17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

206. mál, almennar skoðanakannanir

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 399 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um almennar skoðanakannanir. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað liður undirbúningi að setningu reglna eða laga um almennar skoðanakannanir samkv. þál. er samþ. var á Alþingi 23. maí 1979?“

Á 100. löggjafarþingi fluttu þrír þm. Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. v., hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, till. til þál. um almennar skoðanakannanir, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir setningu laga um almennar skoðanakannanir.“

Till. fór til allshn. og fyrir þinglok 23. maí 1979 samþykkti Alþingi shlj. till. þannig breytta frá nefndinni. „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að setja reglur um almennar skoðanakannanir.“

Þegar þessi till. kom fram voru skoðanakannanir dagblaðanna farnar að vekja verulegan áhuga almennings og raunar voru þær marktæk nýjung í þjóðmálum okkar. Var ljóst að hér var um þróun að ræða sem hlaut að verða sjálfsagður þáttur í upplýsingastreymi um skoðanamyndun í landinu, bæði hvað varðar stjórnmál og almenn þjóðmál á hverjum tíma. Voru því flestir á þeirri skoðun, að rétt væri að íhuga að setja vissar reglur um að uppfylla þyrfti tiltekin almenn skilyrði um framkvæmd skoðanakannana til að auka trú fólks á gildi þeirra.

Þegar frsm. allshn. mælti fyrir nál. á Alþingi 1979 sagði hann m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Það er ekki skoðun nm., að með þessari till. sé verið að samþykkja að settar verði reglur til þess að setja almennum skoðanakönnunum einar eða aðrar skorður, heldur fremur að reglurnar, sem settar yrðu, yrðu leiðbeinandi við framkvæmdina og þess efnis, að skoðanakannanir uppfylltu almenn skilyrði um framkvæmdina þannig að fólkið í landinu mætti hafa eitthvert traust á niðurstöðum slíkra skoðanakannana.“

Síðan þessi þál. var samþykkt hafa margar skoðanakannanir farið fram, sérstaklega á vegum síðdegisblaðanna. Hafa þessi blöð augljóslega lagt mikla vinnu og kostnað í þessar kannanir og lagt metnað sinn í að gera þær trúverðugar, þótt um niðurstöður eða aðferðir megi að sjálfsögðu deila. Hefur Dagblaðið greinilega náð forustu í þessu máli og skoðanakannanir þess hafa vakið gífurlega athygli. Hafa ríkisfjölmiðlar, sjónvarp og útvarp, viðurkennt þessar skoðanakannanir með því að taka þær upp sem aðalfréttaefni. Það vekur athygli að Dagblaðið hefur látið skoðanakannanir ná til fleiri þátta í þjóðlífinu en könnunar á sviði stjórnmála. Tel ég ástæðu til að þakka stjórnendum Dagblaðsins fyrir það framtak og forustu í almennum skoðanakönnunum.

Einmitt vegna þess, hversu augljóst það er að almennur áhugi er vakandi í landinu fyrir hvers konar skoðanakönnunum og ljóst er að þær geta haft viss áhrif á skoðanamyndun um margvísleg málefni eða alla vega haft bein áhrif á hvaða mál eru tekin til umræðu manna á meðal, er ég þeirrar skoðunar að setja þurfi grundvallarreglur um skoðanakannanir. Slíkar reglur geta orðið til að styrkja frekar en hitt aðila eins og t. d. síðdegisblöðin eða opinbera stofnun við að gera vandaðar skoðanakannanir sem fólk tekur mark á. En það tel ég raunar mikilvægast að koma um leið í veg fyrir að skoðanakannanir verði ofnotaðar og þar með gerðar marklausar í meðferð.

Herra forseti. Þess vegna taldi ég tímabært að beina þessari fsp. til hæstv. forsrh. um framkvæmd þál. frá 23. maí 1979.