17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

206. mál, almennar skoðanakannanir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í umr., sem urðu fyrir ári eða svo um þáltill. um almennar skoðanakannanir varaði ég mjög við því, að almennar reglur yrðu settar um skoðanakannanir, af þeirri einföldu ástæðu að ég tel hættu á að slíkar almennar reglur gætu orðið mjög hamlandi. Ég tel rétt, úr því að þessi fsp. er fram borin, að endurtaka viðvaranir mínar hér.

Hættan er sú, að ef reglur eru um þetta settar, sem kalla á mjög dýra framkvæmd, getur svo farið, að það standi ekki í valdi nema örfárra aðila að framkvæma slíkar skoðanakannanir. Önnur hætta er sú, eins og hæstv. forsrh. drap á áðan, að ef það yrði niðurstaða nefndarinnar með einum eða öðrum hætti að setja upp einhverja ríkisstofnun eða fela einhverri ríkisstofnun, eins og t. d. Hagstofu, að framkvæma slíkar kannanir er það þar með orðin ríkisákvörðun og jafnvel pólitísk ákvörðun um hvað er spurt, á hvaða tíma er spurt og hvers konar skoðanakannanir yfir höfuð eru framkvæmdar.

Nú er það auðvitað ljóst, og það er öllum í sjálfu sér ljóst, að því fylgir mikil ábyrgð að framkvæma slíkar skoðanakannanir. Má auðvitað deila um þann hátt sem hafður hefur verið á því hjá síðdegisblöðunum tveimur. En engu að síður er það sannfæring mín, að því færri reglur sem um slíkt eru viðhafðar og þeim mun meiri ábyrgð sem er falin almenningi í landinu, hinum almenna blaðalesanda, að draga sjálfur ályktanir, bæði af vinnubrögðum við slíkar skoðanakannanir og niðurstöður þar af, þeim mun betur sé farið.

Ég geri ráð fyrir að ef um slíkar reglur verði að ræða hljóti þær að koma fram í formi lagafrv. Þetta á eftir að koma til kasta Alþingis á nýjan leik. Ég endurtek þær viðvaranir, að séu slíkar reglur gerðar hamlandi fyrir skoðanakannanir kunni það ekki einungis að vera af hinu illa, heldur beinlínis stórhættulegt.