12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

235. mál, innlendur lyfjaiðnaður

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Páli Péturssyni, Jóhanni Einvarðssyni, Davíð Aðalsteinssyni og Jóni Helgasyni lagt fram þáltill. um eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Í því sambandi beiti ríkisstj. sér fyrir eftirfarandi atriðum:

1. Lyfjaverslun ríkisins verði efld og kerfisbundið hafin framleiðsla lyfja í stað lyfja sem flutt eru inn og hagkvæmt væri að framleiða innanlands.

2. Freistað verði að samræma átak innlendra lyfjaframleiðenda til eflingar innlendum lyfjaiðnaði.

3. Lyfjanefnd verði gefin fyrirmæli um að skráning innlendra sérlyfja gangi fyrir erlendum.

4. Innlendum lyfjaframleiðendum verði tryggður greiður aðgangur að lánsfjármagni til fjárfestingar, bæði í byggingum og tækjum.

5. Innlendur lyfjaiðnaður fái aðstöðu til verðlagningar hliðstætt því sem gerist með innflutt lyf.

6. Felld verði niður aðflutningsgjöld af áhöldum og tækjakosti til lyfjaiðnaðar ásamt rannsóknatækjum.

7. Ríkisspítölum og öðrum opinberum stofnunum verði gefin fyrirmæli um að kaupa innlend lyf í stað erlendra þar sem gæði og verð eru sambærileg. Sjúkrasamlög taki ekki þátt í kostnaði við erlend sérlyf ef innlend lyf eru sambærileg að verði og gæðum.

8. Leitað verði samkomulags við lækna um að ávísa á innlend lyf þar sem þau eru sambærileg að verði og gæðum við hin erlendu. Lyfjafræðingum verði gefin heimild til að breyta lyfseðli á erlend sérlyf ef innlend lyf eru sambærileg að verði og gæðum, nema áritun læknis kveði sérstaklega á um annað.

9. Rannsóknastofnun Háskóla Íslands í lyfjafræði verði efld til þess að annast nauðsynlegar rannsóknir fyrir lyfjaiðnaðinn.

10. Skipuleg könnun verði gerð á því, hver hinna erlendu sérlyfja, sem nú eru flutt til landsins, gæti verið hagkvæmt að framleiða innanlands.“

Því hefur oft verið varpað fram, að lyfjaiðnaður sé ein þeirra greina iðnaðar sem ætti að geta blómstrað á Íslandi. Er þá sérstaklega bent á að hér á landi eru margir vel menntaðir lyfjafræðingar, lyfjaiðnaðurinn ætti að geta greitt góð laun, talsverðan hluta þeirra lyfja, sem nú eru innflutt, ætti að mega framleiða í landinu og á Íslandi er að finna ýmis hráefni til lyfjagerðar. Staðan er þó sú, að innlendur lyfjaiðnaður er á undanhaldi. Hlutur innlendra lyfja í heildarverðmæti seldra lyfja hefur farið minnkandi með ári hverju.

Á Íslandi framleiða aðallega þrír aðilar lyf, auk þess er talsverð lyfjaframleiðsla á Keldum og nokkur í apótekum: Lyfjaverslun ríkisins, sem nú býr við endurbætta aðstöðu og er vel í stakk búin til framleiðslu stungu- og dreypilyfja, auk taflna og annarra lyfja. Pharmaco hf., sem hefur lagt áherslu á töfluframleiðslu, en framleiðir auk þess aðrar tegundir lyfja, sem áður voru framleidd í apótekum. Pharmaco hefur reyndar framleiðsluleyfi aðeins til bráðabirgða, en hyggur á bættan húsakost og aðstöðu. Stefán Thorarensen hf. ræður yfir nýrri aðstöðu til töfluframleiðslu.

