12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

235. mál, innlendur lyfjaiðnaður

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég átti satt að segja von á því að þetta mál yrði sent til atvmn., þar sem ég á sæti, og þar gæfist mér kostur á að fjalla frekar um þetta ágæta mál. Og ég vil nú alla vega biðja hæstv. forseta að kanna það til hlítar, hvort tillagan á ekki fremur heima í atvmn. en í allshn. Sþ. eðli málsins samkvæmt, og beini þeim tilmælum til hæstv. forseta sem er jafnframt einn af flm. málsins. Að sjálfsögðu er þetta ekki neitt stórmál, en það kemur samt sem áður dálítið á óvart, að ætlunin sé að senda það til allshn., þegar skýrt er tekið fram í fyrirsögn að till. sé til þál. um eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Samt sem áður getur það verið álitamál.

Það skal tekið fram, að ég fer ekki fram á að þetta mál færi til nefndarinnar vegna þess að það vanti lyfjagjöf til að lífga þá nefnd við, því að ég get sagt þær fréttir, að hún hélt fund fyrir þingfund í dag og fór þar fram ýmiss konar vinna. Þ. á m. voru sendar út til umsagnar 15 þáltill. og rætt var um 10, sem umsagnir hafa komið um, og ákveðið að halda fundarhöldum áfram strax í næstu viku. (StJ: Það er haft fyrir satt, að hún hafi étið allt þetta Valium sem um getur í þáltill.) Þar sem hv. þm., sem kallar fram í, virðist vera betur að sér um störf þessarar nefndar en ég, þá held ég að ég vísi til hans um frekari störf nefndarinnar. En það skal tekið fram hans vegna, að hv. þm. Garðar Sigurðsson var ekki á fundinum.

Ég vil fyrst af öllu segja það, að það er auðvitað mjög þakkarvert að þessi þáltill. skuli lögð fram hér í Sþ., og það er satt að segja nokkuð óvenjulegt að hv. þm. taki sig til og vinni jafnmikið eins og virðist hafa verið gert við undirbúning slíkrar þáltill. sem þessarar. Ég er þó ekki viss um að allt það, sem kemur fram í þessari till., sérstaklega í þeim tíu liðum sem sérstök áhersla er lögð á, sé með þeim hætti að hvað eina geti orðið lyfjaiðnaðinum hér á landi til framdráttar. Ég hygg reyndar að það sé fyrst og fremst eitt atriði sem gæti jafnvel leyst úr læðingi þann kraft sem til er í landinu, og það er fimmta atriðið, sem fjallar um að innlendur lyfjaiðnaður fái aðstöðu til verðlagningar hliðstætt því sem gerist með innflutt lyf. Þetta er aðalatriði másins. (Gripið fram í.) Þetta er aðalatriði málsins, skal ég endurtaka. Og ég vík að því betur síðar.

Aðrir liðir aftur á móti eru kannske fremur sjálfsagðir hlutir, en sumt orkar hins vegar algjörlega tvímælis, eins og t. d. að fella niður aðflutningsgjöld, sem kemur fram í 6. liðnum. Og þá orkar líka tvímælis 7. liðurinn um það að gefa fyrirmæli um kaup á innlendum lyfjum. Eins og réttilega kemur fram í grg. með þáltill. hefur þetta verið reynt annars staðar og þar er þessu stýrt. En það er ekki sjúklingurinn sjálfur sem ræður hvaða lyf hann tekur, það eru læknarnir sem gera það. Og þeir fara eftir sínum siðareglum, og ég er hræddur um að þeir fáist ekki til að hlíta slíkum fyrirmælum.

Hitt er svo annað mál, að með óbeinum hætti, eins og t. d. er nefnt í grg. þáltill., má auðvitað með vissu millibili benda læknum, sem fyrst og fremst nota dýrari lyfin, á að eftir því hafi verið tekið. Það mætti gjarnan birta slíkt og reyndar mætti birta meira af því, ef um það er að ræða að einstakir læknar skeri sig úr hvað þetta varðar. Á þetta bendi ég ekki vegna þess að þetta kann sjálfsagt að vera æskilegt frá sjónarmiði lyfjaiðnaðarins. Ég bendi á þetta fyrst og fremst vegna þess, að það eru á þessu vankantar, þar sem læknarnir hafa auðvitað að miklu leyti síðasta orðið í þessum efnum. Og það hefur margsinnis komið fyrir, að lyf, sem talin hafa verið jafngóð, hafa ekki reynst það þegar tímar liðu fram, og oft er það þannig, að verðmunurinn liggur í gæðum, þótt hitt sé auðvitað einnig til.

Mér finnst jafnframt í grg. vera gert of mikið úr ágóð a af Lyfjaverslun ríkisins, og ég skal styðja það nokkrum rökum. Þau eru fyrst og fremst þau, að ég efast um að í rekstri Lyfjaverslunar ríkisins sé tekið tillit til hins gífurlega mikla stofnkostnaðar sem hefur orðið hjá fyrirtækinu og allir kannast við sem fylgst hafa með húsnæðismálum Lyfjaverslunarinnar. Mér þykir eðlilegt að á þetta sé bent, því að ekki er alltaf hægt hjá ríkisfyrirtæki að taka rekstrarreikninga fyrirtækjanna og bera þá síðan saman við önnur fyrirtæki. Stundum a. m. k. er ekki tekið tillit til þessa stofnkostnaðar. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er þessu sérstaka máli ekki gjörkunnugur, en ég bendi á að það sé varhugavert að bera þetta saman nema að þessu atriði sé gáð.

