilvægi sjávarútvegsins verður vart komist hjá því að álykta að nauðsynlegt sé að auka verulega framboð á vinnuafli sem er sérstaklega menntað á sviði sjávarútvegs. Nokkuð hefur að vísu áunnist í þessum efnum á allra síðustu árum. M. a. hafa verið stofnaðar sérstakar námsbrautir í fiskvinnslu- og útgerðartækni, en engu að síður er ljóst að tengslin milli menntakerfis og atvinnulífs eru afar veik. Tilfinnanlegur skortur er á fjölmenntuðu starfsliði sem er fært um að takast á við vandamál íslensks sjávarútvegs. Þeir starfsmenn, sem lagt hafa stund á háskólanám og starfa nú að útvegsmálum, hafa fyrst og fremst sótt í þekkingarbanka tiltölulegra fárra og þröngra fræðigreina, einkum fiskifræði, haffræði og matvælafræði. Og flestir hafa þeir stundað nám erlendis. Eins og nánar verður vikið að síðar er unnt að leiða veigamikil rök að því, að þessi skipan mála sé afar óhagkvæm þegar til lengdar lætur. Hér skal aðeins minnt á að vandamál útvegsins fléttast inn í öll önnur svið þjóðlífsins vegna þess hve einhæft atvinnulífið er. Við höfum því ekki efni á að beita skammvinnum lausnum sem kunna að koma okkur í koll síðar. Af þessu leiðir að heildarsýn yfir samspilið í sjávarútveginum og tengslin milli atvinnulífs og þjóðfélags eru forsenda fyrir skynsamlegri stefnumótun og ákvarðanatöku.

Margar ástæður eru fyrir því, að tengslin milli menntunar og atvinnulífs eru jafnveik og raun ber vitni. Hér eru aðeins nefndar tvær ástæður. Í fyrsta lagi hefur menntakerfið oft verið sniðið eftir erlendum fyrirmyndum sem jafnan eru sprottnar upp úr mjög framandi umhverfi. Í öðru lagi hefur sjávarútvegurinn orðið helsta atvinnugrein landsmanna á ótrúlega skömmum tíma og kannske er óhjákvæmilegt að menntakerfið beri þess nokkur merki. Að sumu leyti hefur menntakerfið ekki náð að aðlaga sig breyttum atvinnuháttum einfaldlega vegna þess hve hratt breytingarnar hafa gerst. Nýskipan útvegsfræði við Háskóla Íslands getur ekki átt sér stað án ítarlegrar umræðu. Þeir, sem ættu að taka þátt í umræðunni, eru m. a. fulltrúar hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, yfirvöld sjávarútvegs og menntamála og þeir fjölmörgu aðilar sem líklegastir eru til að móta framtíð þessara fræða næstu ár og næstu áratugi. Það er því hvorki tímabært né réttmætt að fjalla á þessu stigi um skipulag útvegsfræðanna, markmið þeirra og tengsl við þá kennslu og rannsóknastarfsemi sem fyrir er í landinu. Þó má minna á að til er sá háskóli sem Íslendingar geta hugsanlega dregið nokkurn lærdóm af í þessum efnum. Hér er átt við háskólann í Tromsø í Norður-Noregi, en árið 1972 fól norska þingið honum að annast rannsóknir og kennslu á sviði sjávarútvegs.

Sérstök stofnun við umræddan háskóla sinnir nú þessu hlutverki og þar er um þessar mundir unnið athyglisvert brautryðjendastarf í ýmsum sviðum fiskveiðirannsókna sem hingað til hafa orðið út undan við hefðbundna háskóla. Nokkrir Íslendingar hafa þegar sótt þangað menntun sína.

Útvegsfræði, sem hér er hvatt til að verði stofnað til við Háskóla Íslands, ætti fyrir margra hluta sakir að vera fjölþættur vettvangur. Markmið slíkrar samhæfingar er menntun starfsliðs fyrir íslenskan sjávarútveg og efling þekkingar á atvinnuveginum og kjörum og lífi fólksins sem störfin vinnur. Þessi vettvangur ætti því að tengja kennslu og rannsóknir á þeim fjölmörgu sviðum sem snerta útveginn, t. a. m. fiskifræði, vistfræði hafsins, fiskihagfræði, félagsfræði fiskveiða, tæknifræði fiskveiða, líffræði og næringarefnafræði. Það, sem mælir með slíkri samhæfingu, er m. a. eftirfarandi:

