17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (3030)

206. mál, almennar skoðanakannanir

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, að það beri að vara mjög við því að settar séu reglur sem verka hamlandi á framkvæmd skoðanakannana. Hitt er nauðsynlegt, að tryggja að þeir aðilar, sem framkvæmi þessar kannanir, geri það samkv. ítrustu kröfum og séu reiðubúnir að gera gögn sín opinber þannig að aðrir aðilar en þeir sjálfir geti gengið úr skugga um að rétt hafi verið úr könnununum unnið. Víða þar sem skoðanakannanir hafa verið framkvæmdar hefur verið farin sú leið, oftast nær þó með óformlegum hætti, að skoðanakannanastofnanir leggja frumgögn allra kannana sinna inn í tölvustofnanir sem opnar eru öllum almenningi eða öðrum fræðimönnum, sem geta þá gengið úr skugga um hvort meðferð könnunarinnar hefur verið með eðlilegum og réttum hætti. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé í raun og veru eina tryggingin, sem hægt sé að setja í lýðræðislegu samfélagi til að skoðanakannanir fái að njóta sín og þær séu öruggar, að þeir, sem framkvæma slíkar kannanir, verði skyldaðir með einum eða öðrum hætti til að leggja að lokinni könnun gögn hennar inn á opinbera stofnun eða opna stofnun, þar sem hver einstaklingur, sem hefur til þess löngun, getur gengið úr skugga um að úr könnuninni hafi verið rétt unnið. Ég beini því til hæstv. ráðh. og þeirra aðila annarra, sem um þetta mál fjalla, að athuga þann möguleika fyrst og fremst.

Það er rétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði áðan, að viðhorf manna hér á þingi hafa breyst gagnvart skoðanakönnunum. En hitt hefur líka vakið athygli, að eina blaðið í landinu, sem á undanförnum vikum hefur barist hatramlega gegn skoðanakönnunum og reynt að gera þær tortryggilegar með öllu mögulegu móti, er Alþýðublaðið.