Eins og vitað er eru það fyrst og fremst „forskriftarlyf“ og „eftirlíkingar“ sem framleidd eru hér á landi, því að það er hárrétt sem kemur fram bæði í grg. og þar af leiðandi enn fremur í ræðu hv. flm. að rannsóknirnar eru auðvitað langsamlega viðamesti þáttur framleiðslustarfsins. Rannsóknarþátturinn tekur allt að 15 ár við gerð sumra lyfja, og þar þarf að koma til samstarfs framleiðandans og venjulega sjúkrahúsa sem gera tilraunir með lyf. Oftast er það þannig, að það eru mörg sjúkrahús sem gera tilraunirnar, og þá jafnvel við mismunandi skilyrði, þannig að það er fyrst og fremst verkefni fyrir stórþjóðir að efna til slíks rannsóknarstarfs og mjög erfitt um vik fyrir smærri þjóðir og þá ekki síst örsmáar eins og við Íslendingar erum.

Hitt er annað mál, að það er auðvitað fullgilt að framleiða hér lyf sem eru þá forskriftarlyf eða eftirlíkingar. Og það er ekkert óeðlilegt við það nema síður sé, að við gerum það eins og fjöldamargar aðrar þjóðir sem nánast svindla á einkaleyfislöggjöf annarra landa, því að þótt einkaleyfið nái aðeins til framleiðsluaðferðanna er það vitað og opinbert leyndarmál, að einmitt slíkum hugmyndum er nánast stolið, lítils háttar breytt, og síðan eru lyf framleidd án þess að framleiðandinn í öðru landi borgi nokkurn hluta rannsóknarkostnaðarins sem farið hefur í að framleiða upphaflega lyfið.

Í þessu sambandi er m. a. rétt að geta þess, að það er í mörgum tilvikum hægt að kaupa til landsins meira að segja ódýrari lyf, sem framleidd eru með þeim hætti, heldur en sum þeirra lyfja sem Lyfjaverslun ríkisins, svo dæmi sé tekið af innlendum lyfjaframleiðanda, getur framleitt á.

Í þessu sambandi er m. a. rétt að geta þess, að það er í mörgum tilvikum hægt að kaupa til landsins meira að segja ódýrari lyf, sem framleidd eru með þeim hatti, heldur en sum þeirra lyfja sem Lyfjaverslun ríkisins, svo dæmi sé tekið af innlendum lyfjaframleiðanda, getur framleitt á.

Það, sem kannske skiptir mestu máli og ég held að sé aðalröksemdin fyrir því að flytja slíka þáltill., sem ég tel vera góðra gjalda verða og merkilegt og gott framtak, er auðvitað öryggisatriði sem felst í því að hér sé hægt að framleiða lyf, því að þau lyf, sem hægt er að vinna hér á landi, eru þau lyf sem þurfa að vera til öryggisins vegna. Það eru þessi öryggissjónarmið sem ráða þess vegna kannske langmestu um það, að við þurfum að byggja upp innlenda lyfjagerð, auk atvinnusjónarmiðamma sem réttilega komu fram hjá hv. flm. En varðandi þau atriði sérstaklega tel ég að þessi atvinnuvegur eigi aðeins að njóta sömu skilyrða og aðrar atvinnugreinar í landinu. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að hann fái lánafyrirgreiðslu og aðra fyrirgreiðslu bankastofnana eins og aðrar atvinnugreinar. En ég tel varla forsvaranlegt að hann fái niðurfellingu á gjöldum umfram annan iðnað. En auðvitað á hann að fá sömu niðurfellingu og annar iðnaður, og ég veit að hv. þm. er mér sammála um það, að fella þarf niður aðflutningsgjöld af aðföngum iðnaðar, tækjum, vélum og hráefni, ekki aðeins lyfjaiðnaðar, heldur alls iðnaðar í landinu. Og um það hefur verið fjallað í sölum Alþingis mörg undanfarin ár, að ríkisstj. hefur ekki staðið í skilum við iðnaðinn hvað þetta varðar vegna inngöngunnar í EFTA á sínum tíma.

Ég ítreka það, herra forseti, að mér finnst þessi þáttill. vera gott framlag. Ég hef að sjálfsögðu bent á þau atriði sem mér finnst þurfa frekar skoðunar við, og nefnt þau sem ég er ósammála, en tel engu að síður að þetta mál eigi að fá eðlilega og góða meðhöndlun í nefnd. Og ég tel fulla ástæðu til að samþykkja slíka þáttill. með viðeigandi breytingum, ekki síst vegna þess að um þessar mundir er verið að vinna að lyfjadreifingarlagafrv., að því er ég best veit. Og það hefur vissulega þýðingu, ekki síst vegna þess að í vissum tilvikum verður að varast það, að lyfsalar, þeir sem dreifa lyfjunum, og læknar, sem endanlega ákveða hvaða lyf eigi að gefa, séu jafnframt framleiðendur eða innflytjendur á þessu sviði. Og þar læt ég staðar numið varðandi þetta mál, enda e. t. v. kominn inn á of hættulegar brautir.