Innlend lyfjaframleiðsla hefur á undanförnum árum sparað mikið fé. Til sönnunar því má nefna fjölmörg dæmi um samanburð á verði innlendra lyfja og sambærilegra erlendra. Oftast eru í þessu sambandi nefnd lyfin Valíum, sem er innflutt sérlyf, og Diazepam-töflur sem er í reynd sama lyfið og er framleitt hérlendis. 100 töflur 5 mg af Valíum kosta í nóv.1980 9693 gkr., en 100 töflur 5 mg af Diazepam kosta 1568 gkr.

Við athugun aðeins nokkurra töflutegunda, sem Lyfjaverslun ríkisins hefur framleitt, kemur í ljós að Lyfjaverslun ríkisins hefur sparað á þessum töflum eingöngu um 670 millj. gkr. á heildsölustigi á síðustu 10 árum, miðað við innflutning. Hér er miðað við það verð, sem Lyfjaverslun ríkisins selur þessar töflur á, en sjálfsagt þyrfti að skoða nánar bókhald til þess að sjá hvort sparnaður er í raun enn þá meiri en þarna kemur fram.

Sé tekin öll framleiðsla lyfjaframleiðendanna þriggja er hér um miklar fjárhæðir að ræða. Sparnaður ríkisins er mjög verulegur. Nú er það svo, að sjúklingur greiðir í nóv. 1980 3000 gkr. fyrir 100 töflur 5 mg af Valium og Tryggingastofnun mismuninn eða 6693 gkr. Hins vegar mundi sjúklingur greiða 1100 gkr. fyrir 100 töflur 5mg af Diazepam, en Tryggingastofnunin mismuninn eða 468 gkr.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að sjúklingurinn greiðir sama gjald samkvæmt núgildandi reglum, hversu stór sem lyfjaskammturinn er. Þetta freistar manna til að hafa lyfjaskammtinn eins stóran og læknirinn fæst til að hafa hann, þar eð greiðslan er sú sama. Rannsóknir erlendis frá benda til að einmitt af þessum orsökum sé verulegu magni lyfja fleygt, vegna breyttrar lyfjagjafar eða hins takmarkaða geymsluþols þeirra. Vegna þess að greiðslan er sú sama birgja menn sig upp af lyfjum sem þeir þurfa ekki að nota og verða síðan að fleygja vegna takmarkaðs geymsluþols eða breyttrar lyfjagjafar. Óskynsamlegt er að hafa reglur beinlínis hvetjandi í þessa átt og flytja inn dýr lyf sem síðan er hent. Nauðsynlegt er að setja hámark á magn lyfja á hverjum lyfseðli, miða t. d. við eins mánaðar notkun.

Ekki er unnt að slá fram í fljótu bragði hversu mörg þeirra erlendu sérlyfja, sem nú eru flutt inn, mætti framleiða innanlands. Könnun þarf til þess að svara þeirri spurningu. Í grein, sem Guðmundur Steinsson lyfjafræðingur ritaði í des. 1979 og hann nefnir „Innlend lyfjaframleiðsla“, segir hann m. a.:

„Á íslenskum lyfjamarkaði er mikill fjöldi erlendra lyfja, sem á tiltölulega skömmum tíma á að vera hægt að hefja framleiðslu á hér á landi, ef rétt er á málum haldið. Þess má geta, að Pharmaco hf. hefur aðallega beitt sér að undirbúningsrannsóknum á átta lyfjategundum, sem það gæti á næstu tveimur árum hafið framleiðslu á og annað öllum íslenska markaðinum, án viðbótarfjárfestingar í vélum og tækjum. Í dag“ — þ. e. í okt 1979 — „er verðmæti þessara erlendu sérlyfja um 590 millj. ísl. gkr. á heildsöluverði á ársgrundvelli.“

Í okt. 1979 var þarna um að ræða 590 millj. gkr. á heildsöluverði. Þessi tala þessara átta lyfja er í okt. 1980 763 millj. gkr. og gæti hæglega verið um 900 millj. gkr. nú. Hér nefnir Guðmundur Steinsson þó aðeins örfá lyf.