Hver þannig menntun er óumdeilanlega skeleggt veganesti fyrir það fólk sem í framtíðinni mun annast skipulag einstakra þátta sjávarútvegsins. Slík menntun tryggði þeim heildarsýn yfir atvinnuveginn og það margþætta samspil vistfræðilegra, hagfræðilegra, félagslegra og tæknilegra þátta sem þar eru að verki. Víða um heim er þessi háttur hafður á í menntun starfsliðs fyrir landbúnaðinn þótt enn sem komið er sé sjávarútvegurinn víðast hvar afskiptur í þessu tilliti. Sérstakur vettvangur fyrir rannsóknir á sjávarútveginum yrði mikilsverð hvatning fyrir íslenska vísindamenn. Slíkur vettvangur mundi sameina krafta þeirra sem þegar vinna að skyldum rannsóknum hérlendis, auk þess sem hann mundi stuðla að aukinni þekkingu á ýmsum sviðum fiskveiðirannsókna sem hingað til hafa verið stórum vanræktar bæði hér og víða erlendis. Kennsla í útvegsfræðum mundi njóta góðs af slíkum rannsóknum þegar fram í sækti, auk þess sem þekkingarleit þeirra muni draga fram í dagsljósið haldgóða vitneskju sem nauðsynlegt er að hafa til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir í málefnum sjávarútvegsins. Slík vitneskja er forsenda fyrir skynsamlegu mati á því, hvort opinberar aðgerðir ná tilætluðum árangri eða ekki.

Vegna þjóðhagslegs mikilvægis sjávarútvegsins er samhæfing kennslu og rannsókna á sviði þessa atvinnuvegar mjög brýn. Á sama hátt og við höfum ekki efni á að tefla þorskstofninum í tvísýnu með áhættusömum stjórnunaraðferðum höfum við ekki ráð á að láta sjávarútveginn dankast eða stefna honum í voða með vanhugsuðum áætlunum. Sjávarútvegurinn skipar einnig að öðru leyti sérstöðu sem veldur því, að ástæða er til að gefa honum sérstakan gaum í æðstu menntastofnun þjóðarinnar. Vegna þess að um er að ræða nýtingu á sameiginlegum, en hverfulum auðlindum, sem tryggja verður til frambúðar ef forðast á verulega röskun á lífi og kjörum allra þegna landsins, bera stjórnunarmál útvegsins vott um sérlega áteitin vandamál. Hvernig ber að tryggja nauðsynlega endurnýjun stofnanna, hvaða tækni ber að nota og á hvern hátt ber að endurnýja flotann? Er unnt að benda á nýjar leiðir í nýtingu auðlindanna í hafinu? Á hvern hátt móta tækninýjungar líf og kjör þeirra sem vinna við hráefnisöflun og vinnslu? Hver eru þau skilyrði sem setja framleiðslueiningunum skorður og hver eru vaxtarskilyrði sjávarplássanna? Að hve miklu leyti gæti endurskipulagning á sjávarútveginum stuðlað að lausn á helstu efnahagsvandamálum þjóðarinnar? Og svo mætti lengi telja.

Íslendingar hafa staðið framarlega í alþjóðlegri umræðu um fiskvernd og lögsögu strandríkja, og því er ljóst að fyrirmyndir okkar getum við ekki sótt til annarra þjóða nema að mjög takmörkuðu leyti þegar við teitum að lausnum á stjórnarvanda sjávarútvegsins. Með nokkrum rétti má segja að við stundum tilraunir í útvegsmálum sem aðrar þjóðir mættu draga lærdóm af. Umfram allt verðum við þó sjálf að vera fær um að draga skynsamlegar ályktanir af eigin tilraunum, en ef svo á að verða hljótum við að þurfa að efla mjög innlendar rannsóknir á málefnum sjávarútvegsins í sem víðtækustum skilningi og stórbæta menntun starfsfólks á þessu sviði. Stofnun útvegsfræði við Háskóla Íslands yrði veigamikið skref í þessa átt.

Útvegsfræðin, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, kynnu að verða ómetanleg lyftistöng fyrir Háskóla Íslands jafnt sem helsta atvinnuveg þjóðarinnar. Ef vel er á málum haldið yrðu þau um leið mikilvæg og eðlileg tengsl milli atvinnulífs og menntakerfis.

Starfsmöguleikar fólks með menntun í í útvegsfræðum yrðu við stjórnun í fyrirtækjum, bæði í vinnslu og útgerð, hjá fagfélögum, hjá útflutningssamtökum, í opinberri stjórnun bæði hjá ríki og landshlutasamtökum, hjá Fiskifélagi Íslands, Framleiðslueftirliti sjávarafurða og Rannsóknastofnun sjávarútvegsins. Þá ættu að bíða mikil verkefni í menntakerfinu, í grunnskólum, fjölbrautaskólum, sérskólum sjávarútvegsins og við námskeiðahald og eftirmenntun. Ef sjávarútvegurinn hlýtur þá viðurkenningu í menntakerfinu sem hann verðskuldar verður mikil þörf fyrir vel menntaða kennara. Ekki efast ég um þörf Norðmanna og annarra fiskveiðiþjóða fyrir vel menntað starfsfólk í sjávarfitvegi, en því brýnni verður þörf okkar Íslendinga sem sjávarútvegurinn er þjóðarbúi okkar mikilvægari. Íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir mörgum óleystum vandamálum. Þróun er ör, gömul vandamál eru leyst, en ný skapast sem leysa verður. Okkur vantar fólk með víðtæka alhliða þekkingu sem skoðar vandamálin frá nýjum sjónarhóli.“

Það er því von okkar flm., að alþm. sjái sér fært að samþykkja till. þessa og að framkvæmd hennar auki á veg sjávarútvegsins og virðingu með þjóðinni.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að till. verði vísað til menntmn.