17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af orðum hv. þm. Friðriks Sophussonar. Það hefur verið þannig varðandi 6. lið á dagskrá þessa fundar, um lengingu lána til húsbyggjenda, fsp. frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að ég hef rætt um það við hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson á hverjum þriðjudegi frá því að fsp. var lögð fram, að ég mundi svara henni strax og niðurstöður í málinu lægju fyrir. Mér hefur fundist óeðlilegt að taka málið hér upp öðruvísi en niðurstöður lægju endanlega fyrir, en ég væri þó tilbúinn að taka það á dagskrá án þess. Mér finnst því að það sé mjög ómaklega að mér veist í þessum orðum hv. þm. Friðriks Sophussonar. Auk þess lá fyrir að ég gat á þessum fundi svarað annarri fsp. ef óskað hefði verið eftir því.

Iðulega kemur það fyrir, að menn telja heppilegra, bæði þm. og ráðh., að geyma fsp. Ég frábið mér því þau orð sem komu fram hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni í ræðustólnum áðan.