Margir kunna að velta því fyrir sér, hvort einkaleyfi hinna erlendu lyfjaverksmiðja verði ekki þrándur í götu. Einkaleyfi eru tímabundin, en taka ekki til virka efnisins sjálfs, heldur framleiðsluaðferðar þess. Lyfjaverksmiðjur geta fengið einkaleyfi á nafni lyfs og framleiðsluaðferð virka efnisins. Þeir, sem fundið hafa aðrar aðferðir til framleiðslu á hlutaðeigandi efni, selja hins vegar oft „virk efni“ á frjálsum markaði. Íslensk lyfjaframleiðsla byggist fyrst og fremst á efnum sem þannig er unnt að kaupa.

Sumir telja að Íslendingar gætu átt möguleika á framleiðslu á hráefni til lyfjagerðar. Það mál þyrfti að athuga nánar. Vert er að geta frumkvæðis fyrirtækisins G. Ólafsson hf. sem nú hefur hafið tilraunaútflutning á blóði fylfullra mera til lyfjaframleiðslu.

Um röksemdir þess að efla innlendan lyfjaiðnað mætti margt segja. Guðmundur Steinsson nefnir í grein sinni: „Innlendur lyfjaiðnaður veitir erlendum lyfjaframleiðendum samkeppni og heldur lyfjaverði innan sanngjarnra verðlagsmarka.

2. Innlendur lyfjaiðnaður sparar þjóðinni gjaldeyri.

3. Innlendur lyfjaiðnaður eykur innlenda þekkingu á sviði lyfjarannsókna og lyfjaframleiðslu og skapar íslenskum rannsóknarstofnunum frekari möguleika á hagnýtum rannsóknarverkefnum.

4. Innlendur lyfjaiðnaður getur tekið við auknum mannafla, bæði með og án sérþekkingar.

5. Innlendur lyfjaiðnaður er hagkvæmari en ýmis annar iðnaður, þar sem ekki er um að ræða mikla hráefnisflutninga til landsins og framleidd er háþróuð og dýr vara, þannig að hráefniskostnaður er að meðattali 27% af heildarverðmæti.

6. Innlendur lyfjaiðnaður gefur umbúðaframleiðendum aukna sölu.

7. Íslensk stjórnvöld tapa engum tolltekjum þótt þau styðji innlendan lyfjaiðnað.“

Í lyfjalögum, nr. 49/1978, var kveðið á um staðfestingu lyfjaforskrifta og skráningu lyfja og framleiðslu lyfja. Í reglugerð nr. 334/1979 eru síðan ákvæði um skráningu innlendra sérlyfja. Með þessari reglugerð er mjög hert á kröfum til og eftirliti með innlendum lyfjaframleiðendum. Lyfjanefnd sér um skráningu sérlyfja og er algengt að biðtími skráningar sé um tvö ár. Þennan tíma þyrfti að stytta því að innlendum lyfjaframleiðendum er ókleift við núverandi verðlagsákvæði innlendrar lyfjaframleiðslu að leggja í dýrar rannsóknir og athuganir á lyfjum og bíða síðan mánuðum og árum saman eftir skráningu þeirra. Því er í þessari þáttill. bent á nauðsyn þess, að skráning innlendra sérlyfja hafi forgang, sem og nauðsyn þess, að verðlagningarákvæði innlendrar framleiðslu verði rýmkuð.

Lyfjaframleiðsla byggir á mikilli fagþekkingu. Fyrirtækjunum er nauðsyn að auka þessa þekkingu og efla og geta búið yfir hentugasta tækjakosti ef samkeppni við innflutning á að vera raunhæf. Því þarf að leysa þessa framleiðslu undan óraunhæfum verðlagsákvæðum. Sumir nefna lyfjaframleiðslu hérlendis til útflutnings. E. t. v. gæti það orðið á síðari stigum málsins.

Lyfjamarkaðurinn er mjög sérstæður markaður. Kaupandi lyfjanna hefur í flestum tilvikum lítið vit á, hvað hann er að kaupa, og ræður raunar litlu sem engu um lyfjaval. Læknirinn ákveður lyfið, sjúklingurinn neytir þess, en ríkið greiðir fyrir það. Fyrir ríkisvaldið eru því í lyfjamálum margir þættir sem mikilsvert er að hafa gát á. Ýmsar stórar og ríkar þjóðir hafa talið nauðsynlegt að taka lyfjamálin föstum tökum. Í mörgum fylkjum Bandaríkjanna er talið að spara megi verulegar fjárhæðir með því að lyfjafræðingar megi breyta lyfseðli læknis og velja ódýrara lyf þegar um sama lyf er að ræða. Sumar þjóðir gera reglulega athugun á því, hvaða lyf tæknar velja, og aðvara lækna sem velja fremur dýru lyfin. Bretar og Vestur-Þjóðverjar hafa átt í stríði við fjölþjóðafyrirtækin og þvingað þau til að lækka verð á sumum lyfjum. Hérlendis er mikilvægt að innlend lyf séu valin ef verð og gæði eru sambærileg við erlend sérlyf. Enginn vafi er á því, að innlendur lyfjaiðnaður getur orðið mikilvæg atvinnugrein á Íslandi ef rétt er á málum haldið.

Flutningsmenn hafa við tillögugerð notið upplýsinga og ráðlegginga frá þeim Erlingi Eðwald, forstjóra Lyfjaverslunar ríkisins, og Guðmundi Steinssyni deildarstjóra lyfjaþróunardeildar Pharmaco hf.

Ég vil í þessu sambandi alveg sérstaklega leggja áherslu á það, að þegar menn tala um aukningu eða fjölgun atvinnutækifæra á Íslandi hættir mönnum um of að líta til orkufreks iðnaðar, stóriðju eða slíkra fyrirtækja sem krefjast geysilegrar fjárfestingar. Ekki vil ég draga úr því, að okkur sé nauðsyn á að selja okkar miklu orku og fá fyrir hana fé til þess að bæta lífskjörþjóðarinnar. En hitt er enginn vafi, að vaxtarbroddur íslensks iðnaðar getur í talsvert miklum mæli legið í þeim iðngreinum, sem byggja á þekkingu og lærdómi, sem byggja á talsverðu sérhæfðu vinnuafli. Í lyfjaiðnaði eigum við marga góða, vel menntaða menn. En það er ekki bara á því sviði, heldur er ég einnig sannfærður um að í ýmsum léttum efnaiðnaði gætu Íslendingar átt mikla möguleika. Það er vafalaust hægt að framleiða hér mörg hráefni til lyfjaiðnaðar, framleiða hér hormóna og enzym eða hvata úr ýmsum hráefnum, sem hér falla til, svo sem sláturúrgangi og jafnvel fiskúrgangi. Lungu og garnir eru mikilvægt hráefni einmitt í slíkri framleiðslu. Það væri ekki lítils virði ef stjórnvöld mörkuðu stefnu hér í landi um uppbyggingu á slíkum léttum iðnaði, ekki hvað síst vegna þess að fjölmörg þeirra ungmenna, sem leita fyrir sér með háskólanám eða langskólanám, velta því mjög fyrir sér hverju sinni hvert skuli stefna, hvað skuli læra, við hvað fáist vinna. Slík stefnumörkun gæti orðið mörgum hvatning að leggja út í nám einmitt á þessari braut og þá efling fyrir iðnaðinn um leið.

Án þess að lasta greinar eins og félagsfræði og sálarfræði og aðrar slíkar, þá er það auðvitað takmarkað hversu mörgum okkar fámenna þjóð getur veitt atvinnu á slíkum sviðum. Það er því enginn vafi, að einmitt tengsl milli stefnumörkunar stjórnvalda í atvinnumálum sem þessum og Háskólans og hans starfs eru mjög mikilvæg.

Herra forseti. Ég vil leggja til að þáltill. verði vísað til allshn. að loknum umr.